„Ég þrái svo að tveir þeir eldri fari að flytja að heiman“

Íslensk móðir leitar ráða því drengirnir hennar sem komnir eru …
Íslensk móðir leitar ráða því drengirnir hennar sem komnir eru yfir tvítugt flytja ekki að heiman. Ljósmynd/Unsplash

Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur svarar spurningum lesenda. Hér fær hún spurningu frá konu sem er orðin mjög þreytt á sonum sínum þremur sem flytja ekki að heiman. 

Góðan dag,

við hjónin eigum þrjá syni sem búa allir heima. Þeir eru allir yfir tvítugt og sá elsti að verða 26 ára. Ég þrái svo að tveir þeir eldri fari að flytja að heiman og gerist sjálfstæðir en það er ekkert fararsnið á þeim. Þeir eru allir í vinnu og borga smá peninga heim en svo fer allt annað í þetta og hitt sem þeir „þurfa að borga“. Hvað er eðlilegt í þessari stöðu? Við búum ekki í stóru rými og þeir fara líka ekki eftir fyrirmælum nema að takmörkuðu leyti.

Kveðja, 

mamman.

Ragnhildur Birna Hauksdóttir.
Ragnhildur Birna Hauksdóttir.

Sæl og kærar þakkir fyrir bréfið þitt.

Þú spyrð hvað sé eðlilegt í þessari stöðu og byrjum þá á tölfræðinni en árið 2016  bjó um fimmtungur fólks á aldrinum 25-29 ára í foreldrahúsum samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands, karlmenn voru þar í meirihluta. Í fjölmörgum löndum er hlutfallið hærra og hæst var það í Króatíu en þar bjuggu yfir 70% fólks á þessum aldri í foreldrahúsum. Það eru því margir foreldrar í þinni stöðu.

Nokkrar rannsóknir benda til að ein algeng ástæða þess að ungt fólk er lengur í foreldrahúsum en áður er ótti við að taka ábyrgð. Þar hefur mögulega skapast ákveðið lært hjálparleysi í þeim tilfellum. Sumir foreldrar þrífa, elda og þvo þvott fyrir börnin sín þrátt fyrir að þau séu orðin fullorðin. Ef svo er, þá styður það ekki við þá ákvörðun að fara að heiman.

Það er engin skýr lína sem segir að nú sé kominn tími til að breyta hlutverkum. Foreldrar verða stundum óöruggir við að fara fram á aukna ábyrgð frá fullorðnum börnum sínum eða styðja við fullt sjálfstæði þeirra.

Dæmi eru um að foreldrar verði óttaslegnir við að setja skýrari mörk, til dæmis að nefna við fullorðna barnið að ef til vill sé tími til kominn  að fara að taka fulla ábyrgð. Sumir upplifa sektarkennd, einhverjir ótta við að unga fólkið standi ekki undir ábyrgðinni eða forðast mögulegt tómarúm í eigin lífi þegar börnin fara að heiman. Í leit minni að efni fyrir svarið mitt rakst ég á mörg dæmi þess að foreldrar láti margt yfir sig ganga áður en þeir taka skrefið að ræða málin um aukna ábyrgð og sjálfstæði. Það er mikilvægt fyrir foreldra að vera í fullri vissu um að það sé í raun ekkert að óttast.

Það kemur skýrt fram í póstinum þínum að þú vilt að tveir eldri synirnir fari að heiman, enda eru þeir fullorðnir menn í vinnu. Því þægilegra sem synir þínir hafa það, mögulega án þess að taka þátt í heimilishaldi því minni líkur eru á að þeir fari að heiman. Þú talar um að þeir borgi smá peninga heim og mögulega er upphæðin þægilega lág í sambanburði við að fara í sjálfstæða búsetu. Hver vill flytja frá slíkum lúxus? Við getum orðað það svo að ungt fólk þarf að langa að fara að heiman.

Það getur verið mikilvægur stuðningur fyrir syni ykkar að finna að þið styðjið við að þeir fari að taka eigin ábyrgð. Skoðið með þeim hvenær það gæti mögulega átt sér stað hvort sem það er mánuður, hálft ár eða meira þá er komin stefna sem allir eru meðvitaðir um.

Við getum gefið okkur að elstu synir þínir vilji ekki afskipti foreldra af því hvernig þeir skipuleggi til að mynda daginn sinn, fjármálin eða annað. Það er eðlilegt enda eru þeir fullorðir einstaklingar. Hversu mikið frelsi hafa þeir á meðan þið búið öll saman? Getur verið að þetta form sé að svipta ykkur öll ákveðnu frelsi? Það má alveg ræða slíkt á kærleiksríkan hátt. Þetta er allt hluti af lífinu.

Ég hvet ykkur foreldrana til að ræða saman fyrst og velja ykkur orð og setningar sem ykkur líður vel með. Enginn þarf að upplifa að honum sé hafnað ef ásetningur ykkar er skýr og byggður á því að allir fái tækifæri til að vaxa.

Með kærri kveðju,

Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ragnhildi Birnu spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert