Sá son sinn í heimildarmynd

Sia sá son sinn í heimildarmynd og ákvað að ættleiða …
Sia sá son sinn í heimildarmynd og ákvað að ættleiða hann.

Tónlistarkonan Sia, sem nýlega ættleiddi tvo 18 ára gamla drengi, segir að hún hafi fyrst séð son sinn í heimildarmynd. Sia prýddi forsíðu ástralska Vogue í október og í viðtalinu opnaði hún sig um hvernig það kom til að hún ættleiddi drengina. 

„Ég er háð raunveruleikasjónvarpi og heimildarmyndum, og ég horfði á heimildarmynd og sá son minn,“ sagði Sia. Hún segist strax hafa fundið fyrir tengingu við hann og þegar hún vissi að hann ætti ekki sína eigin fjölskyldu ákvað hún að ættleiða hann. 

Hún fann út hver drengurinn var og ættleiddi hann og vin hans. Hún segir ættleiðinguna það besta sem hún hafi gert og að sig langi til að taka að sér fósturbörn. 

„Þetta er auðvitað eitt það erfiðasta sem ég hef gert, en það er algjört yfirflæði af ást og ég sé fyrir mér að ég vilji gera þetta aftur, en ekki alveg strax. Mig langar til að taka ungbarn í fóstur. Kannski er mamma þess í neyslu og ég gæti hjálpað til við að hugsa um barnið þar til mamma þess hættir eða einhver fjölskylda ættleiðir það. Ef ég gæti gert það myndi mér líða eins og ofurmanneskju,“ sagði Sia. 

Sia greindi fyrst frá því á síðasta ári að hún hefði boðið tvo drengi velkomna í fjölskylduna í viðtali í maí í fyrra. 

„Ég ættleiddi tvo drengi á síðasta ári. Þeir voru báðir átján ára, og eru nítján ára núna. Þeir voru orðnir of gamlir fyrir fósturbarnakerfið. Já ég elska þá,“ sagði Sia.

mbl.is