Melania slær fast til baka

Melania Trump, forsetafrú Bandaríkjanna.
Melania Trump, forsetafrú Bandaríkjanna. AFP

Melania Trump gagnrýnir harðlega sjónvarpsþáttamanninn John Henson fyrir að hafa tíst að hann vonaðist til þess að sonur Trump-hjónanna, Barron, fái að verja feðradeginum með hverjum þeim sem ku vera faðir hans. 

Talsmaður Melaniu Trump sá ástæðu til þess að bregðast við þessum ummælum enda er Trump mikið í mun að vernda einkalíf barns síns. 

„Því miður höldum við áfram að sjá óviðeigandi og særandi athugasemdir um son forsetans. Börn undir lögaldri eiga að fá að vaxa úr grasi í friði frá dómhörku og hatri ókunnugra sem og fjölmiðla.“

John Henson er þekktur grínisti og kemur reglulega fram í þáttum á borð við E!´s Talk Soup, Wipeout auk þess sem hann er þáttastjórnandi á Food Network. Hann er afar virkur á Twitter og tekur fólk reglulega fyrir og gerir grín að því.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Melania Trump gagnrýnir fólk fyrir að blanda syni sínum í umræðuna. Í desember síðastliðnum sagði Pamela Karlan lagaprófessor brandara um Trump í yfirheyrslum um embættisbrot Trumps. Þar sagði hún að í stjórnarskránni væru engir aðalstitlar, þótt Trump gæti nefnt son sinn Barron, þá gæti hann ekki gert hann að baróni. 

Melania Trump tísti þá á Twitter að Karlan mætti skammast sín fyrir að nota barn fyrir sinn eigin bjagaða málstað. 

Trump-fjölskyldan.
Trump-fjölskyldan. AFP
mbl.is