„Var farin að mæta með hauspoka“

Guðríður Gunnlaugsdóttir og Andri Jónsson bjuggu í Danmörku í sjö ár og kynntust því hvernig væri að kaupa notuð barnaföt. Þegar þau fluttu heim gátu þau ekki hugsað sér lífið án loppunnar og komu einni slíkri á fót. Kórónuveiran hefur haft jákvæð áhrif á reksturinn og hefur sjaldan verið meira að gera. 

Hvernig kviknaði hugmyndin að Barnaloppunni?

„Þetta er algeng spurning sem við fáum og því langar okkur að deila því hvaðan loppufyrirbærið kemur upprunalega. Við fjölskyldan bjuggum sem sagt í Kaupmannahöfn í 7 ár og kynntumst dönsku Barnaloppunni þar. Ég var nánast farin að rölta þar um með hauspoka þar sem heimsóknirnar voru farnar að verða óeðlilega margar. Ég stundaði einnig mikið þessa venjulegu loppumarkaði þar í landi þar sem fólk stóð sjálft og seldi sínar vörur svona svipað eins og Kolaportið hérna heima. Það sem stóð upp úr fannst mér við Barnaloppuna er að ég þurfti einmitt ekki að standa sjálf og selja vörurnar mínar. Ég kom þeim fyrir í básnum og svo seldu þær fyrir mig og svo gat ég keypt fallegar notaðar gersemar fyrir stelpurnar mínar í leiðinni. Þarna var ég komin með vettvang til þess að kaupa og selja barnavörur á einum stað! Mér fannst þetta svo mikil snilld, að þegar við ákváðum að flytja heim urðum við hreinlega að taka Barnaloppuna með okkur. Það var ekkert hægt að skilja uppáhaldsbúðina mína eftir í Danmörku, ekki séns,“ segir Guðríður.

Hvernig hefur gengið síðustu mánuði?

„Síðustu mánuðir hafa gengið langt framar vonum. Það er alveg greinilegt að umræðan í þjóðfélaginu í kringum endurnýtingu og umhverfið er á réttri leið. Mikill vöxtur er í búðinni hjá okkur og fólk almennt að hugsa til framtíðar með því að kaupa notað, bæði fyrir budduna og jörðina auðvitað. Við vorum auðvitað mjög stressuð eftir að kórónuveiran byrjaði fyrir alvöru á Íslandi og verst var óvissan í kringum það. Sem betur fer höfum við komist í gegnum það hingað til og höldum ótrauð áfram. Á næstu dögum eru að bætast við hjá okkur 17 nýir básar í útleigu til að svara þeirri miklu eftirspurn eftir að komast að hjá okkur og við erum einnig að skoða stærri húsnæði sem gæti verið spennandi kostur í nánustu framtíð.“

Hún segir að heimsfaraldur eins og kórónuveiran sé mikið sjokk fyrir þjóðfélagið en það hafi þrátt fyrir það sjaldan verið meira að gera hjá þeim. Guðríður segir að fólk hafi mikið verið að taka til heima hjá sér í sumar.

„Auðvitað alveg hrikalegt sjokk fyrir þjóðfélagið að lenda í heimsfaraldri og öllu því sem fylgir honum. Það er búið að takast vel að halda því í skefjum. Við höfum fylgt öllum þeim fyrirmælum sem okkur eru gefin af stjórnvöldum og reynum eins og við getum að leiðbeina fólki sem kemur til okkar að fylgja því líka. Við fundum einnig fyrir því í sumar að fólk var mikið að taka til í geymslum og bílskúrum og koma til okkar að selja það sem ekki var verið að nota lengur. Það er frábær leið að geta endurnýtt, komið barnavörum á nýtt heimili og auðvitað fengið smá auka tekjur í vasann líka í leiðinni.“

Hvað selst best?

„Það er mjög erfitt að segja. Það er allt milli himins og jarðar til sölu hjá okkur tengt börnum. Svo koma inn nýjar vörur á hverjum degi út af nýjum leigjendum sem og núverandi leigjendur koma að fylla á básana sína reglulega. Það er auðvitað eitthvað hægt að tengja við árstímann, núna selst mikið af vetrarfatnaði, regnfatnaði og skóla- og leikskólafatnaði. Á móti kemur að börn halda áfram að stækka og það selst yfirleitt vel af öllum barnavörum ef þær eru vel með farnar og á sanngjörnu verði. Þess vegna er líklega erfitt að taka einhverjar stakar vörur sem seljast best.“

Eru einhver merki vinsælli en önnur?

„Molo hefur auðvitað alltaf verið vinsælt hjá Íslendingum, svo eins og MarMar, Petit, Soft Gallery, 66°Norður, Nike, Adidas og fleiri af þessum merkjum. Svo eru auðvitað alltaf Emmaljunga og Bugaboo mjög vinsælir vagnar sem einnig seljast vel hjá okkur.“

Hvernig sjáið þið fyrir ykkur að Barnaloppan þróist?

„Eins og staðan er núna erum við að vinna mjög hörðum höndum í að stækka verslun okkar í Skeifunni og vonandi getum við einnig fundið stærra húsnæði í nánustu framtíð til að gera heimsóknina þægilegri og skemmtilegri fyrir viðskiptavini okkar sem og leigjendur. Þá væri einnig hægt að vera með fleiri bása og meira pláss. Hins vegar viljum við helst ekki fara úr Skeifunni þannig að vonandi hittum við á rétta húsnæðið sem fyrst. Hver veit svo ef við opnum fleiri Barnaloppur annars staðar á Íslandi, höfum skoðað Akureyri og höfuðborgarsvæðið. Við erum alltaf með augun opin en erum ekkert að flýta okkur. Viljum frekar gera vel, hafa rekstur og markaðssetningu í lagi sem og veita bestu þjónustu sem völ er á. Á meðan við höldum okkar striki, höfum gaman af rekstrinum og öllu tengdu versluninni okkar þá erum við hamingjusöm og vonum að viðskiptavinir okkar séu það líka. Það á alltaf að vera notalegt að koma og versla eða leigja bás hjá okkur, alveg sama hvað.“

Hvað hefur komið ykkur mest á óvart í þessum rekstri?

„Það sem hefur mest komið okkur á óvart er líklega hversu vel Íslendingar hafa tekið í þetta konsept. Líka frábært að sjá hvað fólki finnst frábært að versla notaðar vörur í dag og þar með koma að betri umhverfismálum og taka þátt í framtíðarsýn Íslands hvað varðar hringrásarhagkerfið. Svo er auðvitað mjög gaman að segja frá því að fólk er hiklaust farið að versla notað og gefa sem gjafir sem er alveg æðislegt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »