Mamma Roberts opinberaði óvart óléttuna

Emma Roberts.
Emma Roberts. AFP

Kelly Cunningham, móðir leikkonunnar Emmu Roberts, opinberaði óvart að dóttir hennar ætti von á barni í skilaboðum til aðdáenda hennar á Instagram. Þá var Roberts sjálf ekki búin að tilkynna heiminum að hún ætti von á sínu fyrsta barni. 

Roberts var gestur Jimmys Kimmels á mánudagskvöldið síðastliðið og sagði frá því að mamma hennar hefði óvart deilt fréttunum með heiminum á undan henni. Roberts útskýrir að mamma hennar sé ekki mjög góð þegar kemur að nýrri tækni og að fyrir þremur árum hafi hún enn þá átt samlokusíma. 

Roberts hafi hins vegar gefið móður sinni iPhone og hún hafi skráð sig á Instagram. Á Instagram spjallaði hún svo grunlaus við adáendur dóttur sinnar og þakkaði þeim fyrir hamingjuóskirnar að hún ætti von á barnabarni. Þá hafði komist í slúðurmiðla að hún ætti von á barni. 

„Vinir mínir voru að senda mér skjáskot og þetta var alveg ótrúlegt. Síðan sagði ég við hana: „Mamma, þú opinberaðir að ég ætti von á barni“ og hún segir: „Emma þú varst búin að tilkynna það“ og ég sagði: „Nei, ég var ekki búin að því, það var slúður“ og hún sagði: „Ó það var ekki skýrt“.

Roberts tilkynnti svo sjálf í lok ágúst að hún og kærasti hennar Garrett Hedlund ættu von á sínu fyrsta barni. 

mbl.is