Héldu upp á blæðingar með blæðingaveislu

Það er stór áfangi að byrja á blæðingum.
Það er stór áfangi að byrja á blæðingum. Samsett mynd

„Dóttir mín var búin að ákveða það fyrir um tveimur árum að þegar hún myndi byrja á blæðingum þá langaði hana að hafa veislu. Þetta ákvað hún í kjölfarið á samtali sem ég átti við hana um mismunandi viðhorf í heiminum gagnvart blæðingum og að sumstaðar væri haldið upp á þetta,“ segir íslensk móðir sem hélt blæðingaveislu fyrir dóttur sína fyrir nokkrum vikum. 

„Hún vildi bjóða vel völdum og hafa rautt þema. Við bökuðum rauðvínssúkkulaðiköku og ég gerði heimatilbúinn hummus með rauðrófum og svo vildi hún hafa rautt hlaup og rauðan djús. Við komum saman hérna í stofunni heima og ömmur og frænkur og vinkonur komu. Þetta var mjög sniðugt því gestirnir, án þess að það hafi eitthvað verið rætt, komu með gjafir handa dóttur minni. Túrnærbuxur, fjölnota bindi, túrdagbók og jarðarber sem dýpt var í súkkulaði og blómvendi.

Þetta varð alveg einstaklega falleg og hátíðleg stund. Í stað þess að skammast sín eða vera feimin með þetta þá fögnuðum við áfanganum og umræður tengdar blæðingum urðu til á mjög náttúrulegan hátt þar sem við deildum alls konar um túrinn og við lærðum allar eitthvað nýtt, líka þær sem voru komnar á breytingaskeið. 

Ég var búin að panta atriði, vinkonur mínar í Hljómsveitinni Evu eiga nefnilega svo fallegt blæðingalag. Þetta var óvænt og féll mjög vel í kramið hjá gestum og dótturinni. Þær spiluðu blóðlagið og tóku síðan lagið Sjálfstæðar konur, sem toppaði þetta alveg.“  

Breytti veislan einhverju fyrir ykkur?

„Já ég held að þetta hafi haft mjög góð og jákvæð áhrif. Að fagna og deila sögum og finna fyrir samstöðu getur ekki verið neitt annað en jákvætt og fallegt. Þetta er eflaust ekki fyrir allar og mikilvægt að þetta sé gert á þeirra forsendum.“ 

Móðirin telur að stelpur séu opnari í dag með það að byrja á blæðingum.

„Ég vildi ekki segja neinum nema vinkonum en ég á sem betur fer mömmu sem les hugsanir þannig að þegar ég byrjaði þá þurfti ég bara að segja: „Ég held ég komist ekki í sund.“ En við vorum fyrir vestan á leið í sund. Hún sagði: „Ég skil,“ og skipaði pabba mínum sem keyrði bílinn að stoppa í búð.“

Dóttirin tekur undir með mömmu sinni og segir ungar stúlkur í dag nokkuð opnar um blæðingar. 

„Það eru allir frekar opnir, eða við stelpurnar. Við tölum um þetta saman. Mér finnst þetta ekki vera feimnismál,“ segir dóttirin. 

Móðirin segir að þær hafi ekki beint kynnt sér fornar hefðir sem tengjast manndógsvígslum í tengslum við blæðingaveisluna. Hún þekkir þó aðeins til hefðanna og segir blæðingaveisluna sem þær héldu snúast meira um að fanga líkamanum.

„Þetta snýst aðallega um að fagna líkamanum og ekki að skammast sín eða finnast náttúrulegir hlutir vera feimnismál. Við tölum til dæmis líka mjög opinskátt um sjálfsfróun og mikilvægi þess að elska sig og bera virðingu fyrir sér og öðrum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert