Þetta getur þú gert með börnunum um helgina

Ævintýraferðir með börnunum eru vinsælar um þessar mundir. Þar sem …
Ævintýraferðir með börnunum eru vinsælar um þessar mundir. Þar sem síminn og tölvan eru sett til hliðar og ýmindunaraflinu sleppt lausu. mbl.is/Colourbox

Það eru margir foreldrar farnir að bregða á það ráð að fylla bílinn af nesti og allskonar varningi og lokka börnin og unglingana á heimilinu í ævintýraferðir um helgar. Enda er Ísland eitt stórt landsvæði og ýmislegt hægt að bralla ef vel er að gáð. 

Á vefsvæðinu Vertu úti má finna áhugaverða grein um 20 ævintýralega staði fyrir krakka. Fyrir þá sem búa í stórborginni má alltaf fara í Lambafellsgjá á Reykjanesi sem er þröng og djúp gjá sem er asni skemmtileg gönguleið við allra hæfi. 

Lambafell er ekki stórt, virðist rétt rísa yfir jafnsléttuna. En þegar gengið er sunnan við það blasir sérstaða þess við. Gjá, misgengi sem hefur brotið fellið í tvennt. Upp þessa gjá er hægt að ganga og er það alveg einstaklega sérkennileg en skemmtileg upplifun ekki síst yfir yngri kynslóðina. Þetta er Lambafellsgjá eða Lambafellsklofi en misjafnt er hvort nafnið er notað. Vel má sjá bólstra í gjánni og jafnvel uppi á fjallinu við gjánna.

Með því að sýna unga fólkinu okkar þennan stað þá skilja þau betur hvað náttúran okkar er stórbrotin, þó það sjáist ekki alltaf við fyrstu sýn. 

Fótabaðið við Gróttu er einnig góður staður að heimsækja. Þetta fótabað í fjörunni var búið til af listakonunni Ólöfu Nordal. Unga fólkið elskar að leita að fótabaðinu, bretta upp buxurnar og njóta útsýnisins. Ef fjara er þá er áhugavert að labba út að Gróttuvita. 

Fyrir þá söngelsku má alltaf heimsækja Sönghelli við Arnarstapa á Snæfellsnesi. Þar er einstaklega gaman að syngja og bergmálið engu öðru líkt. Ferðamenn frá hinum ýmsu löndum hafa sungið í hellinum og er einstök stemning að sitja í kyrrðinni og finna töfrana í tónunum þar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert