Mátti ekki gefa brjóst á fjarfundi

Konan var beðin um að slökkva á myndavélinni á meðan …
Konan var beðin um að slökkva á myndavélinni á meðan hún gaf barni sínu brjóst. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Kona nokkur var heldur ósátt þegar hún var beðin um að slökkva á myndavélinni í tölvunni sinni á meðan hún gaf barni sínu brjóst á fjarfundi. Samstarfsmaður hennar sem bað hana um að slökkva á myndavélinni kvartaði yfir henni á Reddit og spurði álits. 

Eins og gríðarlega margir um þessar mundir neyðast þau til að vinna heima hjá sér og notast við fjarfundarbúnað á borð við Zoom.

„Við erum með fundi á morgnana. Það þarf ekki að vera í mynd á fundunum þó maður tali. Ein samstarfskona mín á barn og hún gefur því brjóst í myndsímtali. Augljóslega þarf að gefa börnum brjóst en hún slekkur ekki á hljóðinu né myndavélinni á meðan. Við sjáum ekki allt brjóstið en hún hylur sig ekki. Ég sendi henni einkaskilaboð og bað hana um að slökkva á myndavélinni og hún brjálaðist,“ skrifaði samstarfsmaðurinn.

„Ég spurði ekki fyrir framan alla, ég spurði í einkaskilaboðum. Hún sagði mér að það væri ókurteisi að tala með enga myndavél og hún hafi rétt til þess að gefa barninu sínu að borða,“ skrifaði maðurinn. 

Maðurinn fékk mjög mismunandi skoðanir á þráð sinn þar sem fólk sagðist styðja það að konur gæfu börnum brjóst í almannarými en á vinnufundi væri það óviðeigandi. Sumir sögðust algjörlega vera mótfallnir því að konan gæfi brjóst á vinnufundi og aðrir sögðu að það væri ekkert að því að gefa brjóst á vinnufundi.

Ein kona sagðist skilja að samstarfskona mannsins hafi tekið ábendingu hans illa þar sem konur á vinnumarkaði verði oft fyrir fordómum að hennar mati. Hún taldi það þó vera rétt hjá honum að biðja hana um að slökkva á myndavélinni á meðan hún gæfi barninu brjóst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert