Hlakkar til að eignast stelpu

Orlando Bloom hlakkar til að eignast stelpu.
Orlando Bloom hlakkar til að eignast stelpu. AFP

Leikarinn Orlando Bloom hlakkar til þess að eignast stelpu. Bloom á von á sínu öðru barni með unnustu sinni Katy Perry. Þau eiga von á stelpu en fyrir á Bloom soninn Flynn. 

„Hann er mjög spenntur að eignast litla stelpu. Það er sagt að litlar stelpur eru pabbastelpur. Þannig verður þetta pottþétt. Það mun koma í ljós,“ sagði Perry í útvarpsviðtali á mánudag. 

Tónlistarkonan ræddi um meðgönguna í viðtalinu og sagðist hafa upplifað allan tilfinningaskalann á síðustu mánuðum. „Ég hef verið himinlifandi glöð, ég hef verið kvíðin, hamingjusöm, að deyja úr gleði og líka þunglynd. Ég hef fundið fyrir þessu öllu,“ sagði Perry og bætti við að heimurinn væri ekki beint rólegur um þessar mundir. 

„Heimurinn er bara villtur núna, og þetta er klikkaður tími til að fæða líf inn í þennan heim. Ég meina fólk talaði um það fyrir mörgum árum að það fyndi fyrir óvissu. Og núna er það svo sannarlega staðan,“ sagði Perry. 

Perry sagði að þau Bloom væru ekki búin að ákveða nafn á dóttur sína. „Við eigum eftir að ákveða það, við erum með nokkra valmöguleika og hún mun segja okkur. Ég mun horfa á hana og hugsa já, þú er hún. Þú ert þetta nafn,“ sagði Perry.

mbl.is