„Sagan getur endað vel og hún getur endað illa“

Ævar Þór Benediktsson var að senda frá sér tvær nýjar …
Ævar Þór Benediktsson var að senda frá sér tvær nýjar barnabækur. Haraldur Jónasson/Hari

Ævar Þór Benediktsson rithöfundur var að gefa út bækurnar Þín eigin saga: Risaeðlur og Þín eigin saga: Knúsípons. Bækurnar eru styttri, léttari og með fleiri myndum en stóru bækurnar sem koma út um jólin. Ævar segist hafa notið þess sérstaklega að velja myndirnar í bækurnar.

„Mér datt í hug fyrir tveimur árum að það gæti verið gaman að gera svona litla afleggjara úr öllum stóru Þín eigin-bókunum og gera styttri bækur fyrir þá sem langaði í fleiri myndir og aðeins einfaldari texta. Þetta er enn þá þannig að þú ræður hvað gerist. Sagan getur endað vel og hún getur endað illa, algjörlega eftir því hvað þú ákveður að gera. Þetta eru sem sagt fimmta og sjötta bókin sem koma út af þessum litlu afleggjurum.“

Bækurnar eru hugsaðar þannig að börn geti lesið sjálf en líka fyrir þá sem vilja fleiri myndir.

„Hún Evana Kisa sem myndlýsir er brjálæðislega góður teiknari. Mér persónulega finnst gaman eins og með Knúsípons að sjá meira af þeim heimi en við fengum að sjá með einni mynd í Þínum eigin tölvuleik. Það er mjög gaman fyrir mig að skrifa þessar styttri bækur af því að þá fæ ég að velja þann heim sem mér þykir mest spennandi í hverri bók fyrir sig og velja fleiri myndir og teygja og tosa það sem er í stóru bókunum.“

Hvernig er að gefa út bækur fyrir börn í ágúst þegar skólarnir eru að byrja?

„Ég held að það sé mjög fín tímasetning af því þá eru allir búnir að lesa vorbækurnar og eru að leita að einhverju skemmtilegu til að lesa í heimalestri eða vali þannig að það er alveg meðvituð pæling að þessar bækur koma út um leið og skólarnir byrja. Svo eru líka þeir sem eru ekkert búnir að lesa í sumar og vantar eitthvað létt og skemmtilegt til þess að koma sér í gírinn, þá eru þessar alveg hugsaðar til þess að kveikja á lestraráhuganum.“

Talið berst að lestraráhuga barna og kórónuveirunni. Ævar segist ekki vita hvort lestraráhugi barna hafi aukist með kórónuveirunni en vonar það.

„Þetta flækir allt svolítið mikið. Ég veit að bókasöfn þurfa að þrífa bækurnar enn þá meira. Núna eru þrír eða fjórir skólar sem enginn má mæta í í tvær vikur þannig að allt í einu eru allir meira heima en til stóð. Kannski verður það til þess að einhverjir lesi meira,“ segir Ævar. „Mér finnst bækurnar fullkomnar til þess að setja raunveruleikann á pásu í smá stund og leika sér með risaeðlum og knúsípons. Það er hægt að gera margt verra en það við tímann sinn.“

Ævar er með margt á prjónunum og er að skila af sér stórri bók sem kemur út fyrir jólin sem heitir Þín eigin undirdjúp. Hann bíður svo spenntur eftir að leikhúsin fari á fullt en leikritið Þitt eigið leikrit 2 heldur áfram í Þjóðleikhúsinu þegar leyfi fæst. „Við náðum að sýna í mánuð áður en öllu var lokað í mars og hlökkum mikið til að byrja að sýna aftur og treystum á að það verði fyrr en seinna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert