„Til þess eru eiginkonur“

Bernie Ecclestone.
Bernie Ecclestone. AFP

Formúlu 1-auðjöfurinn Bernie Ecclestone olli hneysklan áhorfenda þegar hann kvaðst í viðtali í morgunsjónvarpsþættinum This Morning ekki skipta á bleyjum nýfædds sonar síns „því til þess væru eiginkonur“.

Ecclestone er 89 ára og eignaðist sitt fjórða barn í júlí með hinni 44 ára Fabiönu Flosi. Strákurinn hefur hlotið nafnið Ace og dafnar vel en faðirinn kemur þó að takmörkuðu leyti nálægt umönnuninni.

Þegar þáttastjórnandinn spurði Ecclestone hvort hann kæmi til með að skipta um bleyjur og gefa pela sagði Ecclestone að hann myndi gera það sem þyrfti nauðsynlega að gera en í augnablikinu þyrfti hann þess ekki því „til þess væru eiginkonur“. Þá sagðist hann ekki hafa verið viðstaddur fæðinguna sjálfa og að hann kysi að horfa á hana eftir á á upptöku. „Ég vissi ekki hvað ég ætti svosem að sjá, ég kýs frekar að horfa á vídeó.“ 

Spurður um það að verða faðir á gamalsaldri sagði Ecclestone að þau hafi bæði langað til að verða foreldrar og 45 ára aldursmunur á hjónunum væri engin fyrirstaða. „Ég hef mun meiri tíma til þess að sinna barninu nú en ég hafði með eldri börnunum mínum,“ segir Ecclestone, sem á einnig þrjár uppkomnar dætur.

mbl.is