Fimm ómissandi ráð fyrir veisluna

Myndlistarkonan Linda Óla er vön að undirbúa veislur. Hér eru fimm góð ráð frá henni sem enginn sem er að fara að ferma ætti að láta framhjá sér fara. 

Litur

„Þegar kemur að því að skreyta með litum fyrir ferminguna er áhugavert að skoða leiðir sem hægt er að fara í því. Nammi, kökur og fleira getur verið í þemalitunum og haft áhrif á útlit veisluborðsins.

Eins er hægt að lita vatnið sem boðið er upp á í veislunni. Blávatn er alltaf vinsælt í veislum.

Servíettur, fánaveifur og blöðrur eru ódýr lausn sem setja svip á rýmið.

Mjó há kerti lyfta upp og setja meiri svip á borð en lág kerti og skapa minni eldhættu. Varast ber að nota óvarin lág kerti í veislum.

Að byrja tímanlega

Byrjið tímanlega, þá er hægt að dunda sér í mánuði eða jafnvel ár fram í tímann. Það dreifir álaginu og útgjöldunum. Nú til dags er auðvelt að finna hugmyndir á netinu fyrir veisluskreytingar. Með því að setja DIY (e Do It Yourself) inn í leitina getur maður fengið alls konar hugmyndir og jafnvel sýnikennslu af skreytingum sem hægt er að gera sjálfur.

Verið búin að hugsa skipulagið á veislurýminu og undirbúa allt skraut sem hægt er áður en komið er í salinn. Það sparar mikinn tíma í uppsetningu að vera búinn að brjóta servíettur, klára að föndra allt skraut og hafa allt skipulagt og tilbúið til uppsetningar. Það er líka afar tímafrekt og lýjandi að bera borð fram og til baka.

Salurinn

Ef leigja á sal er gott að hafa í huga að liturinn á stólunum getur truflað litaþemað ef þeir eru í sterkum eða ólíkum lit. Einnig er gott að fara yfir leirtau, hnífapör og hvað fylgir með salnum. Ég hef lent í að aðstoða við að dekka upp sal fyrir brúðkaupsveislu þar sem öll hnífapör voru hvert af sínu tagi og það tók óratíma að sortera það til að það væri a.m.k. samstætt á hverju borði. Einnig að ganga úr skugga um að það sé nóg af öllu leirtaui. Takið með málband og mælið borðin, bæði til að geta teiknað upp skipulag á salnum og til að panta dúka eða renninga á.

Undirbúningsteymið

Biðjið vini og vandamenn um aðstoð. Tíminn til að skreyta sal er oft naumur og stundum þarf að skreyta samdægurs og það getur breyst með stuttum fyrirvara. Ég hef í tvígang lent í því að nokkrum dögum fyrir veisluna bókaðist salurinn kvöldið áður og við þurftum að breyta planinu og skreyta samdægurs. Annað skiptið var fyrir brúðkaup systur minnar svo við þurftum að fá mikla hjálp við að skreyta og þá munaði öllu að allt skraut var tilbúið. Við dekkuðum bara eitt borð og lögðum línurnar og gátum skilið þetta verkefni eftir í öruggum höndum.

Gleði og góðar minningar

Mikilvægt er að muna að undirbúningurinn að fermingarveislunni er hluti af því gæðaferli sem fjölskyldan mun eiga saman í tilefni fermingarinnar. Ekki gleyma að njóta hverrar mínútu með fermingarbarninu og fjölskyldu þess. Það getur verið gaman að halda fermingarveislu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert