Jolie segir soninn fara aftur til Suður-Kóreu

Angelina Jolie.
Angelina Jolie. AFP

Leikkonan Angelina Jolie sagði í viðtali við suðurkóreska miðilinn The Dong-a Ilbo að elsti sonur sinn færi aftur til Suður-Kóreu þegar hættan af kórónuveirufaraldrinum væri liðin hjá. Greint var frá því í síðustu viku að Maddox væri kominn heim til Bandaríkjanna til móður sinnar.

Hinn 18 ára gamli Maddox hóf nám við Yon­sei-há­skól­a í Suður-Kóreu síðastliðið haust. 

„Ég gæti ekki verið ánægðari með val Mads á háskóla. Skólinn er að sjálfsögðu lokaður akkúrat núna vegna faraldursins. En hann er ekki að skipta um skóla, hann mun fara aftur um leið og þetta er gengið yfir. Hann nýtir núna tímann til þess að einbeita sér að kóresku- og rússneskunámi,“ sagði Jolie í viðtali við miðilinn í vikunni. 

Jolie segist vera hrifin af Suður-Kóreu og segir fjölskyldu sína heppna að kynnast landinu enn betur í gegnum Maddox á meðan hann stundar nám í landinu. 

Maddox er elsta barn Angelinu Jolie og Brads Pitts. Stjörnurnar eiga fimm önnur börn. Þrjú barnanna eru ættleidd en Jolie gekk sjálf með þrjú. Jolie og Pitt tilkynntu skilnað árið 2016.

Angelina Jolie, Maddox Jolie-Pitt og Brad Pitt.
Angelina Jolie, Maddox Jolie-Pitt og Brad Pitt. AFP
mbl.is