Eiga von á fimmta barninu eftir tvö fósturlát í röð

Alec Baldwin og Hilaria Baldwin eiga enn og aftur von …
Alec Baldwin og Hilaria Baldwin eiga enn og aftur von á barni. AFP

Leikarinn Alec Baldwin og eiginkona hans, Hilaria Baldwin, eiga von á sínu fimmta barni saman. Frú Baldwin greindi frá óléttunni á Instagram í gær, mánudag. Er þetta þriðja meðgangan á stuttum tíma en hún missti tvisvar fóstur í fyrra og greindi opinberlega frá.

Það verður nóg að gera á stóru heimili þegar barnið kemur í heiminn en elsta barnið sem hjónin eiga saman er sex ára. Leikarinn, sem varð 62 ára í byrjun apríl, á fyrir hina 24 ára gömlu Ireland Baldwin með leikkonunni Kim Basinger.

„Ég á ekki til orð til þess að lýsa hvernig mér líður við að heyra þetta hljóð,“ skrifaði frú Baldwin á Instagram og leyfði fylgjendum sínum að hlusta á hjartslátt barnsins. „Var að fá þær góðu fréttir að allt væri í lagi og þessi litla mús væri heilbrigð.“

mbl.is