Mér fannst ég ekki vera nógu góður pabbi

Björgvin Páll Gústavsson.
Björgvin Páll Gústavsson.

Hand­bolta­landsliðsmaður­inn Björg­vin Páll Gúst­avs­son er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar. Sölvi skrifaði fyrir ári síðan uppgjörsbók Björgvins, þar sem Björgvin lýsti andlegu og líkamlegu hruni sínu, þar sem hann meðal annars fékk ofsakvíðakast á miðju stórmóti í handbolta. Í viðtalinu ræða þeir Sölvi um skrýtnustu augnablikin á meðan á þessu gekk hjá Björgvini. 

Sölvi Tryggvason er kominn með nýtt hlaðvarp, Podkast með Sölva …
Sölvi Tryggvason er kominn með nýtt hlaðvarp, Podkast með Sölva Tryggva.

„Fyrsta vandamálið var að ég var einn í herbergi. Að vera einn í herbergi á stórmóti er ekki góð hugmynd. Þú ert einn með þínum hugsunum undir miklu álagi og svo er það líka álag að vera burtu frá fjölskyldunni. Svo kom bara tímapunktur þar sem ég sprakk og vissi ekkert af hverju. Ég vissi ekki að ég væri með kvíða fyrr en ég fæ þarna ofsakvíðakast á miðju stórmóti. Ég fékk alls konar galnar ranghugmyndir, vissi bara að ég yrði að komast út og byrjaði að rölta upp að lestarstöð í Köln sem að ég þekki nokkuð vel, en leið eins og það væri að eiga sér stað hryðjuverkaárás og var eiginlega bara viss um það. Ég áttaði mig á því hvað þetta væri ruglað og svo þegar ég kem að Dómkirkjunni í Köln hrundi ég niður og fór að gráta. Þarna byrjar í raun mín vegferð til bata og ég fer að kafa almennilega í orsakirnar á bakvið þetta.“

Björgvin fór í kjölfarið að skoða betur hvað gæti orsakað það sem var að gerast og að endingu varð til bók.

„Ég áttaði mig fljótlega á því að þetta var kvíði gagnvart föðurhlutverkinu og hafði ekkert með handbolta að gera. Ég var kominn í mikla streitu og það var veikt barn heima og ég var í raun með stanslausar hugmyndir um að ég væri ekki nógu góður pabbi og fattaði að ég var með óeðlilega fullkomnunaráráttu. Þarna byrjaði ég að skrifa og þetta átti aldrei að verða bók, fyrr en mér datt í hug að hafa samband við þig þegar það var mikið komið niður á blað.“

Björgvin fékk mikil viðbrögð við bókinni, sem staðfestu fyrir honum þörfina á að hjálpa börnum, unglingum og foreldrum.

„Eftir þrjá mánuði var ég kominn með 300 skilaboð og ég fékk vandamálin beint í æð. Þá fékk ég vandamálin í fangið og áttaði mig fyrir alvöru á því hve vandamálin í samfélaginu eru mikil. Og þegar foreldrar voru að senda á mig og segja mér að börnin sín væru einhvern vegin fór ég alltaf beint í að spyrja foreldrið hvernig því liði sjálfu. Þá koma yfirleitt sömu einkenni fram og í ljós kemur að fullorðna fólkinu líður illa líka,“ segir Björgvin, sem er með verkefni í vinnslu, þar sem hann ætlar að fara inn í grunnskóla landsins.

Í viðtalinu fara Sölvi og Björgvin yfir sögur í kringum landsliðið, barnæskuna, leiðina út úr andlega hruninu og margt margt fleira. 


Hér er hægt að hlusta á þáttinn á Spotify: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert