Greindi óvart frá kyninu

Chrissy Teigen gengur með dreng.
Chrissy Teigen gengur með dreng. AFP

Fyrirsætan Chrissy Teigen greindi óvart frá því á Instagram í vikunni að þriðja barn hennar og eiginmanns hennar Johns Legends væri drengur. Fyrir eiga þau dótturina Lunu og soninn Miles.

Teigen var að spjalla um óléttuna á Instagram í vikunni og fór óvart að vísa til barnsins sem „hann“. 

„Barnið er mjög, mjög heilbrigt og hann er stór,“ sagði Teigen og greip svo fyrir munninn og sagði úpps. Í stað þess að eyða myndbandinu birti hún það og skrifaði undir að hún gæti alveg eins sagt fylgjendum sínum kynið. 

Teigen hefur verið rúmliggjandi síðan 8. september síðastliðinn og á að vera í tvær vikur. Meðgangan er flokkuð sem áhættumeðganga því að fylgjan er ekki nógu sterk. Það veldur miklum blæðingum. Til að reyna að styrkja fylgjuna þarf Teigen því að vera rúmliggjandi.

mbl.is