Skammaðist sín fyrir að vera ólétt 16 ára

Jamie Lynn Spears
Jamie Lynn Spears Skjáskot/Instagram

Leikkonan Jamie Lynn Spears segist hafa dauðskammast sín þegar hún þurfti að segja foreldrum sínum að hún væri ólétt aðeins 16 ára gömul. 

Spears varð ólétt árið 2007 eftir þáverandi kærasta sinn, Casey Aldridge, og eignaðist dóttur sína árið 2008 þegar hún var 17 ára gömul. „Maður verður ástfanginn í fyrsta skipti, eða það sem maður heldur að sé ást þegar maður er í framhaldsskóla. Maður heldur að þetta muni vara að eilífu og síðan, Guð minn góður, varð ég ólétt,“ sagði Spears í viðtali við Nylon í vikunni. 

Hún segist hafa dauðskammast sín þegar hún sagði foreldrum sínum frá óléttunni. „Það er manneskja að vaxa inni í mér og ég er svo ung, ég var sjálf eiginlega barn,“ sagði Spears. 

Spears og Aldridge fluttu til Liberty í Mississippi-ríki í kjölfar þungunarinnar. „Ég keypti hús. Setti stóra girðingu umhverfis það og hugsaði með mér að hér ætlaði ég að vera, ala barn mitt og finna út úr þessu lífi. Ég er búin að koma mér í þessar aðstæður og þó ég sé ekki að segja að þetta hafi verið rétt val hjá mér þarf ég að spila eins vel úr þeim spilum sem ég er með á hendi. Og ég reyndi að gera það,“ sagði Spears.

mbl.is