Segir Madsen góða fyrirmynd

Peter Madsen.
Peter Madsen. AFP

Jenny Curpen, eiginkona Peters Madsens, telur hann vera góða fyrirmynd barna sinna. Parið gifti sig á síðasta ári, eftir að Madsen hlaut lífstíðardóm fyrir morðið á dönsku blaðakonunni Kim Wall.

Curpen, sem er rússnesk listakona og femínisti, segist heimsækja Madsen í fangelsið eins oft og mögulegt er og tala við hann mörgum sinnum á dag. 

„Samkvæmt dönskum lögum á Madsen engan rétt á að hitta börn mín, en ég held að hann geti verið fullkominn faðir og karlkyns fyrirmynd,“ segir Curpen í ítarlegu viðtali við veftímaritið Knife en hún á tvo stráka og er yngri strákurinn nefndur Peter í höfuðið á Madsen.

Aðspurð segist hún hafa gifst honum af ást. „Ég giftist manni sem er mun stærri en glæpir hans. Það þýðir ekki að mér sé ekki sama. Saklaus  manneskja þurfti að fórna lífi sínu til þess að ég gæti hitt þann sem ég þarfnaðist í líf mitt.“ 

mbl.is