Fermingargjöf sem hittir í mark!

Hjónin Guðný Matthíasdóttir og Róbert Halbergsson gera vinsæl fermingarplaköt sem notuð eru til skreytinga í veislum og sem gjafir. Hjónin höfðu verið án atvinnu í fjögur ár þegar þau ákváðu að taka málin í sínar hendur. 

Guðný segir ákaflega gaman að starfa með Róberti eiginmanni sínum í fyrirtæki þeirra hjóna. Sagan á bak við fyrirtækið er einstök. Í raun framtak sprenglærðra fagmanna sem fengu ekki atvinnu við sitt hæfi í mörg ár í landinu.

„Við hjónin höfðum sótt okkur menntun í grafískri hönnun og margmiðlun í Danmörku. Þegar við höfðum ekki fengið vinnu við það sem við höfðum lært, 4 árum eftir flutningana til landsins, tókum við málin í okkar hendur og bjuggum til Puha design. Upphaflega var það hugsað til að halda við því sem við lærðum, en fljótlega vatt það upp á sig.“

Hvað getur þú sagt mér um plakötin ykkar?

„Við reynum að einblína á að hafa jákvæðar fréttir á þeim. Það er mjög mikið af upplýsingum um tónlist og kvikmyndir og svo af því við höfum svo mikinn áhuga á Söngvakeppni evrópsku sjónvarpstöðvanna, Eurovision, þá eru alltaf upplýsingar um það hver keppti fyrir Ísland á viðkomandi ári, hvar keppnin var haldin og hver sigraði. Auðvitað er ekki hægt að horfa fram hjá risastórum hlutum í sögunni, þrátt fyrir að þeir séu stundum neikvæðir, en það vill enginn mæta í fermingu eða afmæli og rétta fram gjöfina og segja: Til hamingju með ferminguna, á afmælinu þínu varð mannskæð sprengjuárás, 2 hræðileg flugslys og hrikalegur jarðskjálfti!“

Voru að leita að góðri gjöf sjálf

Guðný segir fólk stundum óska eftir aukaupplýsingum á plakötin, sem þau reyna að verða við.

„Svo lengi sem það er ekki of mikið mál að finna þær, eða að þær krefjist mikilla breytinga á uppsetningunni. Við höfum sett inn að Siggi frændi eigi líka afmæli viðkomandi dag. Sett inn fasteignaverð á hinum ýmsu stöðum á landinu, auk upplýsinga um alls konar íþróttafélög, bæði innlend og erlend.

Elsti aðilinn sem við höfum gert plakat fyrir er fæddur 1930 og sá yngsti var rétt um 2 vikna þegar við gerðum plakatið. 52% þeirra sem við höfum gert plakat fyrir eru konur og flestir eiga afmæli í maí. Við höfum gert þau á íslensku, dönsku og ensku og auk þess á hollensku, pólsku, þýsku og norsku, en þá þýddi sá sem pantaði þau yfir á viðkomandi tungumál. Þessi plaköt eru gjöfin fyrir þann sem á allt. Persónulegt, án þess að þú þurfir að þekkja viðkomandi mjög vel.“

Guðný segir gjöfina henta öllum aldurshópum að plakötin séu frábær fermingargjöf, en þau séu einnig vinsæl í útskrift, brúðargjöf og sem gjafir í afmælisveislur.

Eins segir hún marga skreyta á fermingardaginn með plakatinu.

Hvernig vaknaði þessi hugmynd?

„Í mörg ár höfum við gert afmæliskort með gjöfum, sem eru svona eitthvað í áttina að þessu plakötum. Þar höfum við sett upp svona skemmtilegar upplýsingar um afmælisbarnið og stjörnumerki og eitthvað slíkt. Við tókum líka eftir því að kortin vöktu yfirleitt meiri athygli en sjálf gjöfin.

Fyrir 2 árum var okkur svo boðið í 2 fertugsafmæli sömu helgina. Bæði afmælin voru hjá nánum vinkonum, þar sem okkur langaði að gefa einhverja fallega og sérstaka gjöf, þá kom þessi hugmynd upp. Við köstuðum henni á milli okkar í tvo til þrjá daga og þá voru plakötin fædd.

Strax eftir þetta fór boltinn að rúlla og við merkjum stöðuga aukningu.“

Gaman að sjá verðlagsbreytingar

Guðný segir að langflestir sem panta þessar gjafir hjá þeim séu fastaviðskiptavinir.

„Fólk talar um að þau hafi vakið mikla athygli í viðkomandi veislu og þiggjandinn hafi verið mjög ánægður.

Við höfum einnig útfært þau sem paraplakat, sem hefur verið mjög vinsælt sem brúðargjöf eða sem skraut í brúðkaupsveislu.“

Á plakatinu er vanalega nafn, fæðingardagur og ár. „Við merkjum inn númer hvað dagurinn er á árinu, hvenær sólarupprás og sólarlag var viðkomandi dag og einnig hvaða dagur þetta er. Allir dagar hafa ákveðna sérstöðu; pönnukökudagurinn, dagurinn til að knúsa fólk, brosdagurinn og fleira í þeim dúr.

Þá kemur dálkurinn um það sem gerðist viðkomandi ár, fyrir neðan hann eru stjörnumerkjadálkarnir. Við höfum bæði stjörnumerki í dýrahringnum og einnig kínversk stjörnumerki viðkomandi.

Við erum svo með lista yfir nokkur þekkt afmælisbörn sem deila afmælisdegi með eiganda plakatsins og þar við hliðina á upplýsingar um Óskarsverðlaunin og hvaða bíómynd var á toppnum í Bandaríkjunum á fæðingardegi viðkomandi.

Í neðstu dálkunum tveimur eru upplýsingar um verðlag, árið sem viðkomandi fæddist og hvaða lög voru á toppnum á fæðingardegi viðkomandi.

Við erum einnig með dálk þar sem við listum upp merkilega hluti í gegnum söguna, sem gerðust á afmælisdegi viðkomandi.

Það eina sem fólk þarf að gera er að finna okkur á Facebook eða senda okkur skilaboð á netfangið okkar, senda okkur nafn og fæðingardag viðkomandi, velja lit og þá fer pöntunin af stað.“

Guðný segir að talsverð vinna liggi á bak við hvert plakat. Guðný sér vanalega um upplýsingaöflunina en Róbert sér um uppsetningu. Þau sjá um prentunina sjálf og afhending fer fram í gegnum Litlu Hönnunar Búðina í Hafnarfirði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert