Eftir flókið ferðalag er barn á leiðinni

Katla Hreiðarsdóttir á von á barni.
Katla Hreiðarsdóttir á von á barni. Ljósmynd/Aðsend

Katla Hreiðarsdóttir á von á barni í október með manni sínum Hauki Unnari Þorkelssyni. Haukur á tvö börn fyrir en það hefur tekið nokkur ár fyrir Kötlu að eignast barn. Þetta er ekki fyrsta meðganga Kötlu en eftir að hafa misst fóstur oftar en einu sinni sér hún fram á að verða móðir í haust. 

Katla rekur og hannar fyrir fatamerkið Volcano Design og er eigandi verslunarinnar Systur & Makar. Hún fór fyrst yfir flókið ferðalag sitt í átt að móðurhlutverkinu á vef Systur & Makar. Hún segir blaðamanni mbl.is að þrátt fyrir erfiðleika hefur hún verið dugleg að bíta á jaxlinn og taka að sér krefjandi verkefni. Hún telur of erfitt að svekkja sig stanslaust á einhverju sem aldrei varð. 

Áður en að Katla hitti verðandi barnsföður sinn var hún í öðru sambandi þar sem ekkert annað kom til greina en að fara í tæknifrjóvgun. Það ferli gekk þó ekki eins og Katla sá fyrir sér í upphafi. 

Lífið hélt áfram 

„Við fórum í tvær uppsetningar en það sást fljótt að það var einhver fyrirstaða sem kom í ljós að var tvíburabróðir á stærð við mandarínu og eftir tvær aðgerðir var hann fjarlægður,“ segir Katla en þrátt fyrir það kom ekkert barn og það slitnaði upp úr sambandinu. 

Misstir þú vonina þegar það ferli gekk ekki?

„Nei ekki beint, lífið hélt svolítið áfram. Það var líka mikið að gera hjá mér á þeim tíma og verandi í eigin rekstri þá fór hugurinn svolítið annað. Það var einhvern veginn auðveldara að finna annað verkefni um tíma heldur en að hugsa að mögulega gæti ég þetta einfaldlega ekki.“

Alltaf sársauki að missa fóstur

Þegar Katla hitti Hauk sinn varð hún óvart ólétt en þrátt fyrir það segir hún að tilfinningin hafi verið dásamleg og barnið að sjálfsögðu velkomið. Svo fór að þau misstu fóstrið á tíundu viku. Hún segir að einkennin á meðgöngunni hafi ekki verið sterk en höggið þó þungt. 

Tveimur árum áður missti Katla einnig fóstur svo hún kom ekki alveg af fjöllum hvað varðar fósturlát. Hún hugsaði þó ekki að meðgöngunni myndi ljúka á þennan hátt þegar hún varð ólétt með Hauki. 

„Hugurinn fer ekki þangað, maður er bara að gleðjast, fagna og vona það besta og svo kemur bara skellurinn. Ég vissi alveg að þetta væri algengt en kollurinn fer samt strax í að plana og sjá fyrir sér,“ segir Katla en talið er að allt að ein af hverjum fimm þungunum endi með fósturláti. Stuttu seinna varð Katla aftur ólétt með Hauki og lauk þeirri meðgöngu í janúar, einnig með fósturláti. 

Verður eitthvað léttara að ganga í gegnum þetta oftar en einu sinni?

„Ég hélt það og vonaði það, en nei, það er svolítið eins og að segja að ef maður fótbrýtur sig aftur þá getur það nú ekki verið jafn vont í seinna skiptið. Maður er kannski tilbúnari fyrir höggið, ómeðvitað er vonin ekki alveg eins sterk frá byrjun svo höggið kemur kannski ekki eins mikið á óvart. En nei fjandinn, þetta er bara alltaf ógeðslega sárt og svekkjandi.“

Grét með ljósmóðurinni

Katla fór til læknis í mars eftir missinn í janúar. Það kom því Kötlu töluvert á óvart þegar læknirinn spurði hvort hún væri aftur orðin ólétt. Katla var ekki viss en í ljós kom að Katla var aftur orðin ólétt og í þetta skiptið ætlaði litla núðlan að staldra lengur við en áður. Katla segist hafa farið varlega í fagnaðarlátum til að byrja með. 

„Ég varð ofsalega hamingjusöm en vissulega varkár og leyfði mér ekki að fríka alveg út strax! Haukur var fljótur að fara þangað og var strax mjög jákvæður sem og öll einkenni voru allt önnur í þetta skiptið, maður byggir líklega smá varnardulu um sig og leyfir sér ekki að fara of fljótt af stað svo ég reyndi að passa mig.“

Haukur og Katla eiga von á barni í haust.
Haukur og Katla eiga von á barni í haust. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig var að komast loksins í gegnum 12 vikna múrinn?

„Þá var skælt og ég náði ljósmóðurinni með mér í sónarnum, við vældum bara saman! Þegar ég lá og sá allt á hreyfingu og fékk fót bókstaflega beint í myndavél, já jeminn eini, þá fór allt á milljón, maskari út á kinn og allt í vitleysu.“

Katla tekur einn dag í einu en allt lítur út fyrir að í þetta skiptið ætli meðgangan að ganga upp. Litlu núðlunni þeirra Kötlu og Hauks líður vel og Katla leyfir sér að vera spennt. 

„Svo fer sem fer og ég held að það sé heldur ekkert gott að vera alltof varkár. Ef allt fer aftur á sama veg þá díla ég við það. Þangað til ætla ég að njóta þess og leyfa huganum að reika og ég held áfram að hekla mitt barnateppi,“ segir Katla að lokum. 

Hægt er að fylgjast með Kötlu og meðgöngunni sem og öðru á Instagraminu Systur og Makar. 

mbl.is