Fæða og ferming þá og nú!

Gunnar Sverrisson

Ég fermdist á ósköp venjulegum sunnudegi fyrir mjög mörgum árum á Akureyri. Það var sami dagur og pabbi minn hafði fermst á enn fleiri árum áður. Þetta var rólegheitaferming og undirbúningur og ég man alveg þokkalega mikið frá þessum degi. En aðallega það að veðrið var rosalega gott og ég var smá svekkt að komast ekki á skíði með vinkonum mínum. Annars finnst mér í minningunni að mamma hafi svona að mestu ákveðið hvernig hlutirnir ættu að vera og allt runnið bara mjúkt samkvæmt hennar skipulagi.

Mér finnst líka eins og þetta hafi verið ferming og hefðbundin veisla eins og tíðkaðist á þessum tíma. Allt fullorðna fólkið í fjölskyldunni kom saman og fleira til, og þótt ég hafi ekki velt því mikið fyrir mér þá hverjir hreinlega væru þar, þá þykir mér ansi vænt um það í seinni tíð að allir kæmu saman þarna heima. Það eru líklega til myndir af öllum sem mættu og ég man hvað margir gáfu mér í fermingargjöf. Ég hafði líka skrifað það skilmerkilega niður. Það voru peningar, en svo lítið brot af því sem gengur og gerist, að krakkar hlæja að því. Svo fékk ég Adidas-galla, beauty-box, handklæði, myndavél, hring o.s.frv. Húsgögn í herbergið mitt voru meðal þess sem ég fékk frá foreldrum mínum, sem ég valdi sjálf, voru pöntuð sérstaklega fyrir mig og ég hafði valið af kostgæfni. Kannski voru örlög mín ráðin í kringum fermingu, án þess að ég áttaði mig á því.

Það sem ég man þó ekki sérstaklega eftir að hafa ákveðið eða velt fyrir mér voru veitingarnar. Ég var bara ánægð með þær, enda kökur og sætabrauð, sem mér þótti gott. Ekkert sérstaklega hugsað fyrir börn, heldur líklega meira fyrir þá fullorðnu til að fá sér með kaffibolla. Svona var þetta en er alls ekki núna. Síðustu árin hafa fermingarbörnin miklar og líklega mestar skoðanir á því, hvað þau vilja bjóða upp á í veislunni sinni ef ein slík er haldin. Lea, dóttir mín, vildi hafa ýmsa smárétti, míní-hamborgara og meiri partímat, sæta munnbita, smákökur og nammibar. Og þá tók ég saman uppskriftirnar sem hér birtast. Mér finnst svolítið gaman að birta þær, því ég get mælt með þeim við hin ýmsu tilefni, alls ekki bara fermingar. Fermingarbörn ársins nákomin okkur nefna sushi, pizzur og kjúklingasúpu í sína veislu. Þetta er ansi langt frá þeim fermingarstíl sem var fermingarsunnudaginn minn árið 1987. Ég er svo glöð með það að þau hafi skoðanir og líti svo á að veitingarnar og það hvernig veislan og umhverfið er sett upp endurspegli þau á einhvern hátt. Til hamingju, öll fermingarbörn!

Uppskriftirnar birtust inni á www.gottimatinn.is og þar má finna margar góðar hugmyndir fyrir fermingarveisluna.

Bolluhringur með mjúkri ostamiðju

Lungamjúkar gerbollur og heitur ostur – góð blanda með góðri sultu. Virkilega góð uppskrift að gerbollum sem má nota á ýmsa vegu í veisluna. Hér einnig notuð fyrir uppskrift að brauði með míní-hamborgurum.

5 b hveiti

5 msk. heilhveiti

2 msk. þurrger

3 msk. sykur

2 tsk. salt

½ l volgt vatn

50 g brætt smjör

1 eggjarauða

Hitið ofn í 180 gráður. Hrærið þurrefnin saman í skál. Búið til gat í miðjuna og hellið vatni og smjöri þar ofan í. Blandið saman með sleif til að byrja með og hnoðið svo í höndunum. Athugið að þetta deig er frekar blautt og þarf ekki að hnoða það mikið. Látið hefast í klukkustund.

Að hefingu lokinni skal móta penar bollur. Hér þarf að hafa hveiti við höndina til að deigið klístrist ekki allt við mann, hveitistrá hendurnar aðeins fyrir hverja bollu, en það er þess virði því þær verða mjög mjúkar eftir bakstur.

Takið ostinn sem þið ætlið að hafa í miðjunni og raðið bollunum í kringum hann. Hafið smá bil á milli bollanna. Látið bollurnar hefa sig/taka sig aðeins aftur um stund. Fjarlægið ostinn. (Hér er ekki vitlaust að nota ost sem er í tréumbúðum, Stóri-Dímon, og nota umbúðirnar allan tímann, baka bollurnar með umbúðum) Hrærið eggjarauðu og smyrjið á bollurnar. Stráið birki- eða sesamfræjum yfir þær.

Stingið í ofn og bakið í um 10 mínútur. Takið þá út og látið ostinn í miðjuna eða ofan í formið. Bakið áfram í u.þ.b. 10 mínútur eða þar til bollurnar eru gullnar og osturinn mjúkur.

Ef þið viljið gera hringinn daginn áður skal nota ost með tréumbúðum eða nota lítið hringlaga form í staðinn sem má fara í ofn. Baka hann þar til hann er alveg tilbúinn, um 20 mínútur. Hita þá ostinn þegar á að bera hann fram og setja hann í formið, ofan í bolluhringinn. Berið fram og hafið góða sultu og annað ljúfmeti með.

Gunnar Sverrisson

Spínat- og þistilhjörtuídýfa með nachos-flögum

Ekta amerískur draumur. Ídýfa sem gengur í öllum boðum og partýjum, jafnt sumar sem vetur. Sniðug á hlaðborð þar sem fólk á öllum aldri kemur saman.

2 msk. ólífuolía

2 msk. smjör

1 lítill laukur, smátt saxaður

2 hvítlauksrif, smátt söxuð

4 msk. hveiti

1 ½ b. kjúklingasoð

1 ½ b. rjómi

1 b. rifinn parmesanostur

1 msk. sítrónusafi

1 msk. sykur

1 dós sýrður rjómi

1 b. rifinn cheddarostur

450 g frosið spínat, þítt

170 g niðursoðnir ætisþistlar

¾ tsk. Tabasco-sósa

Nachos-flögur

Bræðið saman olíu og smjör í potti á miðlungshita. Setjið lauk saman við og mýkið hann í 3-4 mínútur. Bætið þá hvítlauk saman við og bætið við öðrum 2-3 mínútum. Stráið hveiti yfir laukinn og hrærið í 3-4 mínútur, þar til blandan er gullin og áferðarfalleg. Hellið kjúklingasoði yfir í nokkrum hlutum og hrærið vel í á milli eða þar til blandan tekur að þykkna og hún verður kekkjalaus.

Komið upp suðu. Hellið þá rjóma saman við og hrærið vel svo úr verði kekkjalaus jafningur. Takið af hitanum og setjið parmesanost, sítrónusafa, sykur og sýrðan rjóma saman við og hrærið vel. Hrærið þá rifinn ost út í.

Kreistið umframvökva úr spínatinu, saxið það meira ef ykkur þykir þörf á og hrærið saman við blönduna. Látið renna vel af þistilhjörtunum og skerið þau smátt. Nú fara þau út í blönduna. Smakkið til með Tabasco-sósunni.

Setjið hita undir ídýfuna að nýju, hrærið vel í pottinum þar til osturinn er allur bráðinn og ídýfan áferðarfalleg. Berið hana fram heita með nachos flögum, heitum tortillum, bagettusneiðum eða því sem þið kjósið.

Gunnar Sverrisson

Fylltur brauðhleifur

Fallegt á borði og einfalt í matargerð. Gestir rífa sér einn og einn bita af heitu brauði með smjöri, kryddjurtum og mosarella-osti.

Góður og glænýr brauðhleifur

Mjúkt smjör

Steinselja, smátt söxuð

Mosarellakúla, söxuð

Rifinn parmesanostur

Sjávarsalt

Ferskt rósmarín

Hitið ofn í 200 gráður. Skerið langsum og þversum skurði ofan í brauðið, fjöldi skurða fer eftir stærð brauðhleifs, en þannig að hver biti sé um 1 ½ til 2 cm. Gætið að því að skera það ekki alveg niður svo það fari ekki í sundur! Takið undir brauðið og glennið það í sundur; með því er auðvelt að smyrja brauðið með mjúku smjöri, strá steinselju ofan í það, dreifa mosarella-ostinum, strá parmesanosti yfir og ofan í ásamt smá salti. Stingið rósmaríngreinum hér og þar.

Stingið í ofn og bakið þar til brauðið er vel heitt og osturinn vel bráðinn. Berið strax fram. Athugið að þetta brauð má gera daginn áður og geyma í kæli þar til því er stungið í ofn.

Gunnar Sverrisson

Amerískar smákökur

Það þarf að setja sig í spor fjórtán ára barna þegar sett er saman fermingarveisla og heyra það á þeim hvað þau vilja hafa og hvað þeim þykir gott. Amerískar smákökur, cookies, er eitthvað sem margir myndu nefna. Hér er ein ekta uppskrift sem klikkar ekki.

1 b. mjúkt smjör

1 b. púðursykur

1 egg

1 ½ tsk. vanilludropar

2 b. hveiti

1 ½ tsk. lyftiduft

1 tsk. salt

1 ½ b. Smarties eða M&M

Hitið ofn í 180 gráður. Hrærið saman smjör og sykur þar til létt og ljóst, bætið þá eggi saman við og hrærið ásamt vanilludropum. Setjið þurrefnin saman við og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman og þá Smarties eða M&M. Hrærið varlega svo nammið brotni ekki allt.

Gott er að stinga deiginu í ísskáp í um hálftíma, móta þá litlar kúlur og setja á bökunarplötu. Athugið að deigið má geyma í ísskáp yfir nótt. Þrýstið létt ofan á kúlurnar með fingrunum. Bakið í 8-10 mínútur ef þið viljið hafa þær mjög mjúkar að innan en 12-14 mínútur ef þið viljið hafa þær stökkar.

Gunnar Sverrisson

Míní-hamborgarar

Heimalagaðir míní-hamborgarar eru girnilegir á vel framsettum matarbökkum og laða marga að. Þessir eru bornir fram með cheddar-osti, stökku beikoni, ediklöguðum rauðlauk og kaldri bearnaise-sósu.

Hamborgarar

500 g vandað nautahakk

3 msk. steinselja, söxuð

3 msk. estragon/tarragon, smátt saxað

3 msk. brauðmylsna

4 msk. rifinn parmesanostur

1 msk. dijon hunangssinnep

1 egg

Sjávarsalt og svartur pipar

cheddar-ostur, skorinn í sneiðar

stökksteikt beikon, smátt saxað

Hrærið allt hráefnið saman. Mótið litla hamborgara og geymið í ísskáp í a.m.k. klukkustund áður en þeir eru steiktir. Þetta má gera daginn áður og sömuleiðis má steikja þá daginn áður og geyma í kæli.

Áður er borgaranir eru bornir fram skal setja á þá þykka sneið af cheddar-osti og strá smátt söxuðu og stökku beikoni yfir. Á þann hátt er gott að geyma þá og stinga þeim svo beint inn í heitan ofn sem er á grilli áður en þeir eru bornir fram.

Rauðlaukur í ediki - meðlæti

1 rauðlaukur, sneiddur örþunnt

1 msk. hvítvíns- eða rauðvínsedik

1 tsk. sykur

1 tsk. salt

Hrærið allt hráefnið saman og látið standa í a.m.k. klukkustund áður en laukurinn er settur á hamborgarann. Laukinn má gera daginn áður.

Bearnaise-sósa:

Fyrir þá sem svo kjósa má gera heimalagaða sósu á hamborgarana. Hins vegar er mælt með því að kaupa vandaða kalda bearnaise-sósu sem má fá víða ef um mannmarga veislu er að ræða.

Samsetning:

Skerið brauð í tvennt. Smyrjið sósu á báða hluta, ekki spara hana því brauðin drekka svolítið í sig. Leggið heitan borgara á neðri hlutann, sem er með osti og beikoni, og setjið lauk þar ofan á. Lokið með efra brauðinu. Gott er að stinga tannstöngli eða pinna í gegnum borgarann og raða á bakka. Það er þægilegra fyrir gesti að þeir detti ekki í sundur þegar þeir sækja sér á disk.

Gunnar Sverrisson

Brownie með Marsbitum

Ekta brownie sem öllum þykir góð. Þessi hverfur fljótt í boðum. Einn Marsbiti fer í hvern kökubita.

250 g smjör

250 g súkkulaði

1 ½ b. hveiti

1 ½ b. sykur

1 ½ tsk. lyftiduft

3 egg

3 Mars-stykki

Hitið ofn í 160 gráður. Bræðið saman smjör og súkkulaði í potti. Látið blönduna kólna svolítið. Hrærið þurrefni saman í skál. Hellið súkkulaðiblöndunni saman við þurrefnin og brjótið eggin eitt af öðru út í. Hrærið vel en varlega og ekki of lengi.

Skerið Mars-stykkin í um hálfs sentimetra þykka bita. Hellið kökudeiginu í aflangt form, leggið Mars-bitana í þrjár til fjórar raðir ofan á deigið og alla leið niður. Bakið í um 30 mínútur eða þar til kakan er orðin bökuð að ofan en mjög mjúk í miðjunni. Stingið í hana með bökunarprjóni og hann skal koma örlítið óhreinn út. Gætið að því að baka kökuna alls ekki of lengi þá missir hún mýktina sem skiptir öllu máli. Kælið og skerið í litla bita þannig að einn Mars-moli sé í hverri sneið. Raðið fallega á bakka, stráið flórsykri eða kakói yfir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert