Kardashian ræðir koppamál dótturinnar

Khloe Kardshian ásamt dóttur sinni True.
Khloe Kardshian ásamt dóttur sinni True.

Raunveruleikastjarnan Khloé Kardashian stendur í ströngu þessa dagana við að venja tveggja ára dóttur sína True af bleyju. Af því tilefni fannst henni tilvalið að efna til samstarfs við bleyjufyrirtækið Pampers og deila góðum ráðum með öðrum foreldrum í sömu sporum.

Kardashian hvetur foreldra til þess að skamma ekki börnin meðan á þessu ferli stendur. Þolinmæði sé lykilþáttur í þessu öllu saman. „Það er engin ein rétt leið í þessu,“ segir Kardashian sem segist notast við verðlaunakerfi eins og límmiða og það að fá að horfa á aðeins meira sjónvarp en venjulega.

„Ég trúi ekki á að múta heldur veita hvatningu. Hver sem verðlaunin eru verða þau að vera eingöngu fyrir koppinn. Þau má ekki veita stanslaust í gegnum daginn því þá missa verðlaunin marks og börnin verða ringluð. Þau verða að hafa ástæðu til þess að fara á koppinn,“ segir Kardashian, sem leggur aðaláherslu á að venja af bleyju að degi til. Næturbleyjan er enn á sínum stað enda dóttirin aðeins tveggja ára.

„Ég set True á koppinn einu sinni á klukkutíma fresti,“ segir Kardashian, sem reynir að gera upplifunina spennandi fyrir True með því að gefa henni bók að skoða. Þá viðurkennir hún að það hafi verið auðveldara að einblína á koppaþjálfunina í samkomubanninu þar sem þær hafi verið mun meira heima en venjulega.

mbl.is