Íslenskur maður lýsir kynferðisofbeldi sem hann varð fyrir

Maður á miðjum aldri lýsir því hvernig kynferðisofbeldi í æsku …
Maður á miðjum aldri lýsir því hvernig kynferðisofbeldi í æsku og hugmyndir hans um eitraða karlmennsku rugluðu hann í rýminu. mbl.is/Thinkstockphotos

Í framhaldi af viðtali við Sigríði Björnsdóttur sálfræðing sem segir kynferðisofbeldi gegn börnum algengt á landinu talaði blaðamaður við karlmann á fertugsaldri sem hafði unnið í kynferðisofbeldi sem hann lenti í sextán ára að aldri. Hann lýsir aðstæðum sínum í æsku þannig að hann komi frá dæmigerðu íslensku heimili. 

„Pabbi var af þeirri kynslóð að hann þurfti að taka ábyrgð á sér ungur að aldri og vildi hann koma þessu grjótharða uppeldi til mín. Samskipti mín við hann voru aldrei góð. Samskipti mín við mömmu hafa alltaf verið góð og hún hefur alltaf sýnt mér mikla ást. En hennar reynsla og uppeldi hefur gert hana mjög meðvirka, þannig að það var í raun aldrei tekið almennilega á erfiðum málum. Ég í raun skildi aldrei af hverju fyrr en ég fékk að heyra meira hvernig hennar uppeldi hafði verið.“

Fullorðinn maður góður við hann á netinu

Hann segir að á þessum tíma hafi hann verið mikið á netinu og þá sérstaklega á irkinu.

„Það var maður þar sem kom sér í samband við mig og sýndi mér áhuga. Þá fór af stað atburðarrás sem ég gat ekki stjórnað. Ég varð meðvirkur þegar fullorðinn maður sem hafði viljað vera góður við mig á netinu, þar sem mig skorti þessi tengsl við pabba. Maðurinn vildi koma að sækja mig á flottum jeppa sem hann átti. Ég var ekki að sækjast eftir því að hitta hann en kunni ekki að setja mörk. Ég var stór og sterkur strákur en með enga reynslu á kynferðissviðinu. Áður en ég vissi var þessi einstaklingur kominn með typpið á mér upp í munninn á sér og settist svo við hliðina á mér og lét mig koma við sig. Ég man að ég valdi ekki að gera þetta og horfði til hliðar af skömm og vanlíðan. Síðan eftir atburðinn fór ég að máta það sem gerðist við karlmennsku hugmyndirnar sem ég hafði verið alinn upp í og fann þá út að ég hlaut að hafa viljað þetta. Annars hefði þetta ekki gerst.“

Afleiðingar af þessu atviki urðu miklar í lífi mannsins. Hann fór að vera óöruggur með eigin kynhneigð, fór að upplifa reiðiköst og fleira í þeim dúrnum. Það var samt margt sem gekk upp hjá honum, sem gerði það að verkum að hann leitaði sér aðstoðar seinna en hann hefði viljað.

Það var í raun ekki fyrr en rúmlega tuttugu árum eftir atburðinn, þegar hann og eiginkona hans misstu ófætt barnið sitt sem eitthvað brast innra með honum og hann leitaði sér aðstoðar.  

„Ég hafði ekki fengið stuðning með það sem gerðist heima fyrir. Og hafði aldrei fengið staðfestingu frá öðrum að ég hafi verið of ungur til að hafa átt að vita betur. Ég var barn og maðurinn var fullorðinn. Bati minn hefur komið hægt og rólega það sama má segja um skilninginn fyrir því sem gerðist. Seinna komst ég að því að mamma hafði sjálf lent í kynferðisofbeldi af hendi afa síns, sem var þaggað niður í fjölskyldunni. Hún var því ekki bógur til að standa með mér í þessu. Ég varð ótrúlega reiður, þegar ég fyrst uppgötvaði það sem ég heyrði. Að þetta væri ekki í lagi og ég væri þá búinn að lenda í hlut sem ég þyrfti að vinna úr. Ég þessi stóri sterki, klári maður sem gengur vel í öllu, þyrfti þá að berskjalda mig og tala mig í burtu frá vandamálunum. Ég hafði engin verkfæri eða lagni til þess. Ég vil hvetja alla sem hafa lennt í áföllum á þessum svæðum að gera hið sama. Ég vildi í það minnsta að mín vinna þessu tengt hafði farið af stað fyrr.“

Myndi ekki hafa stjórn ef eitthvað af börnum mínum myndu lenda í því sama

Maðurinn segist ekki geta hugsað sér hvað myndi gerast ef eitt af börnum hans myndi lenda í þessu sama. Hann myndi ekki treysta sjálfum sér í þannig aðstæðum. En nú viti hann samt að maður fari ekki í gegnum svona hluti einn og vil hann hvetja alla foreldra að tala við börnin sín um hversu mikilvægt er að fái kjark til að segja frá. 

„Við eigum að elska börnin okkar án skilyrða og sama hvað þau koma með til okkar þá verðum við að halda áfram að elska þau og vinna úr því. Það er ekki í lagi að þagga þessi mál niður kynslóð eftir kynslóð. Úreltar hugmyndir karlmennskunnar eru veikar en ekki sterkar í þessu samhengi. Við hörkum þessi mál ekki af okkur. Ef það væri hægt þá hefði mér tekist það. Ég er stór og sterkur maður sem hef mikla getu í lífinu. Ég var meira að segja stór og sterkur þegar ég lenti í áfallinu mínu. Það hafði bara ekkert með það að gera. Sannleikurinn er sá að það á ekkert barn að lenda í svona og það þurfum við sem samfélag að samþykkja. Feluleikurinn eyðileggur okkur öll. Ef þú hefur lennt í einhverju svona, talaðu þá um það við einhvern sem þú treystir. Við erum öll með innsæi sem er að segja okkur sannleikann. Kennum börnunum okkar að hlusta á það og varast það sem þeim finnst ekki í lagi. Þau þurfa ekki að rökstyðja hvað þeim ekki líkar. Það er nóg að börnum finnist hlutirnir ekki þægilegir. Það reyni ég að kenna mínum börnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert