Þarf að læra betur að skipta á bleyju

Baldur Rafn Gylfason hárvöruheildsali í bpro eignaðist sitt fjórða barn á dögunum. Fyrir átti hann þrjá syni en í apríl fæddist stúlkubarn. Baldur er kominn yfir fertugt og segir að það sé töluvert öðruvísi að eignast barn á þessum aldri en þegar hann eignaðist sitt fyrsta. 

„Ég er vissulega eldri en síðast eða um fimm árum en líka fimm árum þroskaðri, sem vonandi vegur upp á móti aldrinum,“ segir hann og hlær og bætir við: 

„Annars erum við hjónin bara með nokkuð gott plan á hlutunum og hvernig við skiptum verkum á milli okkar og barnanna en ég þakka alveg fyrir það að geta ekki gefið brjóst og sleppa við næturbröltið,“ segir hann. 

Baldur segir að það hafi verið gaman að fá stúlkubarn í hendurnar eftir að hafa eignast þrjá syni. Hann sé þó ekki alveg kominn með bleyjuskiptingarnar á hreint. 

„Það má alveg segja að það hafi verið ansi gaman að ná í dömu í lokin þó svo að kynið sé ekki aðalmálið. Við erum mjög spennt að fá að upplifa að ala upp stelpu líka.

Ég hef ekki ennþá lagt í bleyjuskiptingar eftir að hafa skipt á þremur gaurum. Það eru víst aðrar aðferðir sem ég þarf nú að manna mig upp í að læra. Svo verður pínu pressa að læra að flétta þegar kemur að því. Sem er hálfskrítið fyrir mann eins og mig en fyrir sirka 25 árum tók ég þá heimskulegu ákvörðun að læra ekki að gera fléttur sem mun aldeilis koma í bakið á mér á næstu árum,“ segir hann og hlær. 

Er öðruvísi að eiga stelpu en stráka?

„Ég held að þegar maður er heppinn, eins og við erum búin að vera með okkar krakka, skipti ekki máli hvort það sé stelpa eða strákur. Þegar unglingsárin koma verður það kannski eitthvað flóknara og meira stressandi fyrir föður að eiga dömu, en auðvitað fer það allt eftir því hvernig hlutirnir þróast.“

Á dögunum var dóttir þeirra Sigrúnar skírð og fékk hún nafnið Adríana Líf. Þegar hann er spurður út í nafnið segir hann að það hafi tekið langan tíma að finna nafn á dótturina. Hann segir að nafnið sé út í loftið og það hafi tekið langan tíma að finna það. 

„Það tók ansi langan tíma hjá okkur að vera viss um að þetta væri það rétta fyrir hana. Þetta eru auðvitað alls konar pælingar og flækjur sem maður fer í þegar svona ákvörðun er tekin.“

Baldur leggur sig fram í föðurhlutverkinu og segist vilja að börnin sín eigi góðar minningar um sig. Hann játar að hann sé dálítið ofvirkur á köflum og leggur mikið upp úr því að börnin séu virk, liggi ekki bara fyrir framan sjónvarpið.

„Ég er bara mikill krakkakarl og hef gaman af því að brasa og gera hluti. Þegar fólk á kraftmikla gutta er oft auðveldara að henda sér í sund eða eitthvert stuð en að reyna að hanga í rólegheitum og festast þá jafnvel mikið yfir sjónvarpinu. Eins höfum við líka alltaf reynt að hafa það að leiðarljósi að öll örvun er góð og byggir upp sjálfstæði og kraft. Mér finnst skipta máli að tala, leika og fara í sund með börnunum mínum. Það hefur allavega gert sig vel fyrir okkar gutta þó svo að oft hafi verið skotið aðeins á að það þurfi ekki alltaf að vera allt á fullu prógrammi. Sennilega er til einhver millileið en ekki fer maður að breyta á gamals aldri. Við hjónin höfum í gegnum árin svolítið verið í „work hard, play hard“ og nýtum tímann vel með okkar börnum þegar við erum heima.“

Hvaða þýðingu hefur föðurhlutverkið fyrir þig?

„Föðurhlutverkið er best og verður betra og betra með árunum. Stoltið af sínum er endalaust, þegar maður sér að það var líklega eitthvað rétt sem maður gerði, þá er ekkert betra.“

Hvað drífur þig áfram í föðurhlutverkinu?

„Eingöngu það að reyna að gera sem bestan grunn fyrir krakkana og að þau séu tilbúin fyrir sitt líf og þau verkefni sem því fylgja.“

Hvernig barn varstu sjálfur?

„Ætli væri ekki best að spyrja mömmu að þessu til að fá alveg heiðarlegt svar. Ég er alinn upp á svipuðum gildum en ansi stór hluti af mínu uppeldi einkenndist líklega af því að vera duglegur í öllu sem maður tæki sér fyrir hendur. Virða allt sem væri í kringum mann og hugsa vel um það sem maður eignast því það er ekkert sjálfgefið og engar silfur- eða gullskeiðar til að vinna með.

Ég vil meina að fólk eigi að vanda sig í öllu sem það gerir því það gerir gæfumuninn. Annars held ég að mamma myndi svara að ég hafi verið kraftmikill, góðhjartaður og vinnusamur.“

Hvert er besta uppeldisráð allra tíma?

„Ást, umhyggja og líklega bara að gera sitt besta og muna að allt sem við gerum sem foreldrar mótar barnið fyrir lífstíð í því sem það tekur sér fyrir hendur.“

Hvaða áhrif hefur veiran haft á ykkur fjölskylduna?

„Eins og hjá svo mörgum var þessi blessaða veira ansi mikið flækjustig bæði í vinnu og heima. Hjá okkur heima var það líklega helst það að litla daman fæddist 4.4. 2020 en það var sama dag og hömlur voru settar á fæðingardeildina með að feður væru með. Þær pælingar tóku aðeins í á þeim tíma en við vorum heppin. Mín kona stóð sig eins og hetja þannig að allt slapp og gekk vel að lokum.“

Hvernig verður veturinn hjá þér?

„Veturinn hjá okkur verður líklega eins og alltaf; bara bilað að gera bæði tengt heimili og vinnu. Eftir öll lætin ætluðum við að reyna að vera slök en enduðum á því að selja heimili okkar og kaupa annað þannig að það eru flutningar á döfinni í október og svo seinna í vetur liggur fyrir að taka það í gegn ef aðstæður leyfa.

Vinnulega er bara að vera jákvæð og vona að allir passi sig á kórónuveirunni. Það er pínu skrítið að segja frá því að í nóvember á síðasta ári samdi ég við merki í Svíþjóð sem heitir Disicide. Þeir sérhæfa sig í alls konar hreinsi- og sótthreinsivörum sem eru ekki eins slæmar fyrir jörðina okkar, þurrka ekki húðina eins og við erum oft vön og ganga ekki á varnarhjúp hennar.

Þarna í nóvember vissi enginn hvað væri að koma yfir okkur en fyrstu bretti af vörunum komu síðan á nýju ári sem kom sér auðvitað vel á þessum tíma. Síðan þá höfum við hafið sölu á fjölda mismunandi vara sem hjálpa okkur í gegnum þessa vitleysu. Ég vil enda þetta á því að biðja fólk að vanda valið með hvað það setur á húðina alveg eins og við vöndum okkur með húðkrem og hárvörur, húðin er jú okkar stærsta líffæri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert