Brynja Vífilsdóttir unir sér vel í móðurhlutverkinu

Brynja Vífilsdóttir ásamt dætrum sínum, Mýrún og Magdalena.
Brynja Vífilsdóttir ásamt dætrum sínum, Mýrún og Magdalena.

Brynja Vífilsdóttir er búsett í Bandaríkjunum ásamt Hannesi Smárasyni eiginmanni sínum þar sem hún sinnir fjárfestingum, góðgerðarmálum og uppeldishlutverkinu af natni. Hún á tvær dætur sem elska ballett. 

Hún kann vel við sig í Bandaríkjunum og býr við öryggi og góðar aðstæður þrátt fyrir kórónuveiruna. Fjölskyldan býr rétt fyrir utan Boston. Eldri dóttir Brynju heitir Mýrún og er fjórtán ára en sú yngri heitir Magdalena og er sex ára.

„Mýrún er að byrja í menntaskóla en Magdalena er að byrja í fyrsta bekk. Reyndar á ég enn frekara barnaláni að fagna því ég á einnig fjögur stjúpbörn. Sú elsta, Nanna Katrín, er í meistaranámi við Boston University og við erum afskaplega glöð að hafa hana nálægt okkur. Hin þrjú, Jón Bragi, Sigurbjörg og Hanna María, eru á Íslandi en heimsækja okkur reglulega til Boston og hafa einnig dvalið hjá okkur yfir lengri tímabil. Þau eru öll yndisleg og mjög hæfileikarík og það er ótrúlega gaman að sjá þau vaxa úr grasi jafn ólík og þau eru. Það getur verið hægara sagt en gert að ná utan um plönin hjá öllum en það er svo sannarlega glatt á hjalla þegar við komum öll saman.“

Nánar systur sem una sér vel saman

Hvernig lýsir þú dætrum þínum?

„Mýrún og Magdalena eru mjög ólíkar en þrátt fyrir 8 ára aldursmun eru þær afar nánar og lyndir vel saman. Mýrún er róleg og yfirveguð og þroskuð fyrir sinn aldur. Hún er vinamörg og rekst vel í hópi og hún á dásamlega góðar vinkonur. Hún er afskaplega næm á fólk og umhverfi og hún er með gríðarlega sterka réttlætiskennd. Hún er samviskusöm og hefur metnað í því sem hún tekur sér fyrir hendur. Hún elskar dans, tónlist og bækur. Mýrún er með yndislega nærveru! Magdalena er fjörkálfur og mikill orkubolti. Hún er afskaplega lifandi og hefur mikið fyrir stafni alla daga. Það er stutt í hláturinn og hún er með ríkt ímyndunarafl. Hún elskar hesta og allt sem þeim tengist og hún er mikill bókaormur. Hún segist vilja verða vísindakona en annars er áhugasviðið hennar enn þá mjög opið. Fyrstu setningarnar sem hún sagði á ensku voru „I'm the line leader. Follow me guys“. Það er alltaf gaman að vera með Magdalenu! Ég er lánsöm móðir því dætur mínar eru svo ólíkar en alveg jafn dásamlegar.“

Brynja lagði stund á ballet þegar hún var yngri og þótti með einstaka hæfileika á því sviði. Eru dæturnar að erfa það frá mömmu sinni?

„Ég get nú lítið dæmt um hæfileikana mína í ballett á sínum tíma en ég hafði svo sannarlega mikinn áhuga og ballett átti hug minn allan. Stelpurnar eru báðar í ballettnámi hjá Boston Ballet School og líkar það vel. Mýrún er að byrja í framhaldsdeildinni og æfir hátt í 14 klukkustundir á viku. Námið hennar er samsett af ballett, módern og karakterdansi. Hún ver miklum tíma í stúdíóinu og sinnir heimalærdómi þegar hún hefur pásur á milli balletttíma. Hún á sem betur fer góðar vinkonur í ballettinum enda eyða þær miklum tíma saman. Á yngri árum tók hún þátt í Nutcracker með Boston Ballet en hún er vaxin upp úr barnahlutverkunum í dag. Magdalena er í barnadeildinni og æfir bara einu sinni í viku. Hún er með frábæran kennara sem er brautryðjandi í ballettþjálfun barna. Hann er búinn að þróa nýtt kennslukerfi sem aðrir skólar eins og New York City Ballet School eru að taka upp. Magdalena er áhugasöm og leggur sig fram og hefur verið fengin til þess að taka þátt í tilraunarverkefnum á vegum skólans.“

Ánægð með aðstæðurnar erlendis

Brynja hefur ekki reynslu af því að ala upp börn á Íslandi enda hefur hún búið á erlendri grundu lengi.

„Mér finnst gott að ala upp dætur mínar þar sem við búum í úthverfi Boston. Skólakerfið er frábært og heldur gríðarlega vel utan um alla nemendur. Dætur mínar hafa átt auðvelt með að eignast góða vini og við höfum verið einstaklega heppin með kennara. Þetta er fjölþjóðlegt samfélag, mikil fjölbreytni og almennt séð umburðarlyndi. Auk þess erum við með dásamlega náttúru allt í kring og mikið dýralíf. Það fer vel um fjölskylduna og við erum hamingjusöm.“

Komið þið reglulega heim?

„Já, við förum til Íslands tvisvar til þrisvar á ári. Við erum yfirleitt á Íslandi um jólin og svo erum við nokkrar vikur á sumrin. Við höfum einnig reynt að skreppa þegar er vorfrí hjá stelpunum. Það hjálpar þeim með íslenskuna enda tala þær báðar íslensku þrátt fyrir að vera hvorki fæddar né uppaldar á Íslandi.“

Brynja er þakklát fyrir að eiga móður, Ágústu Sigfúsdóttur, sem er lifandi fyrirmynd heilbrigðs lífernis.

„Hún er maraþonhlaupari, fjallgöngugarpur og skíðakona og í gegnum lífsstíl sinn og fagþekkingu hefur hún innrætt okkur heilbrigða líkamsmeðvitund. Ætli ég reyni ekki leynt og ljóst að gera hið sama fyrir dætur mínar þó svo að ég eigi nú langt í land að ná með tærnar þar sem mamma er með hælana.“

Hvað gerir ballet fyrir framtíðina að þínu mati?

„Ótrúlega margt! Ballettdansarar búa að styrk og liðleika, samhæfingu og réttri líkamsbeitingu. Ballett getur líka lagt grunn að árangri í öðrum íþróttum sem fólk gæti stundað í framtíðinni. Það er eitthvað við þessa tengingu sem ballettdansarar ná við eigin líkama sem fylgir þeim alla ævi. Hins vegar er það ekki síður andlegi þátturinn. Ballett krefst aga og einbeitingar og mikils úthalds því árangurinn grundvallast á endurtekningum. Það þarf andlegan styrk til þess að komast í gegnum þjálfunina, hún reynir á bæði andlega og líkamlega. Svo má ekki gleyma að ballettdansarar þurfa að skilja tónlist og takta og læra balletttungumálið sem er á frönsku. Kennararnir hennar Mýrúnar þylja stundum upp æfingar án þess að sýna þær og ætlast til þess að nemendurnir viti hvað þau eigi að gera. Ég held að ballettnám sé gott veganesti inn í framtíðina.“

Þakklát fyrir móðurhlutverkið

Hvernig ertu að upplifa móðurhlutverkið?

„Móðurhlutverkið er í senn það erfiðasta og það skemmtilegasta lífsverkefni sem ég hef tekist á við. Það er skilyrðislaust og maður gefur einfaldlega allt í það. Ég er óendanlega þakklát fyrir dætur mínar, heilbrigði þeirra og hamingju og ég vil vanda mig þennan tíma sem ég fæ sem verndari og uppalandi á meðan þær vaxa úr grasi.“

Áttu þér fyrirmyndir á þessu sviði?

„Móðir mín er mín helsta fyrirmynd í móðurhlutverkinu eins og svo mörgu öðru. Systir mín er það einnig. Við mæðgur erum nánar og samheldnar og höfum alla tíð verið vinkonur. Ég vona að mér takist að skapa með sama hætti vinskap og nánd við Mýrún og Magdalenu sem fylgi okkur alla ævi.“

Hvernig var ballettinn öðruvísi hér áður en hann er núna?

„Það er svolítið erfitt að bera saman skólann hér á Íslandi áður og Boston-skólann núna. Þetta eru eiginlega tveir ólíkir heimar.

Það hafa orðið miklar framfarir í dansþjálfun og mikil þekking orðið til hvað varðar heilbrigði og forvarnir til þess að fyrirbyggja meiðsli. Að sama skapi hefur orðið bylting á sviði endurhæfingar svo það er hægt að grípa fljótt inn í þegar meiðsli verða.

Það sem ég tek eftir í Boston Ballet-skólanum er hvað hann er opinn og býður alla velkomna sem vilja dansa og eru tilbúnir að leggja sig fram. Það er ekki markmið í sjálfu sér að búa til atvinnudansara, til þess hefur skólinn sér braut fyrir fáa útvalda, heldur leyfa börnum og unglingum að stunda dansnám af metnaði og gleði. Fullkominn ballettlíkami og afgerandi hæfileikar skipta minna máli. Svo lengi sem nemendurnir halda í við tæknina og kröfurnar fá þau að halda áfram og útskrifast. Þetta finnst mér afar jákvæð þróun enda er ballett og dans fyrir alla!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »