Þarf að kenna börnum að lesa þegar þau geta talað við ísskápinn?

Það er ekki hægt að segja að afturhaldssemi hrjái Björn Gunnlaugsson, aðstoðarskólastjóra í Laugarnesskóla. Hann er svo framúrstefnulegur í hugmyndum sínum um kennslu að hann er meira að segja farinn að efast um að það þurfi að kenna börnum framtíðarinnar landafræði og lestur enda hægt að spyrja ísskápinn hvar Belgíu sé að finna í heiminum. 

Björn hóf sinn námsferil í Melaskóla. Þaðan fór hann í Valhúsaskóla og í kjölfarið í Menntaskólann við Hamrahlíð. Að því loknu lærði hann leikstjórn í Bandaríkjunum og að því námi loknu bjó hann í Bretlandi í fimm ár. Árið 2004 venti Björn kvæði sínu í kross, tók kennsluréttindanám í Háskóla Íslands og bætti við sig gráðu í stjórnun menntastofnana. Síðustu átta árin hefur hann svo starfað við skólastjórn.

Árið 2015 fékk Björn það veglega verkefni í hendurnar að stýra innleiðingu á notkun spjaldtölva í grunnskólum Kópavogs. Hann segir að það hafi strax verið áberandi hvað nemendurnir sýndu verkefnum, þar sem þau gátu nýtt sér tölvur og tækni, meiri áhuga og einnig að með tækninni væri hægt að láta námið fara fram hvar og hvenær sem er.

„Þegar ég var að kenna í Norðlingaskóla vorum við mikið að einblína á að einstaklingsmiða námið og gera nemendur ábyrga fyrir sinni vinnu. Ég setti allt námsefnið sem nemendur þurftu að nota á netið svo það væri hægt að nálgast það í skólanum, heima, í sumarbústaðnum, bara hvar sem er. Þetta breytti mjög miklu því nemendur eru ekki endilega upplagðir akkúrat á því augnabliki sem einhver stundatafla segir að þau eigi að læra ensku eða landafræði,“ segir hann og bætir við að námsverkefni eigi að vera fjölbreytt og reyna á alls konar færni og að eyðufyllingar í vinnubókum uppfylli ekki þá kröfu en að með snjalltækjum geti nemendur náð sér í upplýsingar, annaðhvort í rafrænum námsbókum eða á netinu og unnið svo með þær á margvíslegan hátt.

Gleymdi svörunum í næstu frímínútum

Björn segir að það sem kennari vilji að nemandi geri í skólanum sé að tileinka sér nýja færni eða þekkingu og sýna fram á að hann hafi lært eitthvað nýtt.

„Snjalltæki gerir nemanda kleift að búa til rafbók, stuttmynd, hlaðvarp, glærukynningu, myndaalbúm eða vefsíðu, allt eftir því hvað hentar hverju sinni og hvernig nemanum hentar best að sýna kunnáttu sína. Þegar ég var í skóla á síðustu öld fór þetta oftast þannig fram að við áttum að lesa heima kaflann um Belgíu í landafræðibókinni. Svo komum við í skólann og vorum spurð hvað höfuðborgin héti og hverjir væru helstu atvinnuvegir. Maður var búinn að gleyma svörunum strax í næstu frímínútum,“ segir hann og óhætt er að fullyrða að eflaust kannist margir við það.

Bylting að tala í síma annars staðar en við „símaborðið“ í forstofunni

Þar sem Björn hefur löngum verið einn helsti talsmaður fyrir nýtingu tækninnar við skólastarf liggur beint við að spyrja hann hvort farsímar sem slíkir geti nýst börnum við skólastarf en eins og við vitum hefur notkun þessara tækja verið mikið rædd, bæði meðal foreldra og hjá ýmsum sérfræðingum í félags- og skólastarfi, og þá helst með neikvæðum tón. Björn segir að þó símarnir sem slíkir nýtist ekki í skólastarfinu gildi öðru máli um hitt sem hægt er að gera með þessum tækjum.

„Það er áhugavert þetta orð, far-sími. Ég er ekki viss um að margir krakkar á grunnskólaaldri sjái ástæðu til að bæta þessu forskeyti við. Upphaflega íslenska orðið var bílasími ef ég man rétt. Það var auðvitað rosaleg bylting á sínum tíma að geta talað í símann annars staðar en við „símaborðið“ í forstofunni og þessi magnaða bylting var að ryðja sér til rúms á Íslandi þegar ég var í menntaskóla. Fyrir tuttugu árum voru svo að segja allir fullorðnir Íslendingar búnir að eignast þetta undratæki, far-síma, síma sem er hægt að fara með um allar trissur,“ segir Björn og brosir í kampinn.

Snjallsíminn öflugri en tölvan sem kom mönnum til tunglsins

„Krakkarnir í dag kalla þetta tæki bara síma, alveg eins og þau tala ekki sérstaklega um lita-sjónvarp. Þessi tæki eru samt allt annað og meira en bara símar. Þetta eru öflugri tölvur en sú sem stýrði fyrstu mönnuðu ferðinni til tungslins!“ segir hann og bætir við að þó símahlutverkið sé kannski aðaltilgangur tækjanna séu þau notuð í ótal margt fleira og að möguleikarnir virðist nánast óendanlega margir.

„Ég nota símann minn til að leggja bílnum í stæði, borga í strætó, panta leigubíl eða bóka mér rafskutlu. Svo nota ég hann til að gá til veðurs, lesa tölvupóst, bóka fundi (og minna mig á þá og segja mér til vegar á leiðinni á fundina), ég borga fyrir vörur og þjónustu með símanum, ökuskírteinið mitt er í honum og ég get notað hann til að fara í bankann, borga reikninga og millifæra (enn einu sinni) þúsundkall á dóttur mína svo hún geti notað sinn síma til að kaupa sér ís. Hún fékk auðvitað ísinn í verðlaun af því að ég fékk meldingu í hann um að hún hefði staðið sig vel á prófi í skólanum. Síminn kemur alltaf með þegar ég fer út að hlaupa, bæði til að skrá hlaupið og svo ég geti hlustað á tónlist í staðinn fyrir mín eigin andköf á meðan ég hleyp. Þegar ég kem heim eftir hlaupið er ég orðinn svangur svo ég nota app í símanum til að panta mér mat og meðan ég bíð eftir matnum drep ég tímann með því að kíkja á samfélagsmiðla eða spila einhvern leik,“ segir hann með tilheyrandi handahreyfingum og eins og heyra má á þessari upptalningu hefur Björn tileinkað sér tæknina á ótal sviðum daglegs lífs.

Vasadiskóið átti að gera hann ófæran um mannleg samskipti

Spurður að því hvaða galla hann sjái við símanotkunina segir hann þá nánast enga en það sé hinsvegar í eðli foreldra að vilja vernda börnin sín og að nýjungar á sviði tækninnar hafi í gegnum tíðina oft haft þau áhrif að foreldrar fái áhyggjur.

„Þegar ég var að alast upp voru það vasadiskóin og vídeótækin sem áttu bæði að gera mig ófæran um mannleg samskipti og varla talandi á íslensku. Hjá eldri bróður mínum var svipað sagt um kanaútvarpið. Á nítjándu öld vöruðu barnalæknar við því að börn væru látin sitja við gluggann í járnbrautarlestum, því þau myndu ekki ráða við áreitið að sjá landslagið þjóta hjá fyrir utan gluggann og um svipað leyti var talað um að ungar stúlkur ættu ekki að lesa skáldsögur því þær myndu hætta að geta greint á milli veruleika og ímyndunar. Við getum hlegið að því í dag en að mínu mati er þetta ekkert ósvipað því þegar menn búa til tískuyrði eins og „skjátímaheilkenni“ eða segja tröllasögur af því að það sé hægt að verða svo mikill tölvuleikjafíkill að maður hætti að fara á klósettið og kúki bara í pítsukassann inni í herbergi. Það virðist vera mjög auðvelt að sannfæra fólk um að nýju tækin sem krakkarnir nota hljóti að vera stórhættuleg,“ segir hann og bætir við að það séu þó ekki tækin sjálf sem skapi vandamálin heldur hafi börn og unglingar alltaf lent í hremmingum þegar kemur að félagslegu hliðinni.

Vandamálin myndu ekki hverfa þótt símar væru teknir af börnum

„Samskiptavandamál, einelti, ofbeldi, félagsleg einangrun og aðrar hremmingar hafa hrjáð krakka frá alda öðli. Þegar börn og unglingar nota síma mjög mikið í samskiptum, eins og þau gera núorðið, þá er augljóst að vandamál í samskiptum birtast þá í tengslum við þær samskiptaleiðir sem notaðar eru – í þessu tilviki síma, samfélagsmiðla og þvíumlíku. Það er barnaskapur að halda að þau vandamál myndu hverfa ef engir væru símar og það er ekki skynsamlegt að einblína á þessa þætti þegar tækin koma að gagni á þúsund ólíka vegu.“

Í þessu samhengi nefnir hann að breytingar á kennsluaðferðum og í skólakerfinu haldist sjaldnast í hendur við þær öru breytingar sem við sjáum í heimi tækninnar og að ástæðuna fyrir því viti hann ekki.

„Þó skólar hér á landi séu smátt og smátt að taka tæknina í sína þjónustu eru samfélagsbreytingarnar örar og best væri að skólaumhverfið væri í svipuðum takti,“ segir hann og nefnir deilihagkerfið sem dæmi um þessar miklu breytingar. Hann tekur dæmi um að stærsta fyrirtækið í hótelbransanum eigi engin hótel, stærsta leigubílafyrirtækið eigi enga bíla og stærsta bókabúðin sé hvergi sjáanleg í verslunargötu eða molli.

„Annað dæmi er hvernig gervigreind og snjalltæknin er að breyta heimilislífinu hjá fólki. Ég get til dæmis spurt ísskápinn minn hvort ég þurfi að koma við í mjólkurbúðinni á leið heim úr vinnu. Á sama tíma og þetta getur verið mjög þægilegt eru líka ógnvekjandi hlutir að gerast varðandi það hvernig stórfyrirtæki notast við persónuupplýsingar og hvernig fjölmiðlaumhverfið er að sundrast þannig að það verður sífellt erfiðara að átta sig á hvað er satt og hverju er logið. Það er gríðarleg áskorun fyrir skólakerfið að hjálpa nemendum að skilja og takast á við þessar breytingar sem þegar eru að verða allt í kringum okkur og því fyrr sem verður tekið á þessu, því betra.“

Kennarar um allt land unnu stórsigra síðasta vor

Spurður að því hvernig hann sjái skólaumhverfið fyrir sér eftir fimm ár segir hann að oftast sjáist ekki miklar breytingar á þeim tíma. Fimm ár séu mjög stuttur tími í skólamálum en síðasta vor hafi undantekningin sýnt sig þegar þessar miklu truflanir urðu á skólastarfi. Þá hafi kennarar þurft að leita leiða til að koma til móts við nemendur sem máttu ekki lengur vera í skólanum allan daginn. Hann segir að kennarar eigi mikið hrós skilið fyrir það hvernig til tókst og bætir um leið við að honum hafi þótt mjög áhugavert að sjá hversu miklu auðveldara þetta var í Kópavogi þar sem markviss stefna um nýtingu snjalltækninnar var mótuð fyrir fimm árum.

„Kennarar um allt land unnu þó stórsigra sem sýnir okkur að skólakerfið hefur eflaust meiri getu til að takast á við breytingar en maður hefur haldið. Eins og ég sagði áðan verða samfélagsbreytingar sífellt örari. Það er nauðsynlegt að skólakerfið fylgi þessari þróun og hjálpi nemendum fóta sig í heimi þar sem það má nánast segja að það eina sem er öruggt er að allt er að breytast,“ segir hann og nefnir í leiðinni þá róttæku hugmynd að innihald námsbóka verði að hverfa og að þegar fram líða stundir þurfi kannski ekki lengur að kenna börnum að lesa.

„Hver þarf landafræðibók til að segja sér hver sé höfuðborg Belgíu þegar það er hægt að spyrja ísskápinn? Ég er meira að segja ekki viss um að það verði svo mikilvægt að kenna börnum að lesa. Við erum þegar farin að sjá merki þess að hið ritaða mál hefur ekki sama vægi og áður, ýmiss konar myndræn framsetning skipar æ stærri sess og það er nú þegar hægt að nota talað mál til að skrásetja hluti og koma upplýsingum á framfæri. Þetta gildir jafnt um tölvur og fólk, jafnvel fólk sem ekki talar sama tungumál og við sjálf,“ segir nútímamaðurinn Björn Gunnlaugsson að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert