„Dóttir mín fann hamingjuna í Islam“

„Ég held að fordómar byggist oft á tilhneigingu okkar til að hugsa hlutina út frá því að eitt verður almennt. Ef við eigum að minnsta kosti eina neikvæða reynslu af einhverju sem við getum sett í ákveðin flokk eða kassa, munum við neikvæðu reynsluna frekar en allar þær jákvæðu sem við höfum upplifað í lífi okkar, þó þær skipti hundruðum, kerfið okkar er einfaldlega hannað þannig,“ segir Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur í nýjum pistli:

Það er merkilegt að varnaviðbrögð almennt, til dæmis í kjölfar áfalla, verða til meðal annars vegna þessa, eitt verður almennt. Dæmi að við værum að ganga í garði og lykta af fallegum blómum og allt í einu fáum við hastalegt ofnæmi af einverri tegundinni og bólgnum öll upp. Eftir það erum við skeptísk þegar við sjáum blóm sem við ekki þekkjum og líklega sleppum því að lykta af þeim. Fremri gyrðilgári í heilanum sér til þess að við munum þessi óttaviðbrögð okkar og flokkar sem viðbrögð við hæfi- sem eðlileg viðbrögð (sem eru í raun ekki eðlileg). Niðurstaðan: Hér eftir förum við varlega nálægt blómum, þau geta verið hættuleg.

Fréttir undanfarið hafa sýnt okkar hvernig fordómar geta birst í mannvonsku og skorti á samkennd. Það er einfaldara að dæma flokk en persónu - eitt hefur orðið almennt.

Dóttir mín, á 17. ári tók ákvörðun eftir mikla ígrundun að taka upp Islamstrú opinberlega. Hún gengur með hijab (slæðu yfir hárið) og ástundar sína trú daglega. Hún færði sig úr einum flokk eða kassa yfir i annan. Viti menn, það urðu viðbrögð því flest sjónrænt sem er öðruvísi kallar á viðbrögð annarra. Hún er komin í nýjan kassa og einhverjir sem þekkja ekki hvað er í þessum kassa muna mögulega einhverja neikvæða reynslu sem þeir tengja við Islam og gera hana almenna. Þörfin fyrir að koma henni í gömlu hjörðina vaknar og byggist á engu öðru en ótta og þá verða fordómarnir til.

Dóttir mín hefur alltaf farið sínar eigin leiðir. Hún varð vegan 12 ára og þrátt fyrir að það sé nokkuð viðurkennd hjarðhegðun í dag, var hún það ekki eins fyrir nokkrum árum. Hún færði sig þá í kassa sem ekki allir þekktu og margir vildu leiðrétta hegðunina. Margir bentu henni á að hún fengi ekki nægileg næringarefni (í óspurðum fréttum), margir gerðu grín að henni og aðrir tóku að sér nokkurskonar lögregluhlutverk. Ef hún var ekki að gera eitthvað sem var hundrað prósent í Vegan kassanum (til dæmis að ganga í leðurskóm) bentu sumir henni á að hún þyrfti nú að skoða betur flokkinn sinn, kassann sinn ef hún ætlaði sér að vera í honum á annað borð.

Ég held að þörf okkar til að draga í dilka geti aukið gríðarlega tilfinninguna um aðgreiningu - og dregið úr samkennd. Við hættum að sjá einstaklinginn, við sjáum aðeins flokkinn eða kassann sem við höfum mátað einstaklinginn inn í. Dóttir mín er ósköp heilbrigð, hjartahlý og hugsandi unglingur og hún er hamingjusöm. Hún má velja þá leið sem hún telur besta fyrir sig og merkimiðar sem búnir eru til úr hugmyndum, skilgreina hana ekki sem manneskju. Flokkun í kassa getur aukið ótta og það er ekkert að óttast. Látum ekki merkimiða byrgja okkur sýn því við erum fyrst og fremst manneskjur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert