Ofbeldi gegn börnum á Íslandi ein stærsta ógnin

Ljósmynd/Unsplash

„Í tilefni þrjátíu ára afmælis Barnasáttmálans, á árinu 2019, tóku Barnaheill, Unicef og umboðsmaður barna höndum saman um að gera einstökum þáttum Barnasáttmálans skil með mánaðarlegum greinaskrifum. Við greinaskrifin var stuðst við almennar athugasemdir eða leiðbeiningar Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Greinarnar eru nú endurbirtar ein af annarri á vef mbl.is. Greinarskrifin eru liður í fræðslu um Barnasáttmálann, en til að tryggja megi að börn njóti mannréttinda sinna til fulls er mikilvægt að sem allra flestir þekki réttindi þeirra og lifi samkvæmt bestu getu eftir reglum Barnasáttmálans,“ segir í nýjasta pistli frá Barnaheillum: 

Grein þessi fjallar um rétt barna til verndar gegn hvers kyns ofbeldi. Innihald hennar er tvíþætt en í byrjun hennar má finna umfjöllun um einstakar greinar sáttmálans og hvernig hann stuðlar að öruggara umhverfi og bættum félagslegum aðstæðum fyrir börn. Í lokin má síðan finna hugleiðingar um þá möguleika sem felast í því að auka þekkingu almennings á birtingarmyndum ofbeldis gegn börnum og ábyrgð hinna fullorðnu. 

Markmið Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er að stuðla að félagslegum framförum og bættum lífskjörum með það að leiðarljósi að ríki viðurkenni að öll börn eigi að alast upp innan fjölskyldu, við hamingju, ást og skilning, til þess að persónuleikar þeirra geti mótast á heilsteyptan og jákvæðan hátt. Við slík skilyrði fá börn tækifæri til að verða sjálfstæðir, virkir samfélagsþegnar sem bera virðingu fyrir fólki, náttúrunni og samfélaginu og hafa tök á að leggja sitt af mörkum til þess að gera morgundaginn betri en gærdaginn. Þegar börn upplifa ofbeldi getur það haft mikil og víðtæk áhrif á líf þeirra til frambúðar og mögulega framtíðarkynslóðir – ef þolendur fá ekki aðstoð til þess að vinna úr afleiðingum ofbeldisins. Stjórnvöld sem innleiða Barnasáttmálann í stjórnkerfi sitt eiga að leita leiða til þess að öll börn geti notið réttinda sinna og átt örugga barnæsku sem er laus við ofbeldi.   

Greinar í Barnasáttmálanum sem fjalla um ofbeldi gegn börnum

Í Barnasáttmálanum eru tvær greinar sem fjalla sérstaklega um ofbeldi, annars vegar 19. grein sem snýr að rétti barna til verndar gegn hvers kyns ofbeldi og vanrækslu og hins vegar 34. grein sem snýr að vernd barna gegn kynferðislegu ofbeldi. Þó nokkrar aðrar greinar sáttmálans snerta líka á ofbeldi á einn eða annan hátt. 

Í 19. greininni kemur fram að aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntunarmála til að vernda barn gegn hvers kyns líkamlegu og andlegu ofbeldi, meiðingum, misnotkun, vanrækslu, skeytingarleysi, illri meðferð eða notkun, þar á meðal kynferðislegri misnotkun. Að auki kemur fram að stjórnvöld skulu skapa og viðhalda virkum ráðstöfunum til að koma á félagslegri þjónustu til að veita barni og þeim sem hafa það í sinni umsjá nauðsynlegan stuðning, og til að koma á öðrum forvörnum, svo og til að greina, tilkynna, vísa áfram, rannsaka, taka til meðferðar og fylgjast með tilfellum er barn hefur sætt illri meðferð. Í stuttu máli fjallar 19. greinin um að stjórnvöld, ríkis- og sveitarstjórnir, eigi að beita öllum mögulegum leiðum til þess að börn njóti verndar gegn ofbeldi innan sem utan heimilis og að þau börn sem hafa sætt illri meðferð fái viðeigandi aðstoð. 

Í 34. greininni kemur fram að aðildarríki skuldbinda sig til að vernda börn fyrir hvers kyns kynferðislegri notkun eða misnotkun í kynferðislegum tilgangi. Í þeim tilgangi skulu þau einkum gera allt sem við á, bæði innanlands og með tvíhliða og marghliða ráðstöfunum, til að koma í veg fyrir: (1) Að barn sé talið á eða þvingað til að taka þátt í hvers konar ólögmætri kynferðislegri háttsemi. (2) Að börn séu notuð til vændis eða annarra ólögmætra kynferðisathafna og (3) að börn séu notuð í klámsýningum eða til að búa til klámefni. Í stuttu máli fjallar 34. greinin um að stjórnvöld eigi að beita öllum mögulegum leiðum til þess að öll börn, 0-18 ára, njóti verndar gegn öllum birtingarmyndum kynferðislegs ofbeldis, óháð hvort þau séu hér á landi eða ekki.

Markmið Barnasáttmálans er að búa til samfélög sem veita börnum þau lífsskilyrði sem þau þurfa til þess að geta vaxið og dafnað á heilbrigðan hátt. Þær greinar sem fjalla um vernd gegn ofbeldi eru margar hverjar um sértæk málefni og snúa beint að viðkvæmum hópum barna. Má þar nefna 9., 20., og 25.  greinar sáttmálans sem fjalla um réttindi barna til viðeigandi umönnunar utan fjölskyldu, ef börn hafa sætt vanrækslu eða misnotkun og geta ekki fengið viðeigandi umönnun í umsjá fjölskyldu sinnar. Einnig má nefna 24. greinina sem snýr að heilsuvernd barna en þar segir m.a. að börn eigi rétt á vernd gegn siðum og venjum sem stefna heilsu þeirra í hættu.

39. grein sáttmálans fjallar um rétt barna sem sætt hafa vanrækslu, misnotkun, grimmilegri eða vanvirðandi meðferð eða hafa verið fórnarlömb átaka til viðeigandi meðferðar til að ná bata og aðlagast samfélaginu á ný. 

Ofbeldi gagnvart börnum á Íslandi

Í skýrslunni Staða barna á Íslandi (UNICEF, 2011) var gerð tilraun til að búa til mælistiku á velferð barna hérlendis. Niðurstaða skýrslunnar var skýr:  Ein helsta ógn sem steðjar að börnum á Íslandi er ofbeldi. Í framhaldinu tók UNICEF þá ákvörðun að kafa dýpra og greina ítarlegar umfang og áhrif ofbeldis gegn börnum hér á landi, skýrslan Réttindi barna á Íslandi: Ofbeldi og forvarnir kom út árið 2013. Í henni var fjallað um margvíslegar birtingarmyndir ofbeldis gegn börnum: kynferðislegt ofbeldi, heimilisofbeldi, einelti og vanrækslu. Ógnvekjandi mynd birtist af afleiðingum ofbeldis og tengslum þess við andlega vanlíðan barna og áhættuhegðun. 

Báðar skýrslurnar undirstrikuðu að stjórnvöld þurfi að vinna með markvissari hætti gegn ofbeldi á börnum en hefur verið gert – kynferðislegu ofbeldi, heimilisofbeldi, vanrækslu og einelti. Mælingar á umfangi ofbeldis þarf að gera með reglulegri hætti og stórauka þarf alla umræðu og fræðslu. Mikilvægt er að stjórnvöld standi fyrir reglulegri gagnasöfnun og rannsóknum á ofbeldi gegn börnum. Með tíðum rannsóknum og gagnaöflun væri yfirvöldum gert auðveldara fyrir að taka réttar ákvarðanir á réttum tíma. Með nákvæmari og nýrri gögnum væri auðveldara að réttlæta þær ákvarðanir sem hefðu hagsmuni barnsins best að leiðarljósi.

Jafnframt var bent á nauðsyn þess að halda málefnum barna á lofti og þá sérstaklega umfangi og afleiðingum ofbeldis. Samfélagsleg staða barna gerir þau sérstaklega viðkvæm þar eð þau hafa sjaldan tækifæri til að bregðast sjálf við ofbeldinu eða leita réttar síns upp á eigin spýtur. 

Ofbeldi er aldrei einkamál og því er nauðsynlegt að málinu sé haldið á lofti í opinberri umræðu. Mikilvægt er að sem flestir taki þátt í samfélagslegri umræðu um ofbeldi. Fjölmiðlar geta sem dæmi storkað viðhorfum þeirra sem samþykkja ofbeldi og stuðlað að jákvæðri hegðun og skoðunum. Fjölmiðlar geta einnig stutt við að börn fái að tjá sig og segja skoðanir sínar opinberlega. Kennarar, heilbrigðisstarfsfólk, félagsráðgjafar og aðrir sem vinna með börnum þurfa markvissa þjálfun í að koma auga á ofbeldi og skýrar viðbragðsáætlanir þurfa að vera til staðar um hvernig bregðast skuli við því. Mikilvægt er að eftirlit sé tryggt þar sem börn eru og að þeim sem starfa með eða í kringum börn sé gert það skýrt að á þeim hvílir lögbundin tilkynningarskylda. 

Ennfremur er mikilvægt að samfélagið allt, hver einn og einasti einstaklingur finni til ábyrgðar þegar kemur að því að útrýma ofbeldi. Allt samfélagið þarf að vera tilbúið til að bregðast við þegar barn verður fyrir ofbeldi eða grunur vaknar um að slíkt eigi sér stað.  Einstaklingar þurfa að vita hver einkenni ofbeldis séu, vita hvert þeir geti leitað með tilkynningar sínar.  Við sem samfélag þurfum að taka ábyrgð á viðbrögðum okkar við ofbeldi og sýna með gjörðum okkar að hvers kyns ofbeldi gegn börnum sé ekki liðið. 

Að endingu má benda á að Barnaheill, UNICEF og umboðsmaður barna veita fræðslu og halda úti forvarnarverkefnum um hvernig megi minnka lýkur á ofbeldi gegn börnum og hvernig best sé að bregðast við þegar ofbeldi gegn börnum á sér stað. Allar frekari upplýsingar er að finna á vefsíðum þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert