Lögreglan leitar að Huxley

Ekki er vitað um afdrif hins fjögurra ára Huxley.
Ekki er vitað um afdrif hins fjögurra ára Huxley. Skjáskot/Instagram

Hafin er lögreglurannsókn á máli Huxley Stauffer, 4 ára ættleidds barns með einhverfu sem Youtube-stjarnan Myka Stauffer og eiginmaður hennar James skiluðu nú á dögunum. Ekki er vitað hvar drengurinn er niðurkominn.

Fjölmiðlar þar ytra hafa staðfest að hann sé ekki í umsjón yfirvalda. Lögreglan segist vera að vinna náið með ýmsum aðilum til þess að komast að því hvar hann sé að finna.

Lögfræðingar Stauffer fjölskyldunnar hafa áður sagt að honum hafi verið komið fyrir hjá annarri fjölskyldu en vildu ekki gefa upp frekari upplýsingar til þess að vernda einkalíf hans og nýju fjölskyldunnar. Þá vekur athygli að búið er að eyða öllum myndum af Huxley af Instagram-reikningi Myku. 

Stauffer hjónin ættleiddu Huxley fyrir tveimur árum frá Kína. Fljótlega kom í ljós að hann átti við ýmsa erfiðleika að glíma sem voru hjónunum um megn. Að þeirra sögn ráðlögðu sérfræðingar þeim að finna nýtt heimili fyrir Huxley. Þau hafa hlotið mikla gagnrýni fyrir að gefast upp á barninu en þau voru dugleg að nota það í Youtube-myndböndum sínum, sér til framdráttar. 

Myka Stauffer ásamt eiginmanni og fimm börnum. Nú hefur sonurinn …
Myka Stauffer ásamt eiginmanni og fimm börnum. Nú hefur sonurinn Huxley fengið nýtt heimili. Skjáskot/Instagram

Margt óvenjulegt við málið

Svo virðist sem Myka Stauffer hafi farið óhefðbundnar leiðir þegar hún ættleiddi drenginn og valið að nota ekki ættleiðingarþjónustu heldur fara í gegnum einkaaðila. Hún hefur þó sagt í myndböndum sínum á Youtube að almennt notist hún við samtökin WACAP (World Association for Parents and Children). Talsmenn þeirra samtaka geta ekki tjáð sig um hvort ættleiðingin hafi verið á þeirra vegum en segja þó margt í máli Stauffer-fjölskyldunnar vera óvenjulegt. „Það að tilkynna svona á samfélagsmiðlum og segjast hafa fundið nýja fjölskyldu er afar óvenjulegt. Margar spurningar vakna. Fór fram rannsókn á nýju fjölskyldunni? Voru fagaðilar með í ráðum?“ segir Susan Cox hjá WACAP.

mbl.is