Tekur dóttur sína með á æfingar

Khloe Kardshian ásamt dóttur sinni True.
Khloe Kardshian ásamt dóttur sinni True.

Khloé Kardashian hefur vanið sig á að taka tveggja ára dóttur sína True með sér þegar hún hreyfir sig og ræktar líkamann. Hún lítur á það sem tækifæri til þess að tengjast betur.

Kardashian segir í viðtali við Refinery29 að það að einbeita sér að líkamsrækt hafi hjálpað sér að halda jafnaðargeði í miðjum kórónuveirufaraldri. Hún þurfi þó oft að taka dóttur sína með þar sem hún er ekki með neina barnfóstru. 

„Ég trúi því staðfastlega að það að hafa svona veluppbyggða líkamsræktarrútínu hafi hjálpað mér að halda geðheilsunni á þessum skrítnu tímum,“ segir Kardashian. „Ég þurfti að aðlaga æfingarnar að dóttur minni. Hún stundar augljóslega ekki líkamsrækt en ég set hana stundum í kerruna og hleyp upp brekkur.“

Þá leggur Kardashian mikla áherslu á að sýna gott fordæmi.

„Ég vil sýna dóttur minni að það eru heilbrigðar leiðir til þess að vera virkur alla daga. Maður þarf ekki að vera stífur á að mæta í líkamsræktarsal. Ég kýs að hreyfa mig snemma að morgni, það setur tóninn fyrir daginn. Fær mig til þess að vilja borða hollar, vera virk og heilbrigð. Ef True sér mig gera þetta vona ég að hún verði sjálf virk og hugsi vel um sjálfa sig.“

mbl.is