Mun aldrei gleyma hetjuskap unnustu sinnar

Dóróthea Jóhannesdóttir og Ari Bragi Kárason með dóttur sína Elleni …
Dóróthea Jóhannesdóttir og Ari Bragi Kárason með dóttur sína Elleni Ingu. Ljósmynd/Aðsend

Tónlistarmaðurinn og spretthlauparinn, Ari Bragi Kárason, eignaðist dóttur í lok júní með unnustu sinni Dórótheu Jóhannesdóttur. Litla stúlkan sem er fyrsta barn parsins fékk nafnið Ellen Inga Aradóttir. Ari Bragi á varla orð til að lýsa hetjuskap og kjarki unnustu sinnar. 

Ari Bragi segir að það hafi verið mikið stuð og stemning fyrstu vikurnar. „Við erum öll að læra hvert á annað og finna út úr þessu í sameiningu. Ekkert nema gaman,“ segir Ari Bragi. 

Nýbakaði faðirinn segir álagið á feður ekki samanburðarhæft fyrstu mánuðina en bætir þó við að nýja hlutverkinu fylgi mikil viðbrigði og segir allt vera nýtt. Það sem hefur komið honum helst á óvart fyrstu vikurnar er hvað konur eru miklar hetjur. 

Hvernig var að vera á hliðarlínunni í fæðingu?

„Það var ólýsanleg upplifun. Þetta gerðist allt mjög hratt og það sem snerti mig líklega hvað mest var hversu vanmáttugur maður var og hversu mikið mann langaði að stíga einhvern veginn inn og taka við. Magnað hvað starfsfólkið þarna var á tánum og brást hratt og örugglega við öllu. Hetjuskapurinn og kjarkurinn sem Dóróthea sýndi þarna er líka nokkuð sem ég mun aldrei gleyma.“

Þú átt stelpu, heldurðu að það muni á einhvern hátt hafa áhrif á uppeldið? 

„Ég held að það verði að koma allt saman í ljós hvers konar persónuleika litla stelpan mín hefur að geyma. Henni standa allar dyr opnar og ég mun fylgja henni eftir og styðja við hana í hvaða átt sem áhugi hennar og ástríða liggur.“

Ellen Inga er tveggja mánaða.
Ellen Inga er tveggja mánaða. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert