Elskar annað foreldrið meira

Stundum vilja börn bara annað foreldrið.
Stundum vilja börn bara annað foreldrið. Unsplash.com

Það getur verið sárt fyrir foreldri að upplifa það að það sé ekki í uppáhaldi hjá barninu sínu. Robin Berman sálfræðingur segir það mjög eðlilegt og ráðleggur foreldrum hvernig bregðast megi við.

„Oft á tíðum þurfum við að setja okkur sjálf til hliðar til þess að vera til staðar fyrir börnin,“ segir Robin Berman sálfræðingur og höfundur bókarinnar Permission to Parent. Berman segir það mjög eðlilegt fyrir tiltekin þroskastig barns að vilja frekar annað foreldrið en hitt. „Það að vera foreldri veitir okkur tækifæri til þess að ala okkur sjálf upp, svo við getum alið upp börnin okkar,“ segir Berman. Hann hvetur foreldra að líta ekki á þetta sem höfnun eða skort á ást og leggur til leiðir hvernig bregðast megi við. 

  • Ekki taka þessu persónulega. Börn eru mjög gáfuð og velja foreldri eftir því hvaða þörfum barns þeir mæta. Allt þetta breytist eftir þroskastigi barna. Mundu að það er frábært að barn hafi marga í sínu lífi sem það elskar og líður vel með. 
  • Deildu gleðinni. Ef þú ert foreldrið sem er í uppáhaldi, reyndu þá að deila gleðinni. Leggðu áherslu á að hvetja barnið til þess að gera eitthvað skemmtilegt með hinu foreldrinu. Segðu: „Það verður svo gaman þegar pabbi les fyrir þig bók.“
  • Stattu á þínu. Þegar barnið heimtar að fá annað foreldrið má segja: „Ég skil að þú vilt að pabbi baði þig en í kvöld ætlar mamma að baða.“ Með þessum hætti ertu að sýna þeim að þú heyrir hvað þau segja og það getur minnkað spennuna til mikilla muna.
  • Ekki láta samviskubit stjórna þér. Samviskubit er eðlilegur fylgifiskur foreldrahlutverksins. Það er mikilvægt að breytast ekki í foreldri sem lætur allt eftir barninu til þess að vinna það á sitt band. Við eigum hins vegar að vera til staðar. Kannski er samviskubitið merki um að leggja frá sér símann og vera í núinu með barninu. Að vera til staðar er besta gjöfin.
  • Standið saman. Oft vill það verða að annað foreldrið sé eftirlátssamara en hitt og það getur ýtt undir þessa hegðun barns að annað foreldrið sé í uppáhaldi. Vænlegra er að foreldrar standi saman og setji sér sameiginleg markmið í uppeldinu sem allir fylgja eftir. 
  • Ekki sýna særðar tilfinningar. Þá gæti barnið upplifað þig sem auðsæranlega manneskju sem það þarf að passa upp á. Það er engu barni hollt að vera sett í þær aðstæður að þurfa að breytast í foreldrið. Ef þér sárnar, taktu þér nokkrar mínútur til þess að núllstilla þig. Barn þarfnast foreldris sem er tilfinningalega stöðugt. Þetta á líka við um stjúpforeldra. Ekki taka því persónulega þegar barnið segist bara vilja vera eitt með pabba sínum eða mömmu. Auðvitað er það sárt en best er að bregðast við með því að segja glaðlega: „Frábært, skemmtið ykkur vel!“ 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert