Þriggja barna mæður draga ekkert undan

María Ólafsdóttir og Emma Eyjólfsdóttir halda úti skemmtilegum hlaðvarpsþáttum, Andvarpið …
María Ólafsdóttir og Emma Eyjólfsdóttir halda úti skemmtilegum hlaðvarpsþáttum, Andvarpið - hlaðvarp foreldra. mbl.is/Hari

Þessa dagana reynir á foreldra sem aldrei fyrr. Mörg börn eru alfarið heima á meðan önnur eru mun minna í skólum og leikskólum en gengur og gerist. Fólk reynir að sinna vinnu og börnum af bestu getu og suma daga virðast verkefnin endalaus og ekki vonarglæta í nánd.

Stöllurnar í Andvarpinu-hlaðvarpi foreldra ræða á hreinskilinn hátt um allar hliðar foreldrahlutverksins og standa þétt við bakið á foreldrum á þessum skrýtnu tímum.

Konurnar á bak við Andvarpið eru María Ólafsdóttir og Emma Björg Eyjólfsdóttir. Þær eru báðar þriggja barna mæður. Þær eiga báðar börn með stuttu millibili en börnin eru á bilinu 1-12 ára. Þær hugsa Andvarpið sem vettvang til að anda út úr sér öllu því sem enginn vill segja upphátt en flestir eru að hugsa.

„Oftast er lífið bara ágætt og börnin sæmilega þæg nema kannski rétt á skrímslatímanum. En svo koma þessir dagar þar sem mann langar bara (í smá stund) að gefa þau og er við að bugast, fær síðan samviskubit yfir öllu saman og grenjar sig í svefn,“ segir María og Emma samsinnir þessu. „Við erum flest öll með allt í skrúfunni stundum og það er allt í lagi að viðurkenna það bara,“ segir Emma.

Í þáttunum ræða þær stöllur oftar en ekki um hið nagandi samviskubit sem virðist koma í kaupbæti með foreldrahlutverkinu, væntingastjórnun í daglegu lífi, ruslahauga og polla á gólfunum, börn sem pissa í skúffur og spyrja óendanlegra spurninga.

„Við höfum rætt flest allt sem kemur að meðgöngu, fæðingu, ófrjósemi, brjóstagjöf og uppeldi, ferðalögum með börn, andlega bugun og húmor í barnauppeldi. Einnig höfum við fengið til okkar góða gesti m.a. sálfræðinga sem sérhæfa sig í parameðferð og rithöfunda, leikkonur og markþjálfa í spjall um móðurhlutverkið, daglegt líf og störf,“ segir Emma.

Andvarpið hlaðvarp foreldra má finna á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum auk þess sem þær stöllur halda úti Facebook og Instagram síðu.

HÉR er hægt að hlusta á Andvarpið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert