Stundum erfitt að ala upp börn með fyrrverandi

Gwyneth Paltrow skildi við barnsföður sinn.
Gwyneth Paltrow skildi við barnsföður sinn. AFP

Leikkonan og athafnakonan, Gwyneth Paltrow, er þekkt fyrir gott samband við fyrrverandi eiginmann sinn, Chris Martin, og sameiginlegt uppeldi þeirra er vel þekkt. Þau gera sitt besta barnanna vegna en sumir dagar eru erfiðari en aðrir. 

Paltrow fékk hjálp til þess að mynda gott samband við barnsföður sinn. Í viðtali við Drew Barrymore segir hún að samband þeirra Martins sé betra í dag en það var þegar þau voru gift. Það var mikilvægt fyrir þau að vinna í sjálfum sér og leggur Paltrow áherslu á að sambönd séu alltaf 50/50 eins og hún orðar það. Sama hvað fólk heldur. 

Það var lykilatriði fyrir Paltrow að börnin hennar tvö, Apple sem er 16 ára og Moses sem er 14 ára, kæmu vel út úr skilnaðinum, ekki í áfalli. 

„Við Chris vorum staðráðin í að setja þau í fyrsta sæti og það er erfiðara en það lítur út fyrir,“ sagði Paltrow. „Af því suma daga langar þig ekki að vera með manneskjunni sem þú ert að skilja við. En ef þú ert staðráðin í að þið borðið saman sem fjölskylda þá gerið þið það. Og þú dregur djúpt inn andann, horfir í augu manneskjunnar og rifjar upp samkomulag ykkar, þú brosir, þú faðmar, þú grínast og þú gengst við ábyrgðinni sem fylgir þessu nýja sambandi sem þú ert að reyna að takast á við.“

Enginn er fullkominn og Paltrow viðurkenndi í viðtalinu að þau ættu sína góðu og slæmu daga. Markmið hjónanna fyrrverandi er þó það sama, að gera það besta fyrir börnin. 

mbl.is