Fannst hún undir smásjá á meðgöngunni

Jamie Lynn Spears fannst hún undir smásjá á meðgöngunni.
Jamie Lynn Spears fannst hún undir smásjá á meðgöngunni. skjáskot/Instagram

Leikkonunni Jamie Lynn Spears fannst hún vera undir smásjá þegar hún gekk með sitt fyrsta barn árið 2007. Spears var 16 ára gömul þegar hún gekk með dóttur sína Maddie Briann.

„Ég man eftir að hafa verið 16 ára gömul, ólétt í smábæ. Og þar að auki var allur heimurinn að fylgjast með mér,“ sagði Spears í viðtali við The Hollywood Reporter. Hún segist þó ekki hafa litið á sjálfa sig sem fórnarlamb. 

Spears fer nú með hlutverk í nýjum þáttum á Netflix, Sweet Magnolias, þar sem hún leikur hjúkrunarfræðing sem verður ólétt eftir framhjáhald með giftum manni. 

„Þegar allt kemur til alls þarf maður að standa með sjálfum sér og barninu sínu. Ég held að það sem fólk skilur ekki um mig og fyrstu meðgönguna mína er að allar ákvarðanirnar sem ég tók voru teknar með það í huga að gera það besta fyrir barnið mitt og að vera besta mamman sem ég gat verið,“ sagði Spears. 

Spears eignaðist sitt fyrsta barn árið 2008 með þáverandi unnusta sínum Casey Alridge. Í dag er hún gift Jamie Watson og eiga þau dótturina Ivey sem er tveggja ára.

mbl.is