Belgíuprinsessa í herskóla

Elísabet prinsessa úti að hlaupa.
Elísabet prinsessa úti að hlaupa. Ljósmynd/Belgíska konungsfjölskyldan

Elísabet Belgíuprinsessa er á leiðinni í konunglegan herskóla í Brussel í haust. Prinsessan verður 19 ára í lok október en hún er elsta barn foreldra sinna, Fil­ipp­usar kóngs og Matthildar drottningar. 

Nokkuð ljóst er að Elísabet sem er erfingi krúnunnar er að búa sig undir drottningarhlutverkið með þessu námsvali. Faðir Elísabetar gekk einnig í skólann á árunum 1978 til 1981 að því er fram kemur á vef People. Í skólanum geta nemendur valið á milli fjögurra námsleiða sem tengjast vörnum landsins. Boðið er upp á herkænsku á landi, sjó og lofti auk náms í heilbrigðisvísindum.

Erfitt er að komast inn en aðeins komast 150 inn ár hvert eftir erfitt inntökupróf. Í inntökuprófinu þurfa nemendur að standast kröfur í stærðfræði, frönsku og hollensku. Nemendur þurfa einnig að standast sálfræðimat og búa yfir góðri líkamlegri færni. Myndir sem belgíska konungsfjölskyldan birti af Elísabetu prinsessu sýndu hana einmitt úti að hlaupa. 

mbl.is