„Gleymi því oft að ég gangi með barn“

Svana Lovísa á von á barni.
Svana Lovísa á von á barni. Ljósmynd/Aðsend

Svana Lovísa Kristjánsdóttir, vöruhönnuður og bloggari á Svart á hvítu á Trendnet, á von á sínu öðru barni með unnusta sínum, Andrési Garðari Andréssyni. Fjölskyldan er yfirveguð og róleg yfir komandi tímum. Fagurkerinn Svana er til dæmis ekki búin að snúa öllu á hvolf og kaupa nýtt. Svana ætlar að nýta margt sem hinn fimm ára gamli Bjartur Elías notaði áður.   

Svana er komin 33. vikur á leið og segir meðgönguna hafa gengið ótrúlega vel hingað til. „Ég hef yfir litlu að kvarta,“ segir Svana. 

Finnur þú mun á þessari meðgöngu og þeirri fyrstu?

Ég er töluvert rólegri í þetta skiptið og gleymi því oft að ég gangi með barn, nema þegar ég lít niður. Á síðustu meðgöngu mætti ég á æfingar fram að 38. viku og var nokkuð hraust en fékk þó nokkra meðgöngukvilla eins og gallstasa sem lýsir sér sem ofsakláða um allan líkamann og ofan í það kom meðgönguþunglyndi undir lokin sem hvarf sem betur fer eins og dögg fyrir sólu við fæðingu við 42. viku. 

Núna hins vegar í þessu heimsástandi sem er þá er búið að loka á meðgönguleikfimina sem ég sakna mikið, og ég finn vel hvað líkaminn hefur ekki gott af svona mikilli kyrrsetu og þolið orðið miklu minna og örlítið farið að bera á mörgæsagöngulagi í lok dags. Þó er andlega hliðin í góðum málum, 7-9-13, og ég reyni að gera sem best úr allri þessari inniveru, ein með sjálfri mér að vinna, eða með stráknum mínum þá daga sem skólinn hans er lokaður.“

Andrés, Bjartur Elías og Svana Lovísa verða bráðum fjögurra manna …
Andrés, Bjartur Elías og Svana Lovísa verða bráðum fjögurra manna fjölskylda. Ljósmynd/Thelma Gunnarsdóttir

Hef­ur meðgang­an breytt ein­hverju? 

„Hún hefur litlu breytt nema líklega mataræðinu. Ég var búin að vera svaka dugleg í sykurleysi fram að meðgöngu en nánast daginn sem ég varð ólétt byrjaði ég að borða sykur aftur eftir langt hlé og bætti þar af leiðandi mjög hratt á mig ansi mörgum kílóum. En auðvitað skiptir það engu máli á meðan ég og barnið erum heilbrigð.“ 

Svana er þekkt fyrir fallegan stíl og hefur tekið herbergi sem nýttist áður sem geymsla en er þó dugleg að nota gamalt.

 „Við vorum heppilega með aukaherbergi sem nýttist áður sem geymsla sem núna er loksins búið að tæma og mála í fallegum ljósbleikum lit. Við áttum svo til alls kyns húsgögn og hluti fyrir barnaherbergið sem verður nýtt. Við ætlum þó að fá okkur nýtt barnarúm og verður það líklega einn af fáum hlutum í herberginu sem verður nýr. Við komum til með að nýta mjög margt frá syni okkar en ég geymdi mikið af helstu hlutunum til dæmis kerru, leikföngin ásamt heilu kössunum af fötum sem ég sé ekki betur en að ég geti endurnýtt mikið af. Mér finnst mikilvægt að nota áfram hluti eða föt á milli barna, því þrátt fyrir að eiga til ýmislegt eða fá lánað er kostnaðarsamt að fjárfesta í mörgum af þessum nauðsynjarhlutum.

Ég er þó óvenj slök í dag, ég tók samt eitt gott kvöld þegar herbergið var enn fullt af drasli og grét í manninum mínum hvað „allir“ væru með allt tilbúið nema ég. Mjög klassískt stundarbrjálæði óléttrar konu, en ég sá sem betur fer að mér daginn eftir, enda þarf nýfætt barn alls ekkert tilbúið herbergi þó að það sé ljúf tilhugsun. Hver veit svo nema ég nái að græja tilbúið barnaherbergi með allan þennan aukatíma heima í samkomubanninu. Hreiðurgerðin náði þó fljótt út fyrir barnaherbergið og skyndilega fór ég á flug að mála borðstofuna, græja forstofuna og klára eldhúsið. Það er því nóg um að vera á okkar heimili!“

Ertu að gera eitthvað sérstakt til þess að undirbúa fæðinguna?

Ég vildi óska þess að ég gæti svarað þessari spurningu játandi. Síðast fór ég á öll námskeiðin og ætlaði að mastera fæðinguna, en endaði svo í keisara. Verst að það situr ekkert eftir frá þessum námskeiðum fimm árum síðar þar sem það er lok, lok og læs á öllum námskeiðum í dag! Ætli ég komi mér ekki vel fyrir uppi í rúmi og gluggi í nokkrar meðgöngu- eða fæðingarbækur sem mér hefur áskotnast en aldrei nennt að lesa hingað ti.“

Er mikill spenningur á heimilinu fyrir litla barninu? 

„Já, við erum mjög spennt fyrir komandi tímum en þó frekar yfirveguð og alls ekkert með þetta á heilanum, lífið hefur haft sinn vanagang. Við sögðum syni okkar þó frá alltof snemma, eða á um 7. viku því ég vildi að hann vissi fyrstur allra og því hefur biðin verið alltof löng. Líklega missti hann smá áhugann þarna fyrir nokkrum mánuðum. Núna hafa þó nokkrir ungbarnahlutir verið að tínast til hingað heim og skyndilega áttaði ég mig á því að þetta væri raunverulega að gerast!“

mbl.is