5 og 7 ára gamlar dæturnar drekka pilsner

Kristen Bell á tvær dætur sem finnst gott að fá …
Kristen Bell á tvær dætur sem finnst gott að fá sér pilsner. AFP

Kristen Bell á tvær dætur, fimm og sjö ára, með eiginmanni sínum Dax Shepard. Shepard hefur verið edrú í 15 ár og er oft til pilsner á heimilinu. Dæturnar hafa komist upp á lagið með að drekka pilsner og kom Bell einu sinni að dætrunum drekka pilsner í frímínútum í fjarkennslu á Zoom. 

Bell er sama þótt aðrir foreldrar dæmi hana fyrir að leyfa dætrum sínum að drekka pilsner eins og hún greindi frá í hlaðvarpsþætti að því er fram kemur á vef E!

Bell segir að Shepard kaupi reglulega pilsner og dætur þeirra sem eru fimm ára og sjö ára drekki eins og faðir þeirra og panti jafnvel pilsner á veitingastöðum. Áfengismagnið er ekki nema 0,5 prósent svo að Bell segir að það sé í góðu lagi. Drykkurinn hafi tilfinningalegt gildi fyrir stelpurnar.

Leikkonan greindi frá því að dæturnar hefðu nýlega opnað pilsner þegar þær voru í fjarnámi í skólanum í gegnum Zoom. 

„Þær voru í 15 mínútna pásu þar sem þær mega hoppa um, fá sér snakk og hreyfa sig. Og ég kem inn til þess að kíkja á þær klukkan hálftíu og þá eru þær báðar að drekka O'Doul's á Zoom,“ sagði Bell. „Hvað halda hinir foreldrarnir og kennararnir eiginlega um mig?“ segist Bell hafa hugsað með sér. 

Leikkonan þurfti að minna sig á að sér væri sama um skoðanir ókunnugra. „Þau láta eins og það sé eitthvað rangt við þetta. Ég gæti sagt að það væri allt í lagi með þetta af því að drykkurinn er áfengislaus.“

Bell segir það í rauninni jákvætt að dæturnar sýni pilsnerdrykkju áhuga þar sem það opni á umræðu um af hverju faðir þeirra þurfi að drekka áfengislausan bjór. „Við tölum líka mikið um edrúmennsku hans, af hverju það er mikilvægt og af hverju pabbi getur ekki drukkið,“ sagði Bell.

Dax Shepard og Kristen Bell.
Dax Shepard og Kristen Bell. AFP
mbl.is