Elon Musk opnar sig um föðurhlutverkið

Elon Musk og Grimes eiga soninn X AE A-Xii.
Elon Musk og Grimes eiga soninn X AE A-Xii. AFP

Elon Musk tjáir sig um föðurhlutverkið í viðtali við The New York Times en hann og söngkonan Grimes eignuðust soninn X AE A-Xii í maí síðastliðnum. Hann segir kærustuna sjá að mestu um soninn í augnablikinu.

„Ungbörn bara borða og kúka, þið vitið! Akkúrat núna er ekki mikið sem ég get gert,“ segir Musk sem er 49 ára. „Hlutverk Grimes er miklu stærra en mitt í augnablikinu,“ segir Musk en hann lýsir Grimes sem mjög sérstakri og einni óvenjulegustu manneskju sem hann hafi hitt. 

„Þegar barnið eldist verður meira fyrir mig að gera. Ég hugsa til þess sem ég hef gert með eldri syni mína. Ef ég þarf að ferðast vegna vinnu, til dæmis til Kína, þá tek ég börnin með mér og við förum að sjá Kínamúrinn eða tökum hraðlestina frá Peking til Xian og sjáum leirhermennina,“ útskýrði Musk sem á fimm syni frá fyrri samböndum. 

Musk deildi á dögunum mynd af sér með nýfæddum syni á Twitter og sló um sig með þýskum myndatexta um að barnið kynni ekki að nota skeið.

mbl.is