„Eins og við höfum stofnað fyrirtæki“

Fjölskyldan á Íslandsmótinu í réttstöðulyftu sem fram fór í júní. …
Fjölskyldan á Íslandsmótinu í réttstöðulyftu sem fram fór í júní. Þar bætti Júlían sitt eigið heimsmet og lyfti 409 kg. Ljósmynd/Aðsend

Júlían J. K. Jóhannsson kraftlyftingamaður og Íþróttamaður ársins og sambýliskona hans Ellen Ýr Jónsdóttir eignuðust sitt fyrsta barn í vor. Drengurinn er nú að nálgast fjögurra mánaða aldurinn og hefur hlotið nafnið Bergur Jökull Karl Júlíansson. Júlían segir margt hafa breyst eftir að sonurinn kom í heiminn. Að eignast barn sé samvinna og þau foreldrarnir hafi bæði fengið ný og spennandi hlutverk til æviloka.

Hvernig breytt­ist lífið þegar son­ur­inn kom í heim­inn? 

„Það breyttist margt, mér fannst ég mjög fljótt átta mig á því að þarna væri fæddur einstaklingur sem ég og kærastan mín bærum alfarið ábyrgð á. Lítill strákur sem í raun ætti bara okkur að og við yrðum að hugsa vel um hann og gæta hans vel. Þessu nýja hlutverki hefur fylgt aukin ábyrgð en líka mikil gleði og ánægja. Ég og kærastan mín höfum í raun bæði fengið ný og spennandi hlutverk til æviloka og það er gaman.“

Hvað hef­ur komið þér mest á óvart við föður­hlut­verkið?

„Ætli það sem ekki fyrst og fremst hvað þetta er gaman og allar þessar tilfinningar sem fylgja þessu. Í fyrstu var þetta allt svo magnað, spennandi og yfirþyrmandi gleði að mér fannst eins og ég hlyti að vera fyrsti maðurinn til að eignast barn. Mér fannst þetta svo einstakt að ég gat ekki ímyndað mér að fleiri hefðu gengið í gegnum þetta.“ 

Meðgang­an hef­ur mik­il áhrif á kon­ur lík­am­lega og and­lega, fannst þú ein­hverj­ar breyt­ing­ar á þér á meðgöng­unni?

„Nei ekki beint, en það voru utanaðkomandi breytingar á líf mitt og okkar. Mér fannst merkilegt að horfa fram á það að ég væri að fara í hlutverk fyrirvinnu heimilisins a.m.k. á meðan kærastan mín væri í fæðingarorlofi. Það var hlutverk sem ég hafði ekki endilega pælt í en svo er þetta allt svo mikil samvinna, þ.e. að eignast barn, þetta er á einhvern hátt eins  og við höfum stofnað fyrirtæki saman.“ 

Hvernig var að vera á hliðarlín­unni í fæðingu?

„Það var ótrúlegt, við eignuðumst son s.s. rétt áður en Covid-19 skall á og rétt áður en samkomubannið skall á. Þess vegna var ég þakklátur fyrir að fá að vera viðstaddur og geta veitt henni Ellen minni stuðning á þessu stóra augnabliki. Hún stóð sig mjög vel í fæðingunni og ég fékk svo að klippa á naflastrenginn. Það var sérstakt að vera viðstaddur og vita líka að það væri í raun ekkert sem ég gæti gert til hjálpa. Ég var búinn að undirbúa mig undir ýmislegt eftir að hafa horft á margar fæðingasenur í bíómyndum, ég bjó mig m.a. undir að Ellen yrði brjáluð og hún myndi öskra á mig (eins og gerist í bíómyndunum). Það rættist ekki, hún var ótrúlega blíð og góð alla fæðinguna. Ég bjó mig líka undir mikið af öskrum - Það rættist  heldur ekki. Það var mjög róleg stemning inni á fæðingarstofunni og ég var kannski sá eini sem hækkaði róminn þegar ég var að reyna hvetja hana áfram. Þannig að það sem ég var helst búinn að undirbúa mig undir gekk svo ekki eftir.“  

Þú átt strák, er eitt­hvað sem þér finnst mik­il­vægt að kenna strákn­um þínum sem faðir?

„Það er ýmislegt sem kemur upp í huga og auðvitað gæti nefnt einhver góð gildi. En fyrst og fremst myndi ég vilja styðja við hann á sinni leið og hjálpa honum verða besta útgáfan af sjálfum sér.“

Júlían, Bergur og hundurinn Stormur.
Júlían, Bergur og hundurinn Stormur. Ljósmynd/Aðsend
Bergur Jökull Karl nýfæddur.
Bergur Jökull Karl nýfæddur. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert