Pirraður á að fæðingu Archies hafi verið haldið leyndri

Vilhjálmur er sagður hafa verið pirraður á leyndarhyggjunni.
Vilhjálmur er sagður hafa verið pirraður á leyndarhyggjunni. AFP

Vilhjálmur Bretaprins er sagður hafa verið mjög pirraður á því að fæðingu Archies, sonar Harrys bróður hans og Meghan hertogaynju, var haldið leyndri. Buckinghamhöll gaf það út klukkan 14 hinn 6. maí að Meghan og Harry væru á leið á fæðingardeildina. Þá voru hins vegar átta og hálfur tími síðan litli maðurinn mætti í heiminn. 

Með þessu ráðabruggi gátu Harry og Meghan átt son sinn í friði og komist heim af fæðingardeildinni áður en heimurinn vissi nokkuð. Fjallað er um fæðingu Archies í bókinni Battle of Brothers: William, Harry and the Inside Story of a Family in Tumult. 

Í bókinni segir breski sagnfræðingurinn Robert Lacey að Vilhjálmur hafi verið svo pirraður á ráðabrugginu og leyndarhyggjunni að hann hafi beðið í átta daga með að heimsækja þau eftir fæðinguna.

„Til samanburðar fóru drottningin, Filippus, Karl og Camilla öll í heimsókn nokkrum klukkustundum seinna – og það virtist skrítið að þegar Cambridge-hjónin fóru loksins í heimsókn meira en viku seinna tóku þau börnin sín þrjú, Georg, Karlottu og Lúðvík, ekki með sér,“ segir Lacey í bókinni.

Drottningin og Filippus hertogi drifu sig í heimsókn daginn sem …
Drottningin og Filippus hertogi drifu sig í heimsókn daginn sem Archie fæddist. CHRIS ALLERTON / SUSSEXROYAL
mbl.is