Eru einbirni meira einmana?

Það er ekkert slæmt að vera einbirni.
Það er ekkert slæmt að vera einbirni. mbl.is/Colourbox

Blaðamaðurinn Lauren Sandler rannsakar í nýútkominni bók sinni One and Only líf einkabarnsins og þær staðalímyndir sem fylgja því að vera einkabarn. Sjálf er hún einbirni alið upp af móður sem einnig var einbirni. Í viðtali við Goop ræðir Sandler þær samfélagslegu hugmyndir sem ríkja um barneignir. 

Aðspurð hvort einkabörn séu einmana segir Sandler alla upplifa einmanaleika einhvern tímann á lífsleiðinni, sama hversu margir séu í kringum mann. „Það er ákveðinn munur á einmanaleika og einveru. Þegar við sjáum barn sem er eitt, þá vörpum við á það ákveðinni hugmynd um einmanaleika þegar réttara væri að hugsa um einveru. Þá hafa rannsóknir sýnt að börn upplifa einmanaleika óháð því hvort þau eiga systkin eða ekki. Félagsleg færni þróast að mestu leyti í skóla og með því að umgangast vini,“ segir Sandler.

Þá bendir Sandler á það að það sé ein fjölskyldugerð sem fær yfirleitt neikvæðar athugasemdir í sinn garð og það er fjölskyldan sem á „bara“ eitt barn. „Ein ástæða þess að ég skrifaði þessa bók var til þess að rannsaka hvort það væri eitthvað til í þeirri hugmynd að það væri slæmt fyrir börn að alast upp í slíkri fjölskyldugerð og niðurstaðan var að svo væri ekki. Af hverju er þá alltaf verið að gera neikvæðar athugasemdir við að barn alist upp án systkina?“ spyr Sandler.

„Til er hugtak sem nefnist „resource dilution“ og felur í sér að töluðum orðum til barns fækkar í hlutfalli við hvert systkin sem bætist við. Einkabörn fá fleiri orð og þurfa ekki að deila þeim með öðrum. Oft er talað um að einkabörn séu fullorðinsleg en það er ef til vill vegna þess að þau upplifa tungumálið af svo miklu meiri ákefð en börn í barnmörgum fjölskyldum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert