Glöð að ég gafst ekki upp á að fá þá í heiminn

Kristín Agnarsdóttir og Greg Plumbly ásamt sonum sínum; Henrik Agnar …
Kristín Agnarsdóttir og Greg Plumbly ásamt sonum sínum; Henrik Agnar og Hugo Inga.

Kristín Agnarsdóttir, grafískur hönnuður, eignaðist tvö börn eftir fertugt eftir að hafa glímt við ófrjósemi lengi. Þegar hún kynnstist manninum sínum, Greg Plumbly, ákváðu þau að leita allra leiða til að reyna að eignast börn.

Kristín hefur á undanförnum árum verið búsett í Bretlandi. Þar áður bjó hún í Bandaríkjunum. Hún staldrar vanalega stutt við á Íslandi – þótt hún elski landið sitt út af lífinu. Nú er kórónuveiran að setja strik í reikninginn og fjölskyldan komin heim aftur tímabundið.

Kristín er framakona og hefur alla tíð lagt megináherslu á það að vera með áhugaverða og góða vinnu. Í raun þar til hún kynntist manninum sínum og þau ákváðu að eignast börn saman.

„Ég kynntist manninum mínum, Greg Plumbly, í Bretlandi. Við fengum okkur kaffi saman og vorum svo byrjuð að búa saman eftir einungis þrjá mánuði. Drengirnir okkar eru þeir Henrik Agnar sem er tveggja ára frá því í apríl og Hugo Ingi sem er níu mánaða. Við Greg höfum frá fyrstu stundu verið ákaflega góðir félagar. Við erum sammála með marga hluti og getum síðan yfirleitt rætt það sem á milli stendur.“

Þurfti meðferð og inngrip til að eignast börnin

„Ég hafði glímt við ófrjósemi lengi áður en ég kynntist Greg og get ekki talið allar þær meðferðir sem ég hef farið í til að eignast börnin okkar. Við leituðum leiða til að eignast börnin í London, á Íslandi og enduðum síðan á Spáni. Ég var rosalega heppin og við lukkuleg að börnin komu til okkur á endanum.

Ég er með endómetríósu og hef alltaf verið að kljást við það. Þegar ég bjó í New York, 37 ára að aldri, fékk ég utanlegsfóstur og þá hófst ferlið mitt upphaflega þar. Það var erfitt tímabil, þar sem ríkið styður ekkert við svona aðgerðir og þjóðfélagið í sjálfu sér fjandsamlegt veiku fólki. Ég vann myrkranna á milli, milli þess sem ég var í meðferðum og fann fljótt að það var ekki að ganga upp. Síðan fór ég í nokkrar meðferðir á Íslandi og svo í London. Tækninni á þessu sviði fer gífurlega fram. Fólk þarf að fylgjast vel með og einnig að taka eftir því hvaða lönd eru framarlega á þessu sviði á hverjum tímapunkti. Við vildum prófa að fara í frjósemismeðferð á Spáni og fundum mjög gott klínik þar sem boðaði mjög góðan árangur og samkeppnishæft verð.“

Þá breiddist yfir risastórt sár

Kristín segir að meðgangan hennar hafi verið dásamleg þótt hún hafi verið eilítið óttaslegin um að hlutirnir myndu ekki fara á besta veg fyrir fjölskylduna.

„Fyrst á meðgöngunni náði ég ekki að slaka á. Því ég var að bíða eftir áfallinu. Ég er frekar kærulaus manneskja í eðli mínu og ekki týpan sem bíður eftir því að eitthvað gerist. En ég þorði ekki að gleðjast fyrr en seint á meðgöngunni. Þá gat ég farið að slaka aðeins á. Síðan þegar ég fékk eldri son minn fyrst í fangið þá upplifði ég mikla sælu. Þá breiddist yfir risastórt sár og ég varð afskaplega glöð að ég gafst ekki upp á að fá hann í heiminn.“

Kristín segir að börnin hafi komið til fjölskyldunnar á hárréttum tíma. Hún hafi notið fyrri hluta ævinnar í skemmtilegum vinnum og að flytja á milli landa, en nú sé fjölskyldan jarðbundnari og búin að koma sér vel fyrir í Bretlandi.

,,Það er yndislegt að vera foreldrar og höfum við rosalega gaman af börnunum okkar. Við höfum bæði góðan tíma fyrir börnin og eiga drengirnir alla okkar athygli. Þótt ég sé að eignast börnin á mínum aldri þá er ég alls ekki að segja að manni takist eitthvað betur upp fyrir vikið. Það er mjög misjafnt hvernig mér tekst til þótt ég sé að sjálfsögðu að reyna mitt besta á hverjum degi.“

Það sem hefur komið Kristínu mest á óvart fyrir utan hvað hjartað stækkar mikið, er hvað allur aldur er áhugaverður þegar kemur að börnunum.

„Mér finnst ofboðslega gaman að sjá þegar börnin þroskast og dafna. Ég hef alltaf haft gaman af börnum, en ég vissi ekki hversu ofboðslega áhugaverð þau geta verið. Þau eru svo snögg að læra og sniðug með allt sem þau eru að gera. Því hefur mér þótt skemmtilegast að fylgjast með sem móðir.“

Áskorunina við barnauppeldið segir Kristín vera að halda öllum boltum á lofti.

„Umstangið í kringum foreldrahlutverkið er síðan aðeins erfiðara en ég hélt þegar kemur að því að framkvæma allt sem þarf að gera yfir daginn. Drengirnir mínir eru enn þá svo ungir. Við höfum verið með þá báða heima síðan í mars sem gerir allt aðeins erfiðara líka. Maður er alveg ótrúlega fljótur að missa tökin á þvottinum, dótinu og matnum sem stundum læðist í gólfið hjá okkur. Svefninn og brjóstagjöfin hefur gengið vel. En það eru stundum litlu hlutirnir og vesenið sem vefjast fyrir mér. Svo sem hvaða kuldaföt er best að kaupa og þar fram eftir götunum.“

Mikilvægt að tengjast fólki með svipaða reynslu

Kristín segir að það hafi reynst henni vel að vera í alls konar mömmuhópum.

„Það eru sniðug foreldranámskeið í London sem við höfum verið á og í gegnum þannig námskeið hefur maður komist í góða hópa. Þegar maður býr fjarri æskuslóðum getur stuðningsnetið verið minna en ella og þá getur verið æðislegt að vera með mömmur á Whatsapp sem eru að fást við það sama og maður sjálfur hverju sinni. Við erum margar hverjar alveg meiri háttar nánar í dag. Sérstaklega nokkrar mæður sem ég kynntist sem höfðu átt langa og erfiða leið í móðurhlutverkið vegna ófrjósemi.“

Kristín bjó hluta af æsku sinni erlendis með foreldrum sínum, þar sem faðir hennar vann fyrir Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna á Norðaustur-Englandi. Nú er öll fjölskyldan samankomin í London hluta af ári sem er yndislegt en bróðir hennar, Brynjar Agnarsson, og foreldrarnir búa nálægt.

Áttu þér fyrirmyndir þegar kemur að móðurhlutverkinu?

„Ingunn Hjaltadóttir móðir mín er mikil fyrirmynd. Hún hefur alltaf verið rosalega dugleg að skemmta okkur börnunum sínum. Hún er mjög hlý og góð. Spilaði skemmtilega tónlist með John Lennon á meðan hún lék með okkur börnunum sínum þegar við vorum lítil og í sjálfu sér áttum við bróðir minn athygli foreldra okkar svo til óskipta. Svo á ég frænku og nokkrar vinkonur sem hafa alltaf verið miklar fyrirmyndir mínar þegar kemur að því að búa til og ala upp einstaklega vandað ungt fólk. Finna hæfilegt þjónustustig fyrir börnin á heimilinu. Það að kenna börnunum að taka eðlilega ábyrgð á sér miðað við aldur, draga línur og ala upp börnin.“

Hvað viltu segja við konur sem þrá að verða mömmur en eru að kljást við ófrjósemi?

„Ég mæli með að allar konur finni móður sem hefur gengið í gegnum hið sama. Sem getur þá gefið þeim ráð og bent þeim á nýjustu tæknina á þessu sviði. Það er einnig mikið af góðum spjallhópum á alnetinu en það er gulls ígildi að hafa félaga sem geta stappað í mann stálinu á réttum stundum og veitt manni ráðgjöf í þessum frumskógi. Síðan held ég að það sé nauðsynlegt að gefast ekki upp fyrr en konur eru tilbúnar til þess. Stundum tekur frjósemisferlið langan tíma og ég hef reynsluna af því.“

Áttu ráð fyrir feður í sömu stöðu?

„Ég myndi ráðleggja feðrum að setja sig eins vel inn í ferlið og þeir geta. Það er mikið sem þarf að stússast og skrá og skilja og margir boltar sem þarf að halda á lofti sem feður geta stigið inn í og tekið þátt í. Feðurnir skipta ákaflega miklu máli og geta aðstoðað með svo margt. Það hvílir svo mikið á konunum í meðferðinni, andlega og líkamlega, sér í lagi þegar konur eru á alls konar lyfjum sem tekur á og þá er mikilvægt að þau geti deilt svolítið ábyrgðinni.“

Mikið frelsi að vera á Íslandi

Kristín segir óljóst hvað veturinn muni fela í sér.

„Það verður erfitt að gera plön fyrir árið 2020. Við munum bara reyna að snúa aftur heim þegar fæðingarorlofið er búið og við treystum okkur til þess að vera í London. Við erum að reyna að vera eins lipur og við getum. Við erum að koma úr umhverfi þar sem maður gat ekki farið út reglulega yfir daginn. Við gátum ekki hitt neinn innandyra og einungis verið úti í garði með fólki í hæfilegri fjarlægð. Þegar við komum til Íslands vorum við orðin svolítið langþreytt á því að heimurinn okkar væri einungis íbúðin okkar. Hér heima getum við farið út í búð pólslök og ég hoppað út í golf á kvöldin og tekið níu holur með vinkonum mínum. Við erum heppin að geta notað tækifærið og leyft strákunum að kynnast frændfólki sínu og íslenskum krökkum og samfélagi. Gæðastundir í pollagöllum og læra íslensk leikskólalög er ómetanlegt. Það gleður móðurhjartað allan daginn.“

Hugmyndir yfirstéttarinnar hamlandi fyrir konur

Kristín segir margt vera undir yfirborðinu í samfélögum þar sem barnagæsla er eins dýr og hún er í London.

„Barnagæsla er eins og íbúðarlán á hvert leikskólabarn og það er alveg lamandi álag. Fyrir utan þessar augljósu afleiðingar fyrir konur og frama þeirra, launamisréttið, eftirlaunasjóðinn og hættuna að konur detti alveg út af vinnumarkaðnum þá hefur þetta áhrif á stóran hluta fólks á lykilárum í frama. Fólk hugsar ekki eins mikið út fyrir rammann, tekur síður áhættur og verður þrælar leikskólagjaldanna og það er mjög slæmt fyrir atvinnuumhverfið og nýsköpun. Guttar eins og Boris Johnson og Jacob Rees-Mogg ættu svo sem að vita að maður fjárfestir ekki bara í öðru kyninu. En þeirra hugmyndir um kvenréttindi og fjölskyldulíf eru sirka 300 ára gamlar og löngu súrar. Svona yfirstéttarkútar skilja málefnið einfaldlega ekki og spyrja sig ef til vill í algjörri einlægni af hverju konur myndu vilja fara út á vinnumarkaðinn til að byrja með? Leggja þetta vesen á sig þegar mennirnir geta séð um reikningana? Í ofanálag eru leikskólar svo hugsaðir sem verra úrræði en fóstrur hjá yfirstéttarkútunum svo þetta er bara annars flokks gæsla í þeirra huga sem er rangt hugsað að mínu mati. Hér heima er svo dásamlega mikið upplagt með góðu leikskólastarfi sem allir hafa jafnan aðgang að. Þetta er gjörsamlega til fyrirmyndar því þetta er svo mikilvægur stökkpallur fyrir nýjar fjölskyldur; bæði fyrir börnin og foreldrana. Þar sem börnin geta lært af jafnöldrum sínum og foreldrarnir haldið áfram að leggja til í þjóðarbúið. Í umhverfi þar sem leikskólar eru dýrir hættir mæðrum til að vera heima lengur en þær vildu vera og því lengur sem þær eru frá því erfiðara er að snúa aftur. Makinn tekur á sig alla ábyrgð á tekjum og svona verður meiri og meiri skipting á heimilinu sem ef til vill hvorugt foreldrið hefði kosið. Enginn fær jafnvægi og allir fyllast gremju. Þessar gömlu staðalímyndir eru svo hafðar fyrir börnunum og áfram rúllar hjólið.

Mér finnst mjög mikilvægt að börn séu alin upp við jákvæðar staðalímyndir og við leggjum ekki út með að eitt kyn sé framar öðru.“

Kristín segir að Ísland sé algjörlega til fyrirmyndar þegar kemur að þessu.

,,Eina skuggahliðin af því að búa á Íslandi er rokið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert