Jolie segir fullkomnun ekki nauðsyn

Angelina Jolie, Knox Leon Jolie-Pitt, Zahara Marley Jolie-Pitt, Vivienne Marcheline …
Angelina Jolie, Knox Leon Jolie-Pitt, Zahara Marley Jolie-Pitt, Vivienne Marcheline Jolie-Pitt og Shiloh Nouvel Jolie-Pitt. AFP

Leikkonan Angelina Jolie skrifaði opið bréf til foreldra í blað Time um foreldrahlutverkið. Jolie lagði áherslu á að það væri ekki nauðsynlegt að foreldrar væru fullkomnir. Leikkonan segist hugsa til foreldra sem eru að reyna sitt besta fyrir börn sín á erfiðum tímum en líður eins og þeir geti ekki meir. 

Sjálf segir Jolie að hún hafi ekki verið með allt sitt á hreinu þegar hún var yngri. Hún viðurkennir að hún hafi átt erfitt með að trúa því að hún gæti einn daginn orðið móðir. Þegar hún tók ákvörðun um að gerast foreldri var það ábyrgðin sem hún hræddist mest, að passa að allt væri í lagi, að láta allt ganga upp og vera þolinmóð. 

„Þannig að í miðjum þessum faraldri hugsa ég um allar mæður og feður með börn heima. Allir að vonast til þess að geta gert allt rétt, sinnt öllum þörfum og verið róleg og jákvæð. Eitt sem hefur hjálpað mér er að vita að það er ekki hægt. Það er yndislegt að uppgötva að börnin þín vilja ekki að þú sért fullkomin. Þau vilja bara að þú sért hreinskilin. Og að þú gerir þitt besta,“ skrifar Jolie. 

Leikkonan segir börn fá tækifæri til að verða sterkari á þeim sviðum sem foreldrarnir eru veikir á. Í lokin segir hún að fjölskyldur eru lið og það megi líta á það þannig að börn ala upp foreldra sína rétt eins og foreldrar ala upp börn sín. Foreldrar og börn þroskast saman. 

Angelina Jolie ásamt fjórum af sex börnum sínum.
Angelina Jolie ásamt fjórum af sex börnum sínum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert