„Ég var algjörlega búin að týna sjálfri mér“

Ljósmynd/Aðsend

Fanney Skúladóttir eignaðist sitt fyrsta barn 18 ára. Næstu tvö börn komu svo með 15 mánaða millibili tíu árum síðar. Fanney þekkir af eigin raun hversu krefjandi það er að sinna börnum, heimili og námi í hennar tilviki og týndi sjálfri sér í leiðinni. Hún stofnaði samfélagið Busy Moms á Facebook og vefsíðuna Busy Moms til þess að veita öðrum mæðrum innblástur í þessu annasama hlutverki. 

„Hugmyndin að Busy Mom kviknaði í byrjun árs. Þá var ég búin að vera í rúmlega tvö ár í fæðingarorlofi með dætur mínar ásamt því að vera að ljúka krefjandi háskólanámi. Þegar fólk stendur á svona tímamótum er algengt að vinir og vandamenn spyrji um næstu skref, hvað er það sem tekur við og hvað á að fara að gera. Eftir að hafa fengið þó nokkuð margar slíkar spurningar áttaði ég mig á því að ég var algjörlega búin að týna sjálfri mér. Ég vissi í raun ekki hvert ég væri að stefna og var með engin persónuleg markmið eða áhugamál til að rækta. Í mörg ár fór minn litli frítími í að fylgjast með hinu fullkomna samfélagsmiðlalífi og hámhorfa á raunveruleikaþætti. Orkan og pressan sem fór í að keppast við hið „fullkomna“ mömmulíf gerði mig stressaða og óhamingjusama. Mér fannst ég vera föst í endalausri óreiðu og ég sá ekki fyrir endann á þeim ótal verkefnum sem ég hafði á herðum mér. Ég var búin að sætta mig við að svona væri bara lífið, en á sama tíma þá gerði ég lítið sem ekkert til að rækta eða efla sjálfa mig.

Eftir að ég áttaði mig á þessu tók við gríðarleg sjálfsvinna. Ég hætti að eyða tíma í að keppast við líf annarra. Ég fór að einbeita mér algjörlega að sjálfri mér og forgangsraða tímanum mínum betur. Jákvætt hugarfar, markmiðasetning og tímastjórnun eru þættir sem hafa gert ótrúlega mikið fyrir mitt daglega líf og ég finn fyrir meiri lífsgleði, hamingju, sjálfstrausti og orku. Mig langar til að miðla minni reynslu áfram til annarra mæðra sem mögulega eru í svipuðum sporum, eru týndar, vita ekki alveg hvert þær vilja stefna og þrá meiri tíma til að rækta sjálfa sig,“ segir Fanney 

Fanney fór í mikla sjálfsvinnu sem hún miðlar af með …
Fanney fór í mikla sjálfsvinnu sem hún miðlar af með verkefninu Busy Moms. Ljósmynd/Aðsend

Fanney segir að það sé þörf á samfélagi eins og Busy Moms og bendir á að það sé auðvelt að týnast og gleyma sjálfri sér þegar hugsa þarf bæði um börn og heimili. Fanney segir að líkt og í hennar tilviki hafa mæður of lítinn tíma fyrir persónuleg markmið og áhugamál þegar þær þurfa sinna börnum og heimili ásamt vinnu eða námi. 

„Það er hins vegar mikilvægt að gefa sér tíma fyrir sjálfa sig á hverjum einasta degi. Það dregur úr streitu og ýtir undir jafnvægi, hamingju og heilbrigði. Busy Mom er því hugsað sem samfélag fyrir mæður til að staldra aðeins við, finna sig aftur og um leið njóta sín í móðurhlutverkinu,“ segir Fanney. 

Fanney á þrjú börn og þekkir vel hvernig er að …
Fanney á þrjú börn og þekkir vel hvernig er að vera upptekin móðir. Ljósmynd/Aðsend

„Ég eignaðist dætur mínar með 15 mánaða millibili. Þegar ég var ólétt af yngri dóttur minni var ég í fæðingarorlofi og í fullu fjarnámi. Ég viðurkenni að ég týndi sjálfri mér algjörlega á þessum tíma og mér leið eins og ég væri föst í einhverri hringrás þar sem dagarnir, vikurnar og mánuðirnir flugu alveg fram hjá mér. Ég var ekki að njóta, ég var týnd og ég flaut bara með. Á svona tímum er svo mikilvægt að staldra við, kúpla sig úr hringrásinni og lifa í núinu. Það er ótrúlega krefjandi að eiga ung börn með svona stuttu millibili en þegar ég hugsa um það er þakklæti efst í huga. Ég hef fengið að fylgjast með þeim tveimur þróa með sér vinkonusamband og vaxa og þroskast saman og fyrir það er ég óendanlega þakklát. Um leið og ég fór að rækta sjálfa mig og mína styrkleika fór ég að njóta þess enn betur að vera í þessu stóra hlutverki, að vera þriggja barna móðir, en ég fór líka að njóta þess að vera bara ég.“

Fanney var 18 ára þegar hún eignaðist son sinn og segir að hún hafi breyst á einu augnabliki úr unglingi í móður.

„Það var vissulega krefjandi og ég átti um stund erfitt með að finna mig í þessu stóra hlutverki. Ég var komin á allt annan stað í lífinu en flestir á mínum aldri og ég þurfti að taka ábyrgð á öðrum en sjálfri mér. Það var mikill lærdómur að eignast barn svona ung og ég hef þroskast og vaxið sem manneskja með son minn mér við hlið. Hins vegar leið mér eins og ég væri að gera þetta í fyrsta skipti þegar ég eignaðist dóttur mína tíu árum síðar. En með hverju barninu fylgir þessi sterka skilyrðislausa ást.

Eftir að ég varð móðir hef ég öðlast meira sjálfstraust og þolinmæði. Ég þarf töluvert minni svefn en áður fyrr og virðist geta gengið frá óteljandi verkefnum á einum degi. Þá er lífið ansi fjörugt, fjölbreytt og áhugavert og það er ekkert betra en að fylgjast með börnunum vaxa og dafna og verða að sjálfstæðum manneskjum. Móðurhlutverkið er frábært en á sama tíma ótrúlega krefjandi og það er auðvelt að gleyma sjálfri sér. Því er mikilvægt að staldra við, gefa sér tíma til að rækta sjálfa sig, sinna persónulegum áhugamálum og markmiðum, þá verður auðveldara að njóta í hinu daglega amstri,“ segir Fanney að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert