Katla elskar að vera ólétt

mbl.is/Kristinn Magnússon

Katla Hreiðarsdóttir fatahönnuður og eigandi verslunarinnar Systur og makar er komin 31 viku á leið eða um sjö mánuði. Hún elskar að vera ólétt og nýtur þess í botn að klæða sig fallega. Hún segir að kórónuveiran hafi haft mikil áhrif á fyrirtækjarekstur sinn en hún er þó full bjartsýni enda á hún von á einu og hálfu tonni af efnum til landsins sem bíður þess að verða að fallegum flíkum.

Hvernig hefur fatastíllinn breyst eftir að þú varðst ólétt?

„Ég er kannski meira í þröngu eftir að kúlan fór að láta bera svolítið vel á sér en annars nota ég mín föt bara mikið. Ég passa samt upp á að vera í góðum undirfötum og finnst það muna miklu. Ég á til dæmis nokkrar aðhaldsbuxur sem eru hugsaðar fyrir kúlur frá Tveimur lífum sem hafa komið sér dásamlega vel og halda vel við bumbuna sem veitir aukin þægindi og svona öryggi einhvern veginn. Annars gerum við ósköp þægilegan fatnað hér sem hentar alls konar vaxtarlagi og þar sem fataskápurinn minn samanstendur mest af flíkum úr eigin verslun og línu er ég ekki búin að breyta miklu þannig. Það bara passar allt voða vel ennþá þrátt fyrir að ég sé komin á 7. mánuð,“ segir Katla. 

í fimm mismunandi meðgöngudressum. Systur og makar
í fimm mismunandi meðgöngudressum. Systur og makar Kristinn Magnússon

Einhverjir hafa velt því fyrir sér hvort þú kæmir með óléttulínu núna fyrst þú gengur með barn. Hvernig er staðan á því?

„Já, það eru margir að biðja um það, en ég sé það strax sjálf að það einfaldlega þarf ekki. Mjög margt af því sem við gerum hentar svo mörgum og eins og ég segi mismunandi vaxtarlagi enda mjög fjölbreytt vöruúrval svo hvort sem konur eru að leita sér að fatnaði til að auka kvenlegar línur, gera minna úr magasvæði, ýkja mitti, vilja þröngt eða vítt þá erum við með það! Ég hef ekki þurft að leita að miklu annars staðar frá nema þá helst undirfatnaði og hef einnig tekið ástfóstri við gjafahaldarann sem ég fékk einnig frá Tveimur lífum. Ég veit ekki hvenær eða hvort honum verður fórnað, þvílík þægindi,“ segir hún.

Katla segir að fatastíllinn hafi kannski ekki breyst mjög mikið eftir að hún varð ólétt. 

„Ég mæli svo sem með því við allar konur, hvort sem þær eru óléttar eða ekki, að vera í fatnaði sem þeim líður vel í. Það hefur verið mikilvægur liður í minni vöruhönnun og -þróun alla tíð enda finnst mér konur langfallegastar þegar þeim líður vel. Þá geisla þær hvort sem þær eru óléttar eða ekki! Ég hef þó ferlega gaman af því að vera í svolítið þröngu sérstaklega eftir að kúlan fór að láta á sér kræla. Ég er ansi stolt af þessu litla kraftaverki okkar sem ég átti hreint ekki von á, svo það er voða gaman að rölta um sposk með bumbuna út í loftið. Æi  má maður aðeins,“ segir hún og hlær. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvernig klæðir þú þig dagsdaglega?

„Ég er mikið í leggings og þröngum kjólum og leðurjakka. Nýju Nönnukjólarnir hafa einnig komið sterkir inn upp á síðkastið þar sem þeir eru einstaklega þægilegir og léttir og finnst mér geggjað að nota þá við sæta strigaskó.

Ég á einnig einar óléttugallabuxur sem ég get parað við alls konar toppa og skyrtur hvort sem þær eru þröngar eða víðar og hafa komið sér mjög svo vel alla meðgönguna! Svo upp á síðkastið hef ég verið að nota mikið jogginggalla eftir vinnu þar sem ég og kærastinn erum að taka í gegn hæð og ris frá 1952 og þar er það skítagallinn sem tekur völdin. Það er ekki eitt heldur allt,“ segir Katla. 

Hver er þín tískufyrirmynd?

„Ég hef ég alltaf elskað Michelle Haswell sem heldur úti blogginu Kingdom of Style. Hún er óhrædd í fatavali og blandar skemmtilega nýju og gömlu saman og fer algjörlega sínar eigin leiðir! Ashley Graham er líka yndisleg og kann svo sannarlega að klæða sínar fallegu „curvy“ línur og Sammi Jefcoate sem er algjör nagli, hún er hrikalega flottur stílisti sem blandar saman rokki og 50's pinup-stíl snilldarlega!“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hver er best klædda kona Íslands að þínu mati?

„Mér finnst Andrea Magnúsdóttir: AndreabyAndrea alltaf óþolandi mikil skvísa eitthvað sem og Lovísa Tómasdóttir fatahönnuður, hún er ung og mikill töffari sem mig grunar að eigi eftir að gera stórkostlega hluti í framtíðinni!“

Dreymir þig um eitthvað í fataskápinn?

„Ég væri til í að eiga betra skóúrval en öfugt við margar konur finnst mér ekkert sérstaklega skemmtilegt að kaupa mér skó. Ég þyrfti samt að herða mig svolítið þar því mig langar að eiga fjölbreyttara úrval!“

Hver er þín uppáhaldsflík?

„Ein mest notaða flíkin mín þessa dagana er leðurjakki sem ég keypti mér í vintage-búð í Berlín. Ég nota hann við allt og ekkert og finnst hann passa vel við kjóla sem gallabuxur.“

Um áramótin urðu töluverðar breytingar á versluninni Systur&Makar. Katla rak verslunina með systur sinni, Maríu Kristu, en um áramótin ákvað hún að halda út á aðrar brautir. 

„Við systur vorum búnar að reka verslunina Systur&Makar í fimm ár þó svo fatamerkið mitt; Volcano Design, sé orðið að 12 ára gömlum unglingi. Um áramótin ákvað María systir að einbeita sér meira að ketó-mataræðinu sem hennar starf snýst að mestu leyti um í dag. Hún heldur úti svakalega vinsælli síðu www.mariakrista.com sem og @kristaketo á Instagram enda sérfræðingur í þessu mataræði og það er erfitt að sinna mörgum „brönsum“ í einu. Ég tók því alfarið yfir reksturinn á versluninni um áramótin, flutti saumastofuna í sama húsnæði og verslunin í Síðumúla 21 til að einfalda allt utanumhald og næ því að sinna verslun og saumastofu á sama tíma. Ég réð mér einnig inn frábæran fatahönnuð, Huldu Karlottu Kristjánsdóttur, sem kemur virkilega sterk inn. Hún starfar eins og „önnur ég“ svo ég næ sjálf að dreifa mínum verkefnum betur á milli, sem veitir ekki af núna í bumbustússinu. Þannig að þótt þetta hafi verið svona ákveðið „end of an era“ milli okkar systra fáum við nú að vera systur aftur, ekki bara rekstrarfélagar, og njótum þess í botn. Breytingar þurfa ekki að vera af hinu versta og þrátt fyrir frábært samstarf síðustu fimm ár, sem okkur þykir alveg einstaklega vænt um báðum, þá fáum við líka að njóta þess að starfa aftur hvor í sínu lagi við okkar fög. Þess má einnig geta að Krista Design er hvergi nærri hætt og ég held áfram að selja vörur frá systu í búðinni þótt það sé í aðeins minni mæli en áður,“ segir Katla. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hefur kórónuveiran haft einhver áhrif á fyrirtækjarekstur þinn?

„Já, við lokuðum um tíma og samhliða saumastofu og verslunarrekstrinum held ég úti veislusal og leigi út sumarbústað. Þetta hafði þónokkur áhrif á allar útleigur og auðvitað fundum við mun í versluninni. Það var þó með mikilli hjálp minna starfsmanna sem við náðum að auka sölu í netverslun og skutluðum mikið pöntunum heim til fólks á höfuðborgarsvæðinu. Eins erfiður og dramatískur og þessi tími hefur verið fyrir marga tel ég margt gott hafa fylgt í kjölfarið. Mér finnst ég finna fyrir meiri náungakærleik, fólk einbeitir sér að því að eyða meiri gæðastundum með sínum nánustu og sýnir almennt meiri skilning og hugulsemi. Ég hef ekki heyrt eina manneskju kvarta yfir því að komast ekki í frí eða utanlandsferðir heldur einbeitir fólk sér að því sem skiptir máli núna, nýtur þess að skoða landið okkar, styrkja staðbundnar verslanir og það er á tímum sem þessum sem maður verður meyr og stoltur af því að vera Íslendingur. „Þetta reddast“, eins og eru einkunnarorð okkar, eru orð að sönnu í mörgu sem tengist afleiðingum svona ástands – ég fann það allavega í mínum rekstri að bæði starfsmenn og kúnnar stóðu svo sannarlega saman og fyrir það verð ég ávallt þakklát og auðmjúk!“

Hvernig leggst veturinn í þig?

„Í einu orði: guðdómlega! Það eru svakalega spennandi tímar fram undan hjá mér og mínum! Núðlan er áætluð í heiminn 14. október sem er mikið tilhlökkunarefni. Það er allt á milljón í versluninni og nýjar vörur fæðast þar nánast daglega sem og við eigum von á tæplega einu og hálfu tonni af efnum til landsins svo það er nóg að gera þar og salan eykst jafnt og þétt! Einnig erum við Haukur, kærastinn minn, að taka í gegn nýja heimilið okkar í hjarta Hafnarfjarðar, en þar er að mörgu að huga enda ófá handtökin fram undan. Ég hef fulla trú á að við snúum vörn í sókn og komumst yfir þetta ástand saman og ég horfi bjartsýn og jákvæð til framtíðar – þýðir nokkuð annað?“

Hér er Katla í samfestingi sem passar bæði fyrir óléttar …
Hér er Katla í samfestingi sem passar bæði fyrir óléttar og líka þær sem eru ekki óléttar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert