Hefðbundin mamma sem pantar þemaköku

Rut Jóhannsdóttir með dóttur sinni Emblu.
Rut Jóhannsdóttir með dóttur sinni Emblu. Ljósmynd/Aðsend

Rut Jóhannsdóttir hefur haldið ófá barnaafmæli enda á hún 12 ára gamlan stjúpson, átta ára gamlan son og eins árs dóttur. Hún fékk þá hugmynd að stofna facebookhóp um barnaafmæli árið 2014 og nú telja meðlimir hópsins um níu þúsund manns. 

„Það kemur kannski á óvart en ég er nú bara þessi hefðbundna mamma sem pantar þemaköku en reyni að hafa fjölbreyttar hugmyndir og enda oftast með of mikið af veitingum,“ segir Rut um afmælin sem hún heldur en árið 2014 stofnaði Rut facebookhópinn Barnaafmæli – hugmyndir fyrir bumbuhópinn sinn til þess að fá hugmyndir fyrir tveggja ára afmæli sonar síns. Rétt eins og börnin stækkaði hópurinn hratt og í dag eru um níu þúsund manns í hópnum. Hún er einnig með instagramsíðu þar sem hún deilir skemmtilegum hugmyndum.

Leikfangasöguþema í þriggja ára afmæli.
Leikfangasöguþema í þriggja ára afmæli. Ljósmynd/Aðsend

Í facebookhópnum er fólk duglegt að deila hugmyndum sem og óska eftir hugmyndum fyrir barnaafmæli. „Það er hægt að finna hugmyndir að skemmtunum í veisluna eins og hoppukastala, andlitsskreytingu, blöðrumann eða staðsetningar, hvar gaman er að halda afmæli, hvar hægt er að prenta myndir á kökur eða hver gerir bestu kökurnar og hvernig á að lita rice krispís,“ segir Rut um hópinn og segir að jafnframt sé hægt að gefa eða selja skreytingar. 

Veitingar í barnaafmælum þurfa ekki að vera óhollar.
Veitingar í barnaafmælum þurfa ekki að vera óhollar. Ljósmynd/Aðsend

„Það sem er geggjað við þennan hóp er að hann sýnir að barnaafmæli geta verið alls konar. Hvort sem fólk er algjörir snillingar í kökugerð eða fólk sem er að reyna sitt besta að gera allt sem afmælisbarnið biður um til að fullkomna daginn þó að kakan sé ekki alveg eins og myndin á Pinterest sem barnið benti á.“

Múmínálfaþema í tveggja ára afmæli.
Múmínálfaþema í tveggja ára afmæli. Ljósmynd/Aðsend

Hefur þú sótt sjálf hugmyndir í hópinn?

„Já auðvitað, ég fylgist með alla daga og sé hvað er að koma inn og merki bestu hugmyndirnar fyrir næsta afmæli. Það er svo auðvelt að vista á Instagraminu og skoða síðan þegar þar að kemur. Þar eru fjölbreyttustu hugmyndirnar.“

Þrátt fyrir að flott kaka og skreytingar skipti máli segir Rut að þegar upp er staðið skipti samveran mestu máli og að afmælisbarnið fari sátt að sofa.  

Ostabakkar eru sniðugir.
Ostabakkar eru sniðugir. Ljósmynd/Aðsend

Er eitthvað sérstaklega mikið í tísku núna?

„Ég myndi segja að Frozen sé enn í tísku, Cars, Hvolpasveit og einhyrningakökur detta líka seint úr tísku.“

Hafa barnaafmæli breyst eitthvað síðan þú varst sjálf lítil?

„Það sem kemur strax upp í huga mér er að þegar ég var lítil hlakkaði ég mest til að fá að skreyta skúffukökuna sem mamma bakaði kvöldið fyrir afmæli með smartís, gúmmíbjörnum og fylltum reimum. Það var toppurinn! Í dag er minna um það, ég hef boðið syni mínum að skreyta köku sjálfur, hann tók það ekki í mál, vildi velja mynd og láta prenta á kökuna. En auðvitað er eitthvað um það enn í dag. Svo má ekki gleyma að pakkaleikurinn var rosa vinsæll, að pakka pínulitlum hlut í um fimm Morgunblöð með alltof miklu límbandi og spila tónlist og pakkinn fór hring. Ég hef bara ekki heyrt af þeim leik í dag. En vonandi er hann enn í einhverjum afmælum.“

Rut hvetur fólk til þess að skoða facebookhópinn Barnafmæli – hugmyndir og instagramsíðuna og vera með. 



 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert