„Blessun að fá að eignast þrjú börn með besta vini mínum“

Halla Vilhjálmsdóttir Koppel leik- og söngkona átti eitt besta sumar sem hún hefur upplifað með fjölskyldunni sinni á Íslandi. Hún er nú flogin aftur út til London þar sem hún býr með eiginmanni sínum og þremur börnum.

Halla býr í London ásamt eiginmanni sínum og börnum. Hún segir hversdagslífið dásamlegt, en tilhugsunina um að koma aftur til Íslands heillandi.

„Ég kynntist Harry Koppel, eiginmanni mínum og besta vini mínum, í gegnum sameiginlega vini sem við eigum á Íslandi. Við Harry bjuggum í kortérs fjarlægð frá hvort öðru í London en höfðum aldrei hist hér. Harry er besti vinur minn. Hann er skemmtileg blanda af breskum hefðarmanni með smávegis suðuramerískri ástríðu og drama.

Börnin okkar eru öll undir fimm ára aldri. Við vinnum bæði í bankakerfinu og erum mjög sammála með flesta hluti sem snúa að fjölskyldunni.“

Lifir lífinu sem hana dreymdi um

Halla segir að margt hafi breyst í lífinu á undanförnum árum. Það hafi ekki bara með börnin og fjölskylduna að gera heldur einnig menntun hennar og feril.

„Mig hefur alltaf langað að setjast á skólabekk til að læra meira um fjármál og viðskipti. Ég skráði mig því í MBA-nám við Oxford-háskólann. Áhuginn vaknaði fyrir þessu námi þegar ég rak líkamsræktastöðvar samhliða leikhúsinu hér áður. Í dag starfa ég fyrir bandaríska fjárfestingabankann Goldman Sachs og hef tekið mér frí frá leiklistinni þótt ég hafi haldið tónlistinni inni í lífinu, með því að skrifa tónlist og taka upp með föður mínum eins og ég hef ævinlega gert.“

Hvernig lýsir þú lífinu eftir barneignir?

„Það er rosalega mikið sem gerist þegar maður eignast börn. Ég get nefnt sem dæmi að Ísland er öðruvísi í augum mínum eftir að ég varð mamma. Við höfum dvalið á Íslandi í sumar á mínum bernskuslóðum í miðborginni. Þar sem eldri börnin tvö fóru á leikskóla á meðan yngsta stelpan var heima hjá okkur foreldrunum.

Leikskólinn á Íslandi sem við vorum svo lukkuleg að fá inni á er einstaklega vel rekin stofnun. Á Íslandi er andrúmsloftið svo afslappað og gott. Kennararnir eru rólegir og börnin almennt í góðu andlegu jafnvægi. Á meðan ég upplifi leikskólakerfið í London miklu háværara, í raun þannig að mann langar til að komast út úr þeim sem fyrst og heim í ró og næði. Á Íslandi eru einnig útisvæðin svo dýrmæt á meðan að börnin þurfa að halda sig meira inni í gæslu yfir daginn í Bretlandi. Það er einnig þannig að börnin fá eftirrétt í hádeginu í London. Hins vegar er maturinn á Íslandi fyrir börnin mjög hollur og börnin tóku sérstaklega eftir því.

Louisa elsta dóttir okkar er að verða fimm ára og fór í skóla í haust á meðan bróðir hennar Harry Þór er einu ári á eftir henni í forskóla í sama skóla. Hann mætir því í forskólann í skyrtu, með bindi og í leðurskóm.“

Búa í fjármálahverfinu í London

Hvar búið þið í London?

„Við búum í Canary Wharf sem er fjármálahverfið í London sem er dásamlegt hverfi sem við kunnum vel við okkur í. Loftið og umhverfið er hreinna því færri umferðargötur eru í kjarnanum og áin Thames rennur hjá okkur.“

Hvað varð til þess að þú breyttir um stefnu í lífinu og ákvaðst að stofna fjölskyldu?

„Það urðu breytingar í lífinu hjá mér þegar ég missti afa minn árið 2009. Ég man augnablikið þegar ég sat í jarðarför afa og horfði á ömmu mína sitja á fremsta bekk í kirkjunni. Þótt hún hafi eflaust saknað hans mikið þá var eitthvað svo einstakt við að sjá hversu mikið hjónabandið hafði gefið þeim. Fjöldann allan af börnum og barnabörnum. Það var á þeirri stundu sem ég ákvað að eignast fjölskyldu sjálf. Þegar ég hitti Harry vissi ég að hann yrði frábær faðir og svo vorum við einnig miklir vinir. Í raun held ég að við höfum aðallega verið heppin með hvort annað. Mér finnst alla vegana mjög mikil blessun að fá að eignast þrjú börn með besta vini mínum.“

Halla segir allar áherslur hafa breyst hjá henni með tilkomu barnanna.

„Ég er einfaldlega allt önnur manneskja. Það eru svo margir hlutir sem skipta ekki máli lengur.“

Áttu þér fyrirmyndir þegar kemur að móðurhlutverkinu?

„Foreldrar mínir eru gríðalega miklar fyrirmyndir. Þau eru bæði miklir kennarar í eðli sínu og bý ég alltaf að því hversu vel þau hlúðu að tíma okkar saman. Það er eitt að hafa tíma fyrir börnin og annað að nýta hann vel. Annars held ég að það sé erfitt að finna eitt svar við þessari spurningu. Eitt af því mikilvægasta sem mér finnst er að leggja mér sjálfri línu, setja mér mörk og börnunum einnig og að reyna að halda í geðheilsu innan þeirra marka. Að muna hvað er mikilvægt og ekki tapa sér í sektarkennd þegar maður nær ekki að vera alveg eins og maður ætlar sér.

Eins finnst mér mikilvægt að vera forvitin og lærdómsfús. Við maðurinn minn höfum bæði áhuga á uppeldi og ræðum það mikið á stefnumótunum okkar. Hvað við getum gert til að standa okkur betur. Ég er á því að það sama eigi við um vinnu og í persónulega lífinu. Maður getur alltaf lært eitthvað nýtt ef maður er fús til að gera betur.“

Börnin taka þátt í eldhúsinu

Af hverju stefnir þú í framtíðinni?

„Það er erfitt að átta sig á framtíðinni enda lifum við á þannig tíma að það eru allir að hugsa öðruvísi. Sem er á margan hátt góð þróun. Í sumar langaði okkur ekki að breyta neinu. En svo tekur raunverulega lífið okkar við, með vinnu og skóla, skyrtum og leðurskóm. En það var viss draumur að vera saman heima.

Við elskum Ísland og ég gæti ekki gefið manninum mínum betri gjöf í heiminum en að gefa honum bláan passa og biðja hann um að flytja til Íslands með mér. Hann hefur alltaf verið hrifinn af íslenskum venjum, íslenskum mat, tungumálinu og íslensku fólki.“

Hvernig taka börnin þín þátt í daglega lífinu?

„Við erum mikið með börnunum okkar. Ég leyfi börnunum að vera með mér í hreyfingu og einnig í eldhúsinu. Ég trúi því að börnin mín þurfi að hreyfa sig líka og þau hafa verið í crossfit, ballet, sundi og jóga. Við gerum æfingar úti á svölum, inni í íbúðinni okkar eða í almenningsgörðum. Það er skemmtilegur agi sem maður kennir börnunum áfram í gegnum jóga. Við bökum ýmislegt, eins og til dæmis súrdeig saman. Börnin eiga sínar eigin svuntur. Þau eru með sínar eigin hreinsistöðvar í eldhúsinu þar sem þau ganga frá eftir sig. Mér finnst þátttaka barnanna mikilvæg á þessu sviði.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »