Æfði handbolta fyrstu þrjá mánuði meðgöngunnar

Karen gat æft handbolta fram á 13. viku meðgöngunnar en …
Karen gat æft handbolta fram á 13. viku meðgöngunnar en þá skall samkomubann á. Ljósmynd/Aðsend

Handboltakonan og markaðsfulltrúinn Karen Knútsdóttir á von á sínu fyrsta barni með sambýlismanni sínum Þorgrími Smára Ólafssyni. Hún segir meðgönguna hafa gengið mjög vel og hún hafi verið mjög heppin að geta æft handbolta fyrstu þrjá mánuði meðgöngunnar. 

Hún neyddist svo til að hægja á sér þegar samkomubann og heimsfaraldur skullu á. Þá breyttist hreyfingin og fór hún út að hlaupa og tók æfingar heima. Þegar líkamsræktarstöðvar opnuðust svo aftur í maí fór hún að æfa undir leiðsögn Marks Johnsons.

Hvernig hefur meðgangan gengið?

„Meðgangan hefur gengið mjög vel. Ég vissi að sjálfsögðu ekkert hvað ég væri að fara út í þar sem þetta er mín fyrsta meðganga. Ég er hins vegar undir aðeins meira eftirliti uppi á Landspítala þar sem ég greindist með ofvirkan skjaldkirtil vegna Graves árið 2004. Skjaldkirtillinn var síðan fjarlægður 2008. En hingað til hefur allt gengið vel og vonandi mun það halda þannig áfram.“

Karen Knútsdóttir hefur leikið með íslenska landsliðinu síðustu ár.
Karen Knútsdóttir hefur leikið með íslenska landsliðinu síðustu ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þetta er þín fyrsta meðganga, kom eitthvað á óvart?

„Ég vissi svo sem ekkert hverju ég mátti eiga von á en ég hef verið ótrúlega heppin með að vera laus við þessa helstu fylgikvilla eins og ógleði og mikla þreytu. Ég get hins vegar ekki neitað því að finna fyrir miklum hormónabreytingum og ómerkilegustu hlutir hafa stundum fengið mig til að fella tár. Þorgrímur hefur mest þurft að höndla þessar hormónabreytingar og á hrós skilið fyrir mikla þolinmæði oft á tíðum gagnvart mér. Það sem mér finnst áhugavert í þessu ferli er að upplifa hversu magnaður kvenlíkaminn er en jafnframt hversu litla stjórn maður hefur yfir líkama sínum t.d. varðandi ógleði, þreytu, grindargliðnun eða lögun og stærð kúlunnar. Við konur höfum enga stjórn á þessu og því geta óþarfa athugasemdir stundum stuðað mann. Ég var til dæmis mjög meðvituð um sjálfa mig þegar kúlan byrjaði að myndast og athugasemdir um hvort hún væri stór eða lítil. Það eru hins vegar mikil forréttindi að fá að upplifa meðgöngu og það sem skiptir mig mestu máli er að mér og stelpunni minni heilsast vel.“

Þú ert vön að æfa mikið. Hvernig er fyrir afreksíþróttakonu að taka eitt skref aftur í íþróttaiðkun?

„Ég æfði handbolta á fullu fyrstu þrjá mánuðina þar sem mér leið vel. Þegar ég var komin 13 vikur hófst samkomubannið, þar með upplifði ég það „að taka eitt skref aftur í íþróttaiðkun“ á aðeins öðruvísi hátt en að þurfa að vera á hliðarlínunni og horfa á stelpurnar spila handbolta. Í samkomubanninu fór ég að hlaupa úti og reyndi að gera æfingar heima eftir bestu getu. Núna eftir að ræktin hefur verið opnuð á ný hef ég verið að mæta þangað og æfi undir leiðsögn Marks Johnsons, ég hef verið hjá honum undanfarin þrjú ár og hann hefur hjálpað mér með svo ótrúlega margt. Ég er samt alls ekki að æfa af sömu ákefð og áður fyrr, ekki að lyfta sömu þyngdum og það eru einhverjar æfingar sem ég var vön að gera sem verða að bíða betri tíma. Ef það er eitthvað á æfingum sem veldur mér óþægindum, sem maður áður harkaði af sér, stoppa ég alltaf þar sem núna er ég að hugsa um aðra manneskju. Þar með breytist þessi hugsunarháttur og ég hlusta mun meira á líkamann nú en ég gerði áður. Þegar það koma dagar þar sem ég er þreytt og mér líður ekki eins og ég nenni að æfa læt ég það alveg eftir mér og er alls ekki að stressa mig á því. Ég leyfi mér þá að slaka á uppi í sófa eftir vinnu og horfa á Gulli byggir.“

Karen segir það hafi komið henni á óvart hvað kvenlíkaminn …
Karen segir það hafi komið henni á óvart hvað kvenlíkaminn er magnaður á meðgöngunni. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig hugsar þú um heilsuna á meðgöngu? 

„Helsta breytingin er að ég borða mun oftar og reglulegar yfir daginn eða á tveggja til þriggja tíma fresti. Ég borða yfirleitt frekar hollt og fjölbreytt svo ég hef ekki gert neina sérstaka breytingu á matræði mínu á meðgöngunni, nema að sjálfsögðu að taka út það sem er óæskilegt að neyta. Ég er byrjuð að fara í ræktina aftur eftir að hún opnaðist og mun æfa þar eftir líðan og undir leiðsögn Marks. Mér finnst líka eitthvað róandi og góð tilhugsun við að fara út í göngutúra og hlusta á gott hlaðvarp í leiðinni, það er nokkuð sem ég hef aldrei gefið mér tíma í að gera en er fullkomið tækifæri fyrir mig til að byrja á þegar ég verð komin á lokametrana. Ef hins vegar þreytan og bugunin tekur yfir þá mun stundunum uppi í sófa fjölga og Gulli byggir þarf eiginlega að redda fleiri þáttum fyrir mig.“

Ertu að gera eitthvað sérstakt til að undirbúa fæðingu?

„Nei, get eiginlega ekki sagt það nema að huga að heilsunni og reyna að líða vel. Ég hef að sjálfsögðu keypt bókina hennar Önnu ljósu, Fyrstu mánuðirnir, og bíður hún lestrar hjá okkur. Ég ætla að reyna eftir bestu getu að fara með opnum hug inn í fæðinguna og vera undirbúin undir flest og ekki taka neinar fyrirfram ákvarðanir. Mér finnst líka ekki gott að heyra of margar fæðingarsögur og bera mig saman við aðrar konur. Allar meðgöngur og fæðingar eru mismunandi og einstakar.“

Eruð þið orðin spennt fyrir því að taka á móti nýjum einstaklingi í fjölskylduna?

„Já, við erum orðin mjög spennt að fá litlu stelpuna í heiminn. Við höfum samt ekkert verið að missa okkur í undirbúningi eða kaupum. Viðurkenni að ég er smá týnd í hvað muni henta okkur best varðandi kerrur, bílstóla og þetta helsta þar sem þetta er okkar fyrsta barn en vonandi verður sem flest klárt hjá okkur þegar hún mætir í heiminn, annars reddast það!“

Karen.
Karen. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert