Kynntust fyrir 20 árum, byrjuðu að búa og eignuðust tvo drengi

Magni og Hugrún ásamt sonum sínum Míó og Nóa.
Magni og Hugrún ásamt sonum sínum Míó og Nóa.

Hugrún Dögg Árnadóttir og Magni Þorsteinsson kynntust á blindu stefnumóti fyrir tuttugu árum. Það var ást við fyrstu sýn. Þau vinna saman, eiga tvö börn saman og eru frekar afslappaðir foreldrar að eigin sögn. 

Hugrún og Magni hönnuðir KRON by KRONKRON og eigendur verslanna KRON og KRONKRON héldu upp á merkilegan dag í sínu lífi um miðjan ágúst á þessu ári.

„Þann 18. ágúst fyrir tuttugu árum fórum við á blint stefnumót í Bláa lóninu sem leiddi til þess að við byrjuðum að búa saman tveim dögum síðar. Þremur mánuðum seinna byrjuðum við að reka Kron saman. Hlutirnir hafa ekki tekið okkur langan tíma, enda erum við mikið ástríðufólk sem látum vaða ef tilfinningarnar styðja við ákvörðun okkar. Þetta hefur líklegast verið eitt af okkar einkennum í gegnum tíðina,“ segja Hugrún og Magni.

„Magni fór á skeljarnar fyrir allmörgum árum og við reyndum nú einu sinni að gifta okkur og kölluðum til prest og slógum í veislu samdægurs en hættum svo við á lokametrunum og héldum bara veisluna, en ætli þetta sé ekki eina skiptið sem við hættum við eitthvað sem hjartað okkar sagði okkur að gera. Í okkar huga skiptir kannski ekki öllu máli að vera gift eða ekki.“

Sammála um að gera hlutina saman

Hugrún og Magni hafa starfað saman í öll þessi tuttugu ár og eru stolt af þessari vegferð sinni sem hefur einkennst af vinskap og velvilja hvort til annars.

„Við erum alltaf sammála um að við getum þetta saman. Við náum að verkaskipta okkur vel og gengur það bara frábærlega,“ segir Hugrún og Magni bætir við:

„Auðvitað er alltaf spurning hve snemma á morgnana eigi að byrja að ræða málin og hvenær eigi að hætta á kvöldin en við erum næm á hvort annað og látum það ráða ferðinni. Við erum jú tvö að vinna margra manna verk og því eðlilegt hjá okkur að forgangsraða og láta það ekki trufla okkur þótt við náum bara að gogga efst í listann, sem getur verið snúið en þolinmæði er dyggð segir sagan.“

Hugrún og Magni eiga tvo drengi saman, þá Míó Magnason tólf ára og Nóa Magnason átta ára.

„Míó er mikill fótboltaáhugamaður og æfir hann hjá Val ásamt því að vera í skátunum. Nói er litríkur og skapandi söngfugl sem hefur hingað til ekki verið tilbúinn að fara í neinar tómstundir, sama hvað við höfum reynt að bjóða honum. En nú segist hann vera til í að fara í bogfimi og ætlum við að athuga hvort það sé í boði fyrir 8 ára gutta.“

Þau segja dásamlegt að fylgjast með því hvað drengirnir sem aldir eru upp við svipað umhverfi eru ólíkir.

„Míó er með meiri áhuga á tækni og íþróttum meðan Nói hrópar yfir sig af gleði þegar hann sér fallega litasamsetningu,“ segja þau.

Vilja kenna börnunum að vera samkvæm sjálfum sér

Hvernig er að starfa saman bæði sem foreldrar og einnig í vinnu?

„Okkar daglega vinna tvinnast jú inn í fjölskyldulífið og eru synir okkar þátttakendur í okkar starfi og koma þeir reglulega eða eiginlega bara rosalega oft með sínar hugmyndir um hvað við getum gert til að gera betur og spyrja alltaf eftir daginn hvernig gekk í vinnunni í dag. Við erum öll mjög tilfinninga náin og þó dagarnir okkar séu langir og helgarnar stuttar þá erum við ótrúlega tengd sem ein heild. Við nýtum tímann vel í að vera en ekki fara þegar við erum saman. Þótt við klárlega séum foreldrarnir á heimilinu og ákveðnum óskráðum reglum fylgt þá er uppeldið eflaust í frjálslegri kantinum og einkennist eflaust af trausti og vináttu.“

Hugrún og Magni segja að þeim þyki mikilvægt að miðla inn í líf sona sinna ákveðnu hugrekki.

„Við viljum að þeir þori að líta út fyrir línurnar í lífinu. Eins viljum við að þeir læri að vera sjálfum sér samkvæmir og hafa hugrekki til að fylgja sínu innsæi þótt það þýði að fara sínar eigin leiðir og forðast tilhneigingu mannsins að tikka í boxin. Að vera óhræddir að styðja við það sem þau trúa á, hvort sem það sé fólk eða hugmyndir. Við kennum þeim mikilvægi þess að halda góðar hugsanir, að bera þakklæti fyrir litlu hlutunum í lífinu, um hve sterkt vopn jákvæðni sé og hve mikilvægt sé að hafa samkennd með náunganum í stað þess að horfa bara inn á við. Eins finnst okkur mikilvægt að þora að gefa af sér og sýna tilfinningar.

Svo erum við svo lánsöm að drengirnir okkar hafa alist upp í Hjallastefnunni og erum við því frábæra fólki sem þar starfar og þeirri stefnu sem þau fylgja endalaust þakklát.“

Þakklæti ofarlega í huga

Hugrún og Magni nýta frítímann sinn vel með börnunum.

„Við erum kannski alveg óþolandi foreldrarnir sem finnst fátt betra en að ganga á fjöll og þekkja strákarnir ekkert annað en að öll frí séu nýtt á fjöllum eða sundi. Drengirnir eru aldir upp við að láta hvorki veður né vind stoppa góða göngu upp á fjöllum og er tíu til fimmtán km ganga alla daga í fríinu hin eðlilegasta uppskrift að fjölskyldufríi í þeirra huga. Þetta er klárlega það sem okkur fjórum finnst best að gera saman. Okkar bensín og okkar kjörnun saman,“ segja þau.

Lykillinn að góðu lífi að mati þeirra Hugrúnar og Magna er þakklæti fyrir heilbrigði og frið.

„Þetta öryggi sem við búum við hér á Íslandi og að vera umlukin vináttu og ást hvort annars, ásamt því að eiga öruggt þak yfir höfuðið fyrir fjölskylduna er dýrmætt. Á meðan það er til staðar þá er allt annað eitthvað sem hægt er að fást við.“

Hér er fjölskyldan á ferðalagi.
Hér er fjölskyldan á ferðalagi.
Hugrún og Magni kynntust á blindu stefnumóti fyrir 20 árum.
Hugrún og Magni kynntust á blindu stefnumóti fyrir 20 árum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »